Alnæmi: bölvaldur án landamæra

Þegar tölur verða mjög háar er hætt við að þær verði ekki lengur raunverulegar í hugum þeirra sem lesa. Þannig er auðveldara að skynja einn eða tvo heldur en milljón eða milljarð. En þegar við lítum á tölur um hvernig alnæmi er að leika íbúa Afríku skulum við reyna að hafa í huga að á bak við tölurnar er fólk, sem í langflestum tilvikum er að deyja. Alnæmi er orðin algengasta dánarorsök í Afríku. Tíu sinnum fleiri deyja úr alnæmi heldur en í stríðsátökum. Ef þetta kemur á óvart, þá er það skiljanlegt enda átök miklu oftar í fréttum. Alnæmi er þögull sjúkdómur og fórnarlömb hans heyja sitt dauðastríð að mestu innan fjögurra veggja heimilis síns.

En lítum á nokkrar staðreyndir:

 • Einn af hverjum fjórum íbúum Zimbabwe á aldrinum 15 – 49 ára er sýktur HIV veirunni
 • Rúmlega átta milljón börn í Afríku hafa misst móður eða báða foreldra í helgreipar alnæmis
 • Í Botswana voru lífslíkur við fæðingu 62 ár árið 1995; þær eru núna 47 ár og búist er við að þær fari í 41 ár árið 2005, vegna alnæmis
 • Þriðja hver barnshafandi kona í sveitum Malaví er smituð HIV veirunni

Við höfum vitað af alnæmi í um átján ár og í Afríku er umfang þessa faraldurs enn að aukast með miklum hraða. Nú er talið að eftir tíu ár verði lífslíkur almennings í níu Afríkulöndum lægri en þær voru á árunum 1960 til 1970.

Á 75 ára afmæli Rauða kross Íslands þann 10. desember var stödd hér á landi framkvæmdastjóri mósambíska Rauða krossins, Fernanda Teixeira. Hún benti á að dag hvern sýktust 700 manns af HIV veirunni í heimalandi sínu, þar af mikið af ungu menntafólki. Mósambík er eitt fátækasta land í heimi og má síst við því að missa þetta fólk, nú þegar landið er loks að komast yfir margra ára innanlandsófrið. Í nágrannaríkinu Malaví sýkjast þrír kennarar á dag af HIV veirunni. Blóðtakan er ólýsanlega sár.

Á bak við hverja tölu er karl sem liggur þjáður heima fyrir, kona sem vinnur erfiðisvinnu fram undir hið síðasta eða barn sem hrökklast út á götuna í betl og vændi af því að það á ekki lengur neinn að. Helmingur allra þeirra sem sýkjast af HIV veirunni í Afríku fá hana í líkamann fyrir 25 ára aldur og deyja áður en börnin eru orðin sjálfbjarga.

Alnæmi hefur áhrif á börnin löngu áður en foreldrarnir falla frá. Þegar foreldrarnir veikjast og heyja sitt dauðastríð fara allar tekjur fjölskyldunnar, og allur sparnaður, í umönnun þeirra. Þegar börn þeirra eru orðin munaðarlaus eru þau oft komin út að ystu mörkum örbirgð.

 

 • Skipta þau máli?Rauði krossinn er þessa dagana að hvetja fólk til að gerast styrktarmenn félagsins og leggja þannig 2.500 krónur á ári af mörkum til að bjarga mannslífum og lina þjáningar í sunnanverðri Afríku. Framlög styrktarmanna næstu þrjú ár fara til þessa verkefnis, sem á að vara í fimm ár, enda ekki hægt að bregðast við vágestinum nema með langtíma starfi, sem byggist bæði á þrautseigju og þolinmæði.

  Við viljum ekki bara safna fé til verkefnisins, þó það sé mikilvægt, heldur líka vekja athygli á þessum mikla vanda sem stefnir heilu samfélögunum í hættu. Einstaklingar um alla álfuna, og sérstaklega í suðurhluta hennar, eru að veslast upp langt fyrir aldur fram. Hver og einn þeirra skiptir máli og það er í okkar valdi að bregðast við.

  Ef svo fer fram sem horfir verða allar framfarir í heilbrigðismálum tugmilljóna manna þurrkaðar út á nokkrum árum. Afleiðingarnar sjást í þorpum Afríku. Ungir fræðimenn sem bjuggu um nokkurra mánaða skeið í einu þorpi í Malaví segja að fólk á miðjum aldri hafi hreinlega horfið. Þorpsbúar áttu í erfiðleikum með að ákveða hverjum þeir ættu að fylgja til grafar því útfarir voru stundum þrjár eða fjórar á dag. Ömmur ólu upp barnabörnin, sem sum voru sjálf með veiruna í sér.

  Í Malaví eru 300.000 börn sem hafa misst foreldra sína – annað hvort móður eða bæði móður og föður – í helgreipar alnæmis. Sum þeirra eru sjálf sjúk og dauðvona. Nú eru til lyf sem halda sjúkdómnum niðri, en þau eru svo dýr að engin von er til að þau komi fórnarlömbum alnæmis í Afríku að nokkru gagni. Það besta sem hægt er að gera fyrir afríska alnæmissjúklinga er að búa þeim mannsæmandi líf – þangað til þeir deyja.

  Mitt í umræðu um stríð í Evrópu og náttúruhörmungar víða um heim er eins og þau spellvirki sem alnæmi er að valda í Afríku hafi gleymst eða þau vikið fyrir öðru. Á vettvangi Rauða krossins er unnið að forvarnarstarfi og heimaaðhlynningu, en það starf er í fjársvelti á meðan athygli umheimsins beinist annað. Rauði kross Íslands hefur um nokkurt skeið stutt alnæmisstarf í Afríku, meðal annars í Suður-Afríku, Lesótó, Mósambík og Úganda. En betur má ef duga skal.

  Rauði kross Íslands ætlar nú að leggja miklu meiri áherslu en fyrr á baráttu gegn alnæmi í sunnanverðri Afríku og merkja má að annars staðar séu menn líka að vakna upp við vondan draum. Það vekur von um að takast megi að blása til sóknar gegn alnæmisplágunni.

 • Hvað er til ráða?Einkum er barist á þrennum vígstöðvum: fornvörnum, aðhlynningu og rannsóknum. Rannsóknir fara fram á vegum fjölmargra opinberra aðila og einkafyrirtækja í því skyni að finna ódýr lyf sem annað hvort halda sjúkdómnum niðri eða koma í veg fyrir að hann komi upp. Aðhlynning fer jafnan fram á heimili sjúklingsins, en sá vandi er í Afríku eins og víðar að alnæmi er mikið feimnismál. Forystumenn, meðal annars í stjórnmálum, fóru ekki að viðurkenna alnæmi sem raunverulegt vandamál fyrr en nýlega. Mikið forvarnastarf hefur verið unnið af fjölmörgum aðilum, en lítið hefur farið fyrir því og það hefur ekki borið árangur sem skyldi. Hlutverk Rauða krossins er einkum forvarnir og aðhlynning. Rauða kross félög í Afríku hafa á að skipa tveimur milljónum sjálfboðaliða. Þetta er mikill forvarnaher sem nú er verið að skipuleggja til markvissrar atlögu gegn alnæmi, og reyndar mörgum öðrum fyrirbyggjanlegum sjúkdómum. Sjálfboðaliðarnir – sem fyrirfinnast í borgum, bæjum og þorpum um gjörvalla Afríku – segja sínum nánustu frá því hvernig alnæmi smitast og hvernig sé hægt að koma í veg fyrir smit. Ungmennahreyfingar landsfélaga Rauða krossins setja upp leikþætti, skipuleggja samkomur og dreifa bæklingum til að vara félaga sína við óvörðum kynmökum. Á meðan leitað er að ódýrum lyfjum og almenningur er varaður við HIV veirunni má ekki gleyma þeim milljónum manna sem nú eru sýktar. Vegna þjóðfélagslegra aðstæðna er oft erfitt fyrir fólk að viðurkenna að einhver í fjölskyldunni hafi smitast af alnæmi. Þetta skapar meðal annars þann augljósa vanda að ekki er hægt að aðstoða sjúkling sem ekki er vitað um. Það þarf að fá umræðu um alnæmi upp á yfirborðið í Afríku. Ýmislegt bendir til að þetta sé að takast. Fyrir nokkrum dögum ákvað öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að fjalla um alnæmi, í fyrsta sinn sem það ráð tekur heilbrigðismál á dagskrá. Leiðtogar Afríkuríkja sjálfra eru farnir að tala opinskátt heima fyrir um þessa miklu ógn, og hafa þá líklega í huga fordæmið frá Úganda. Þar fékkst bæði mikill fjárhagslegur og pólitískur stuðningur við baráttuna gegn alnæmi með þeim árangri að alnæmistilfellum þar hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Frekari fróðleikur á heimasíðu Rauðakrossins www.redcross.is