Sætuefni – ígildi sykurs


Hvað eru sætuefni?

Nota má margs konar sætuefni í stað sykurs í ýmsar tegundir fæðu. Notkun sætuefna getur verið æskileg til að minnka orkuneyslu um leið og hún getur dregið úr hættu á tannskemmdum.

Sætuefnum má skipta í tvær gerðir:

  • Sætuefni sem gefa álíka sætt bragð og sykur og geta aukið umfang þeirra matvæla sem þau eru notuð í (oft kölluð fylliefni).
  • Sætuefni sem eru mörgum sinnum sætari en sykur.

Hver eru áhrif sætuefna og hvers vegna?

Bragðlaukar okkar eru á ýmsum stöðum á tungunni. Þar sitja þeir saman í nokkrum litlum hnútum eða nöbbum.

Boð berast til heilans þegar sykursameind kemst í snertingu við þessa nabba. Heilinn túlkar boðin og við finnum sætt bragð. Á sama hátt geta sum önnur efni (sætuefni), sem komast í snertingu við þessi svæði á tungunni, sent heilanum boð sem vekja sömu kennd.

Sætuefni eru ekki það sama og sykur. Þess vegna skynja sumir sætt bragð af sætuefnum en finna jafnframt eftirkeim (málmkeim, súran/sætan keim eða annað).

Nokkur orð um ýmis sætuefni

Þau sætuefni sem mest eru notuð heita sakkarín, aspartam, asesúlfam-K, cyclamat, sorbitól, xylitól og mannitól.

Sakkarín, aspartam, asesúlfam-K og cyclamat eiga það sameiginlegt að vera gerviefni sem eru efnafræðilega frábrugðin sykri og gefa ekki orku. Efnin eru sæt á bragðið og getur sætubragðið raunar verið nokkur hundruð sinnum sterkara en af venjulegum sykri.

Sorbitól, xylitól og mannitól teljast hins vegar til sykuralkóhóla og eru efnafræðilega skyld sykri. Þessi sætuefni eru m.a. notuð í tyggigúmmí og eru ekki skaðleg fyrir tennurnar.

Sætuefni geta komið að notum til þess að svala sykurþörf fólks með sykursýki. Of mikil neysla sykuralkóhóla getur þó valdið óþægindum í meltingarvegi og niðurgangi.

Öll matvæli sem innihalda sætuefni af flokki sykuralkólhóla eru orkurík, eins og merkingar sýna. Þar sem sum efnanna gefa minni sætu en venjulegur sykur geta vörur með sykuralkólhólum raunar verið óvenjulega orkuríkar ef notkuninni er ekki haldið innan hæfilegra marka.

Best er að ganga úr skugga um hvaða sætuefni er notað með því að skoða innihaldslýsingu vörunnar.

Sagt er að sætuefni ýti yndir hungurtilfinningu. Er það satt?

Í viðamikilli rannsókn, sem gerð var í Bandaríkjunum árið1990, var leitað svars við því hvort fólk verði hreinlega fyrr svangt ef það notar sætuefnin aspartam og sakkarín. Ekki reyndist unnt að sýna fram á það, en hins vegar hafði það tvímælalaust áhrif á matarlyst þátttakendanna hvernig maturinn var borinn fram!

Eru sætuefni eitruð eða hafa þau aukaverkanir?

Sum sætuefni hafa orð á sér fyrir að vera beinlínis skaðleg.

  • Aspartam (Nutra Sweet) hefur verið mikið rannsakað með tilliti til hugsanlegrar skaðsemi efnisins. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að langtímanotkun aspartams hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks. Fólk sem haldið er fenýlketónureu (PKU) ætti þó að forðast aspartam þar sem efnið inniheldur amínósýruna fenýlalanín sem getur leitt til alvarlegra taugaskemmda.

    Önnur sætuefni (asesúlfam-K, sakkarín og cyclamat) hafa í nokkrum tilraunum framkallað krabbamein.