Náttúrulyf – Lyfjabókin

Þann fyrsta janúar 1998 gekk í gildi reglugerð um markaðsleyfi náttúrulyfja (reglugerð nr. 684/1998). Þar eru náttúrulyf skilgreind á eftirfarandi hátt:

„Náttúrulyf innihalda eitt eða fleiri virk efni sem unnin eru á einfaldan hátt (t.d. með þurrkun, mölun, úrhlutun, eimingu eða pressun) úr plöntum, dýrum, örverum, steinefnum eða söltum. Hrein efni einangruð úr náttúrunni teljast ekki náttúrulyf“.

Sækja þarf um markaðsleyfi náttúrulyfs fyrir náttúruvöru sem er markaðssett eða auglýst á þann hátt að ljóst sé að viðkomandi vara sé ætluð til lækninga, þróunar eða varnar gegn sjúkdómum eða sjúkdómseinkennum í mönnum eða dýrum.

Tilgangurinn með því að setja reglugerð þessa var að tryggja gæði náttúrulyfja. Fylgjast þarf með að varan innihaldi þau efni sem hún er sögð innihalda og að hún sé ekki menguð. Þó eru ekki gerðar sömu kröfur til náttúrulyfja og annarra lyfja sem skráð eru hér á landi hvað rannsóknir á verkun þeirra varðar. Þetta er þáttur sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir. Það fæst aldrei leyfi fyrir markaðssetningu hinna hefðbundu lyfja nema sýnt hafi verið fram á að þau hafi ákveðna verkun til varnar eða til að lækna sjúkdóma. Þessar sömu kröfur eru ekki gerðar til náttúrulyfja. Þó að hin hefðbundu lyf og náttúrlyf séu seld í sama fyrirtæki (lyfjaverslun) getur því verið um tvo ólíka hluti að ræða. Margar lyfjaverslanir selja náttúrulyf og koma þannig til móts við þarfir viðskiptavina sem óska eftir að nota þessar vörur. Í lyfjaverslunum er líka sérmenntað starfsfólk sem á að geta gefið greinagóðar upplýsingar um þessar vörur.

Það er skemmst frá því að segja að enn hefur ekkert lyf fengið markaðsleyfi náttúrulyfja hér á landi en verið er að vinna að umsóknum fyrir leyfi nokkurra lyfja.

Hin nýja reglugerð ætti að tryggja að ekki verði hér á markaði náttúrulyf sem geta verið skaðleg. Mikilvægt er að minna á rétta notkun, að leiðbeiningum sé fylgt og t.d. ekki teknir stærri skammtar en mælt er með. Þó verður ekki horft fram hjá því að með notkun náttúrulyfja eingöngu getur fólk farið á mis við hefðbundnar lækningar en það getur stundum haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

Náttúruvörur köllum við ýmis efni sem hér eru á markaði og ættuð eru úr jurtaríkinu. Þessar vörur má ekki markaðsetja eða auglýsa sem náttúrulyf sem hægt er að nota til lækninga, þróunar eða varnar gegn sjúkdómum.

Fyrr á tímum voru nær öll lyf unnin úr náttúrunni, flest úr jurtum eða dýrum. Sum af þeim lyfum sem við þekkjum og notuð eru nú á tímum voru upphaflega náttúrulyf. Því er ekki ólíklegt að ætla að sum þeirra efna sem nú eru í notkun sem náttúruvörur eigi eftir að reynast gagnleg og teljast til lyfja síðar meir.

 • Náttúruvörur

  Hér á eftir verður gerð grein fyrir nokkrum þekktum náttúruefnum. Slík efni ber þó ekki að líta á sem lyf.

 • Ginkgo biloba, Musteristré

  Innihaldsefni: Mikilvægustu innihaldsefni eru terpenarnir ginkgólíðar A, B, C, J, M og bílobalíð og flavóníð sambönd. Það eru laufblöð musteristrésins sem eru notuð.

  Eiginleikar: Vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar með stöðluðu extrakti sem innihélt 6% terpena og 24% flavoníða. Niðurstöður þessara rannsókna hafa staðfest að staðlað ginkgóextrakt getur hindrað verkun þáttar sem meðal annars hvetur samloðun blóðflagna og veldur æðaþrengingu (platelet activating factor). Rannsóknir hafa líka sýnt að extraktið getur verið gagnlegt við blóðrásartruflunum í heila og útlimum. Í sumum rannsóknum hafa komið fram jákvæð áhrif á elliglöp (dementia) en í öðrum ekki. Vísbendingar hafa komið fram um verkun ginkgó gegn astma og ofnæmi í mönnum og bólgueyðandi verkun. Fleiri rannsókna er þörf til að staðfesta þetta.

  Skammtar: Staðlað extrakt 80-120 mg á dag.

  Aukaverkanir:Aukaverkanir eru sjaldgæfar en bent hefur verið á meltingartruflanir, höfuðverk og ofnæmisútbrot.

  Meðganga og brjóstagjöf: Ekki er vitað um áhrif ginkgo biloba á fóstur né hvort það skilst út í móðurmjólk. Því er ekki hægt að mæla með notkun þess á meðgöngu og á meðan brjóstagjöf stendur.

  Til fróðleiks: Musterisréð, Ginkgo biloba, er ein elsta trjátegund í heiminum. Hvert tré getur orðið allt að 35 metrar að hæð og 1000 ára gamalt.

 • Ginseng

  Innihaldsefni: Ginseng er yfirleitt unnið úr rótum Panax ginseng C.A. Meyer og annarra Panax tegunda. Í rótum þessara plantna er talsverður fjöldi efna sem nefnast ginsenosíð sem talin eru vera virku efnin í ginseng. Þessi efni líkjast að efnauppbyggingu sterum líkamans einkum kvenhormónum.

  Eiginleikar: Þó ginseng hafi verið notað í alþýðulækningum í yfir 2000 ár skortir enn á að gerðar hafi verið vel sipulegar rannsóknir á verkun þess. Almennt er þó talið að ginseng geti virkað hressandi og vægt örvandi. Uppi hafa verið kenningar um að ginseng geti haft áhrif til lækkunar á blóðfitu og blóðsykri, að það geti haft áhrif á blóðþrýsting ýmist til hækkunar eða lækkunar og að það geti örvað ónæmiskerfið. Þá hafa nýlega komið fram niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna um hugsanleg verndandi áhrif ginsengs gegn vissum tegundum af krabbameini. Fleiri rannsókna er þörf áður en nokkuð er hægt að fullyrða um hvort svo sé.

  Skammtar: Skammtastærðir eru umdeildar. Fyrir unga, hrausta neytendur hefur verið mælt með 0,5-1 g á dag af ferskri rót. Sumir segja að þetta magn skuli tekið sem kúr í 15-20 daga og síðan tekið hlé í 2 vikur. Aðrir hafa mælt með 30 daga kúr og 60 daga hléi. Fyrir aldraða og veikburða neytendur hefur verið mælt með að skammtur sé ekki stærri en 0,4-0,8 g á dag af ferskri rót eða tilsvarandi.

  Aukaverkanir: Þekktar eru ýmsar aukavekanir af völdum ginsengs eins og svefnleysi, háþrýstingur, aukinn hjartsláttur, niðurgangur, óróleiki, manía, estrogen-lík áhrif, bjúgur og húðútbrot. Auk þess hefur verið bent á að ginseng geti haft víxlverkanir við ýmis lyf svo sem hormóna, blóðþynningarlyf, hjartaglykosíða, blóðsykurlækkandi lyf, blóðþrýsingslyf og ýmis geðlyf.

  Meðganga og brjóstagjöf: Ginseng gæti haft áhrif á fóstur og ætti því ekki að nota það á meðgöngutíma. Ekki er vitað hvort efnin skiljast út í móðurmjólk.

  Til fróðleiks: Elstu þekktu heimildir um notkun ginsengs eru frá Kína fyrir 2000 árum og tengjast þær heimspeki Taóismans um líkamlegt og andlegt jafnvægi. Panax heitið er komið úr grísku og merkir allra meina bót.

 • Hvítlaukur

  Innihaldsefni: Hvítlaukur inniheldur ýmis brennisteinssambönd. Það þekktasta er allicin sem gefur hvítlauknum sína sterku lykt. Auk þess eru í hráum hvítlauk lítilsháttar af vítamínum og steinefnum. Hvítlaukslykt þykir mörgum hvimleið, þess vegna hafa ýmsir reynt að framleiða lyktarlausar hvítlaukssamsetningar.

  Eiginleikar: Allicin hefur andoxunaráhrif. Þannig getur það hindrað oxun í líkamanum og þar með myndun skaðlegra efna sem eru fylgifiskar oxunarinnar. Ferskur hvítlaukur getur minnkað samloðun blóðflagna og þar með storknunartilhneigingu blóðsins. Hann hefur líka jákvæð áhrif til lækkunar bæði á blóðsykur og blóðþrýsting og getur lækkað magn blóðfitu bæði kólesteról og þríglýseríða. Auk þess getur ferskur hvítlaukur bætt hlutföll hinnar jákvæðu (HDL) og neikvæðu (LDL) blóðfitu. Talið er að regluleg neysla fersks hvítlauks geti veitt vörn gegn hjarta og æðasjúkdómum. Erfitt er að segja til um verkun lyktarlauss hvítlauks og annars unnins hvítlauks. Vísbendingar eru um fyrirbyggjandi áhrif hvítlauks gegn krabbameini, en frekari rannsókna er þörf. Því hefur verið haldið fram að hvítlaukur hafi sýklahemjandi verkun.

 • Skammtar: Skammtastærðir eru umdeildar allt frá því að vera 1-4 g á dag af ferskum hvítlauk (4 g er u.þ.b. 1 rif) upp í 5-22 rif á dag.

  Aukaverkanir: Hvítlaukur er ekki án aukaverkana og má þá fyrst nefna óþægilega lykt sem fylgir notkun hans. Notkun hans getur einnig fylgt ofnæmi, astmi, uppköst, niðurgangur, erting á húð og jafnvel nýrnaskemmdir ef stórir skammtar eru notaðir. Þá getur einnig hvítlaukur sem er tekinn í stórum skömmtum haft víxlverkanir við blóðþynningarlyf og sykursýkislyf.

  Meðganga og brjóstagjöf: Mælt er með því að stilla neyslu á hvítlauk í hóf á meðgöngu og á meðan kona er með barn á brjósti. Ekki er ráðlagt að gefa kornabörnum hvítlauk.

  Til fróðleiks: Hvítlaukur, allium sativum, hefur öldum saman verið þekktur víða um heim sem krydd og lækningajurt og er náskyldur venjulegum matlauk. Honum hefur verið ætlað að lækna fjölda ólíkra sjúkdóma.

 • Kamillute

  Innihaldsefni: Kamillute eru blómin af jurtinni Matricaria chamomilla L. Í blóminu eru rokgjarnar olíur og ýmis önnur efni.

  Eiginleikar: Rannsóknir benda til að kamillute geti dregið úr krömpum, bólgum og meltingartruflunum í maga og skeifugörn. Þá hefur verið bent á að teið geti haft róandi áhrif og jafnvel haft svæfandi áhrif. Það hefur líka verið notað í munnskol vegna kælandi og samanherpandi verkunar. Jurtin hefur einnig verið notuð í krem til að kæla og draga úr bólgum á fótum.

  Aukaverkanir: Sumir hafa ofnæmi fyrir kamillutei.

  Skammtar: Te sem lagað er af 2-8 g af þurrkuðum blómum drukkið þrisvar á dag.

  Meðganga og brjóstagjöf: Talið er að hófleg notkun kamillutes sé skaðlaust fyrir móður og barn.

  Til fróðleiks: Kamillute er hjá Evrópubandalaginu skráð sem náttúrulegt efni og bragðefni af flokki N2 sem þýðir að leyfilegt er að nota það í litlu magni í matvæli.

 • Lýsi/ómega-3 fitusýrur

  Innihaldsefni: Lýsi er fljótandi fita sem unnin er úr lifur ýmissa fisktegunda einkum þorsks og ufsa. Lýsi inniheldur talsvert magn af fjölómettuðum fitusýrum einkum hinum svokölluðu ómega-3 fitusýrum. Það inniheldur einnig verulegt magn af A- og D-vítamíni. Algengustu tegundir af lýsi eru:

  Þorskalýsi sem inniheldur u.þ.b. 1500 míkrógrömm (5000 alþjóða einingar, a.e.) af A-vítamíni og 12,5 míkróg (500 a.e.) af D-vítamíni í einni teskeið (5 ml) og ufsalýsi sem inniheldur u.þ.b. 3000 míkróg (10.000 a.e.) af A-vítamíni og 25 míkróg (1000 a.e.) af D-vítamíni í einni teskeið.

  Eiginleikar: Ómega-3 fitusýrurnar hafa áhrif á myndun prostaglandína og levkótríena í líkamanum en það eru virk efni sem hafa margvísleg áhrif. Ýmislegt bendir til þess að ómega-3 fitusýrur hafi ýmis verndandi áhrif gegn hjarta og æðasjúkdómum og liðagigt. Sumar rannsóknir gefa til kynna að ómega-3 fitusýrur geti haft góð áhrif á psoriasis og astma en aðrar rannsóknir hafa ekki sýnt fram á þetta. Þá er hugsanlegt að ómega-3 fitusýrur geti haft verndandi áhrif gegn einhverjum tegundum af krabbameinum. Fleiri rannsókna er þörf áður en hægt er að fullyrða um það. A-vítamín er m.a. nauðsynlegt fyrir eðlilega starfsemi augna, húðar og slímhúðar, en D-vítamín hefur áhrif á kalkefnaskipti líkamans. Lýsi er oft notað til að lækna eða fyrirbyggja skort á A-vítamíni (náttblinda, sjúkdómar í húð) eða D-vítamíni (beinkröm).

  Skammtar: Skammtar eru afar mismunandi eftir tegundum af lýsi en á umbúðunum eiga alltaf að vera leiðbeiningar um skammta. Ráðlagðir dagskammtar Manneldisráðs eru 800-900 míkróg af A-vítamíni og 7-10 míkróg af D-vítamíni fyrir fullorðna. Í stórum skömmtum geta þessi vítamín verið skaðleg. Ekki er hægt að mæla með stærri dagskömmtum en 7500 míkróg af A-vítamíni og 50 míkróg af D-vítamíni.

  Aukaverkanir: Við mikla ofneylsu valda A- og D-vítamín vel þekktum eiturverkunum og verða slíkar eitranir af og til hér á landi. Eituráhrif af A-vítamíni eru slappleiki, höfuðverkur, hárlos, beinverkir og óþægindi frá húð og slímhúð. Við mikla eitrun veldur A-vítamín rugli og lifrarskemmdum. Eiturverkanir af völdum D-vítamíns eru lystarleysi, höfuðverkur, slappleiki, nýrnasteinar og kalkanir á mjúkvefjum. Þeir sem taka lýsi reglulega ættu að gæta þess að taka ekki stóra skammta af A- og D-vítamínum í öðru formi t.d. í fjölvítamíntöflum.

  Meðganga og brjóstagjöf: A-vítamín getur haft eiturverkanir á fóstur og valdið vanskapnaði. Ekki er því hægt að mæla með inntöku A-vítamíns í neinu formi á fyrri hluta meðgöngutímans. Lýsi er talið hættulaust meðan á brjóstagjöf stendur.

  Til fróðleiks: Lýsi er líklega það bætiefni sem mest er neytt af á Íslandi. Að meðaltali tekur hver Íslendingur u.þ.b. 3 dl af lýsi á ári og er það langmesta neysla í heiminum.

 • Sólhattur

  Innihaldsefni: Helstu innihaldsefni í sólhatti, Echinacea purpurea, eru fjölsykrur, kaffisýru-afleiður, flavoníð glykósíð, alkylamíð og polyen. Ýmist eru notaðar rætur jurtarinnar eða ofanjarðarhlutar. Innihaldsefni í Echinacea vörum geta verið afar mismunandi eftir því um hvaða plöntutegund, plöntuhluta og vinnsluaðferð er að ræða.

  Eiginleikar: Í klíniskum rannsóknum hafa komið fram vísbendingar um að sólhattur geti haft ónæmisörvandi áhrif. Enn liggja þó ekki fyrir nægjanlega áreiðanlegar niðurstöður um að hægt sé að nota sólhatt gegn og til að fyrirbyggja sýkingar til að hægt sé að fullyrða nokkuð.

  Skammtar: Hæfilegar skammtastærðir af sólhatti eru ekki þekktar.

  Aukaverkanir: Flestir virðast þola sólhatt vel og hann veldur sjaldan aukaverkunum. Húðútbrot hafa þó sést, en þetta er sjaldgæft. Þá hefur verið bent á að sólhattur geti haft víxlverkanir við ónæmisbælandi lyf.

  Meðganga og brjóstagjöf: Rannsóknir á sólhatti eru enn ekki það langt á veg komnar að vitað sé um skaðlegar verkanir. Því er ekki hægt að mæla með notkun hans á meðgöngu eða á meðan brjóstagjöf stendur yfir.

  Til fróðleiks: Indjánar í Norður-Ameríku notuðu sólhattinn sem verkjalyf og við sýkingum eftir snákabit.