Algengir barnasjúkdómar

Hlaupabóla

Orsök og smitleið: Veira (varicella–zoster) smitast með úðasmiti og snertingu. Meðgöngutími sjúkdómsins, það er tíminn frá því barnið smitast þar til einkennin koma fram, er allt að tvær vikur.

Einkenni: Oft hitavella, slappleiki og lystarleysi í sólarhring áður en útbrot koma fram. Útbrot byrja oftast á búk og andliti og breiðast síðan út. Þau byrja sem litlar rauðar bólur en verða að blöðrum eftir nokkra klukkutíma. Þær verða síðan að sárum á 1-2 dögum. Hrúður myndast og blöðrurnar þorna. Útbrotin valda kláða. Barnið getur fengið hita.

Meðferð: Að draga úr kláða. Kaldir bakstrar geta linað kláðann, einnig getur slegið á að setja barnið í volga sturtu en látið barnið ekki í bað þar sem það getur dreift sýkingunni. Ráðlegt er að klippa neglur barnsins þar sem þau klóra gjarnan í blöðrurnar. Gætið fyllsta hreinlætis. Ef kláðinn veldur miklum vandræðum er hægt að nota lyf sem slá á hann.

Smithætta: Smithætta er fyrir hendi í um þrjá daga áður en útbrot koma fram og þann tíma sem útbrotin eru til staðar. Haldið barninu heima við þangað til hrúðrið er horfið og sárin hætt að vessa.

 

Kíghósti

Orsök og smitleið: Baktería (Bordetella pertussis). Smitast með úðasmiti. Meðgöngutími sjúkdómsins er 5 til 15 dagar.

Einkenni: Fyrstu einkenni eru um tveggja vikna langt hvef með vægum hósta. Þá koma til löng hóstaköst með andköfum og hvæsandi soghljóðum. Oft fylgja uppköst í kjölfarið. Hiti er oftast eðlilegur.

Meðferð: Stuðningur við barnið í hóstaköstunum. Ferskt loft og margar litlar máltíðir þar sem stórir fæðuskammtar geta leitt til uppkasta.

Smithætta: Smithættan er til staðar frá fyrstu hóstakjöltrum og þar til hóstinn hefur staðið í um sex vikur. Forðist að barnið umgangist börn yngri en eins árs.

 

Rauðir hundar

Orsök og smitleið: Veira, smitast með úðasmiti. Meðgöngutíminn eru 2 til 3 vikur.

Einkenni: Ljósrauð lítil útbrot, byrja oft á andliti eða hálsi og dreifast út um líkamann. Útbrotin geta runnið saman. Útbrotin byrja stundum eins og far eftir löðrung á kinnum. Áður en útbrotin myndast geta eitlarnir í hnakkanum bólgnað og orðið aumir. Í sumum tilfellum fylgir hiti.

Meðferð: Engin séstök meðferð, sjúkdómurinn hverfur af sjálfu sér.

Smithætta: Sjúkdómurinn er smitandi frá því nokkrum dögum áður en einkennin koma fram og þar til u.þ.b. 5 dögum eftir að þau koma fram. Þungaðar konur ættu að forðast að umgangast börn með rauða hunda þar sem sjúkdómurinn getur leitt til fósturskaða. Leitaðu til læknis ef þú ert ófrísk og barnið þitt er með rauða hunda.

 

Sjötta sóttin, þriggja daga hiti, mislingabróðir

Orsök og smitleið: Veira, úðasmit. Meðgöngutíminn er 10 til 15 dagar.

Einkenni: Skyndilegur hár hiti í þrjá daga. Þegar hitinn lækkar koma fram ljósrauð, stundum upphleypt útbrot. Þau koma fyrst á búkinn en breiðast síðan á hand- og fótleggi en ekki í andlit. Sjúkdómurinn er algengur hjá börnum undir þriggja ára aldri.

Meðferð: Klæðið barnið lítið og hafið yfir því léttar ábreiður á meðan hitinn er hár og sjáið til þess að það fái nóg að drekka. E.t.v. parasetamól til að lækka hitann.

Smithætta: Á meðan á sjúkdómnum stendur og líklega fáeina daga þar á undan.

 

Handa-, fóta- og munnsjúkdómur

Orsök og smitleið: Veira, úða- og snertismit. Meðgöngutími er 2 til 3 dagar.

Einkenni: Margar litlar blöðrur, sérstaklega í koki, á iljum og lófum. Blöðrur í koki springa og verða að litlum sárum sem eru sársaukafull. Getur haft vægan hita og slappleika í för með sér.

Meðferð: Engin sérhæfð meðferð. Sárin gróa af sjálfu sér á 2-4 vikum. Ef blöðrurnar eru slæmar í munninum þannig að erfitt er fyrir barnið að borða er gott að hafa matinn mjúkann, stappa hann eða gefa barninu fljótandi fæði. Barninu getur þótt gott að sjúga frostpinna eða klaka. Gefið barninu vel að drekka.

Smithætta: Á meðan blöðrurnar eru fyrir hendi er smithætta á ferð.

 

Skarlatssótt

Orsök og smitleið: Bakteríur (keðjukokkar). Smitast með snerti- og úðasmiti. Meðgöngutíminn er 2 til 5 dagar.

Einkenni: Vægur hiti, særindi í hálsi ásamt útbrotum. Útbrotin byrja í andlitinu og breiðast síðan út um líkamann. Tungan verður rauð og líkist jarðarberi. Húðin getur flagnað eftir 5-7 daga, aðallega á baki, lófum og iljum.

Meðferð: Sýklalyf. Leitið læknis ef hiti og útbrot koma í kjölfar hálsbólgu. Draga má úr særindum í hálsi með volgum drykkjum og mjúku fæði. Gefið barninu vel að drekka.

Smithætta: Einungis fyrstu dagana, eftir þriggja daga lyfjameðferð er lítil smithætta á ferðum. Halda barninu heima við þennan tíma til að forðast að það smiti önnur börn.