Transfita og önnur fita

 

Transfita og önnur fita

 

 

 

Transfita verður til  við herðingu á jurta- eða fiskolíu, þ.e. þegar olíunni er breytt  í fast form við mettun ómettaðrar fitu með súrefni. Mettunarferlið er stöðvað áður en fitan er fullmettuð (fullhert) og myndast við það hinar óhollu transfitusýrur sem ekki er að finna í fullmettaðri fitu. Transfitu er einnig að finna í náttúrulegum matvælum eins og mjólkurvörum og öðrum afurðum jórturdýra, en þá í litlu magni. Yfirleitt er mun minna af transfitu í náttúrulegum fituafurðum en þeim verksmiðjuframleiddu. Hvort sem transfitan er náttúruleg eða verksmiðjuframleidd, þá er hún óholl og skiptir magnið þar meginmáli.

 

 

Transfita í matvælum eykur magn “vonda” kólesterólsins, LDL, í blóði og eykur þar með hættu á hjarta- og æðasjúkdómum á svipaðan hátt og við neyslu mettaðrar fitu. Umræða um bann eða verulegar takmarkanir á notkun transfitu í matvælaframleiðslu hefur orðið æ meira áberandi í löndum í kringum okkur.  Hér á Íslandi er líka vakning varðandi þennan óhollustuþátt og til dæmis hvöttu Neytendasamtökin  nýlega til þess að stjórnvöld setji lög um transfitu í matvælum og matvælaframleiðslu.

 

 

Vinsældir transfitu í matvælaframleiðslu eru aðallega vegna þess að hún eykur verulega geymsluþol matvæla. Þau matvæli sem líklegast er að innihaldi transfitu í óæskilega miklu magni eru verksmiðjuframleiddar kökur, kex, vínarbrauð og annað “bakkelsi”, tilbúnar franskar kartöflur, örbylgjupopp, snakk og sælgæti. Pakkasúpur og pakkasósur innihalda oft mikið magn transfitu sem og margs konar hálfeldaður matur og skyndibiti.

 

 

Öll matvæli eiga að vera með innihaldslýsingu. Til að vera vakandi fyrir hollustu þess sem við borðum, er mikilvægt að lesa innihaldslýsingu á þeim mat sem í boði er. Ef það stendur á umbúðum að varan innihaldi jurtaolíu/matarfeiti sem hert er að hluta eða  hálfherta olíu þá er um transfitu að ræða. Á ensku er það gjarnan nefnt “partially hydrogenated oil” og á dönsku “delvist hærdet olie”. Ekki er skylda að taka fram í innihaldslýsingu ef varan inniheldur náttúrulega transfitu. Nýleg íslensk könnun gefur til kynna að meðalneysla Íslendinga sé um 3,5 gr. af transfitum á dag. Æskilegt er að dagleg neysla á transfitu fari ekki yfir 5 gr. á dag.

 

 

Að vera meðvitaður og velja rétta tegund fitu í daglegri matargerð skiptir miklu máli. Nota olíu í stað smjörlíkis eða smjörs við steikingu, fiturýrara kjöt- og mjólkurvörur og borða fisk í stað kjöts tvisvar til þrisvar í viku bætir verulega gæði þess matar sem við neytum með tilliti til fituinnihalds og fitusamsetningar. Auk þess ber að gæta hófs í öðrum vörum sem vitað er að innihalda mikið magn af þessum lúmska heilbrigðisáhættuþætti í óendanlegu framboði daglegs neysluvarnings í kringum okkur.

 

 

 

 

 

 

 

 Umfjöllun um fitu, ólíkar tegundir og samanburð, má lesa á vef Doktor.is á slóðinni http://www.doktor.is/Article.aspx?greinid=300