Sínk

Sínk er nauðsynlegt til að viðhalda eðlilegu ónæmiskerfi og skiptingu og starfsemi fruma. Sínk dregur úr sjóndílsrýrnun, sem er ástæða blindu hjá mörgu rosknu fólki. Sínk dregur úr lykt- og bragðtruflunum. Það hraðar græðslu sára og hjálpar þeim sem eiga við húðvandamál að stríða – sérstaklega unglingum. Það hefur áhrif á öndun vefja og eðlilegan vöxt.

Sínk er mikilvægt á þeim tímabilum sem líkaminn er upptekinn við hormónatengdar breytingar svo sem við kynþroska, brjóstagjöf og meðgöngu. Gelgjubólur hafa m.a. verið raktar til lágs sínkmagns í líkama unglinga.

Sínk gegnir mikilvægu hlutverki í tímgunarstarfsemi karla, ekki síst hormónamyndun, framleiðslu sæðis og hreyfanleika þess. Sínk er að finna í miklum mæli í blöðruhálskirtlinum og er talið mikilvægt fyrir heilbrigði kirtilsins.

Einkenni sínkskorts geta verið æðakölkun, svefn- og hegðunartruflanir, hárlos, flasa, getuleysi, minnisleysi og blöðruhálskirtilsvandamál. Auk þessa lýsir sínkskortur sér einnig með minni mótstöðu gegn sýkingum, hvítum blettum á nöglum, sár gróa seint, skertu bragð- og lyktarskyni og húðvandamálum.

Sínk er helst að finna í lambakjöti, svínakjöti, hveitikími, ölgeri og eggjum, en langmest er þó af sínki í ostrum. Einnig er sínk í lifur, hnetum, fræjum, sjávarfangi, sojabaunum og grænmeti.

Þennan kafla um Sínk er að finna í bók Halldóru Sigurdórsdóttur „Leiðin að bættri líðan“.  Bókin getur virkilega hjálpað þeim sem vilja vinna markvisst og meðvitað að bættri líðan.