ADHD coaching

ADHD einstaklingar þurfa á skilningi og stuðningi að halda. Ein af þeim stuðningsleiðum sem hentar ADHD einstaklingum er ADHD coaching.

Hvað er ADHD coaching?

Skilgreining ADDCA ( ADD Coach Academy) er eftirfarandi:

“Byggt á skylirðislausu samþykki og trú á getu skjólstæðingsins, og hversu einstakur hann er, að hann búi yfir styrkleikum, hæfileikum , og þeirri trú að hann sé heill. Coahing er samvinna milli coach og skjólstæðings til þess gerð að auðvelda persónulegan vöxt og skilning er leiðir til ákvarðanatöku og framkvæmdar sem skilar sér í fyllra og betra lífs”

Einstaklingar með ADHD þurfa að horfast í augu við atriði tengd ADHD sem geta haft áhrif á frammistöðu þeirra í lífinu. Meðal þeirra er ofvirkni, hvatvísi og athyglisbrestur. Algengt að einstaklingar með ADHD þurfi hjálp við að trúa á sjálfa sig, oftar en ekki trúa þeir því að þeir geti ekki náð markmiðum sínum því þeir eru með ADHD.

 

ADHD þjálfi hjálpar einstaklingum með ADHD að skilja hvað ADHD er og hvernig það hefur áhrif á frammistöðu þeirra í lífinu. Auk þess hjálpar ADHD þjálfi einstaklingum við að skipuleggja sig og setja sér markmið til að geta eignast fyllra og hamingjuríkara líf. Coaching miðar að því að hvetja einstaklinginn áfram og hjálpar honum að vinna að markmiðum sínum, hrinda úr vegi fyrirstöðum í lífinu, vinna á algengum ADHD vanda eins og tímastjórnun, skipulagsleysi, lélegri sjálfsmynd, öðlast skýrari hugsun til að starfa á áhrifaríkari hátt. ADHD þjálfi hefur fulla trú á skjólstæðingum sínum, þeir eru færir um að finna svörin sjálfir og hefur hann ávallt í huga að hver og einn einstaklingur hefur sína einstöku hæfileika.

 

ADHD coaching hjálpar einstaklingi með ADHD:

 

  • Að skilja að erfiðleikar hans eru vegna ADHD en ekki vegna þess að hann er gallaður.
  • Að læra inn á einkenni sín og hvaða leiðir megi nota til að bæta athyglina.
  • Að þekkja sínar námsaðferðir.
  • Að skoða vandlega þá þætti sem þarf að taka á.
  • Að styrkja sjálfsvitund sína og færni til sjálfsskoðunar til að bæta ákvarðanatöku og frammistöðu.
  • Að vinna með frestunaráráttu, fullkomnunaráráttu, halda sér við verkefni og verða samkvæmur sjálfum sér.
  • Að verða meðvitaðri um hvaða aðferðir þarf að nota til að læra og vinna og hvaða leiðir hann kýs að fara í þeim efnum til að bæta frammistöðu sína á því sviði.
  • Að standa með sjálfum sér, tjá sig um þarfir sínar og setja mörk.
  • Að skoða nýjar hugmyndir og prófa sig áfram.
  • Að skoða og ákveða hvað hentar honum ekki og leggja það til hliðar.

ADHD coaching hentar fyrir fullorðna einstaklinga með ADHD, börn, foreldra barna með ADHD og maka.

Greinin hefur áður verið birt í ADHD fréttablaðinu.

Sigríður Jónsdóttir, ADHD Coach sirrycoach@internet.is