Matur og sykursýki, ráðleggingar til þeirra sem hafa sykursýki tegund 1

Þýðing: Fríða Bragadóttir
Yfirlestur: Ástráður B Hreiðarsson, læknir, og Bertha M Ársælsdóttir, matvælafræðingur, Göngudeild Sykursjúkra, Landspítalanum við Hringbraut.

Til þín, fjölskyldu þinnar og vina

Þessi grein er skrifuð fyrir þig sem ert með sykursýki tegund 1, en líka fyrir fjölskyldu þína og vini. Hér er útskýrt hvers vegna mikilvægt er að tileinka sér hollar matarvenjur. Grunnurinn að góðu og raunhæfu mataræði eru auðvitað þínar eigin matarvenjur. Þess vegna lagar þú mataræðið að þér svo það henti þinni matarlyst og þínum hreyfivenjum.

Ráðleggingunum í þessari grein er ætlað að hjálpa þér til sem allra mestrar fjölbreytni í mataræði þínu. Markmiðið er að blóðsykur og blóðfita haldist eins nálægt eðlilegum gildum og mögulegt er en það er nauðsynlegt til að tryggja lífsgæði og góða heilsu til frambúðar.

Með kærri kveðju,
Samtök sykursjúkra (Diabetesfélagið á Íslandi).

Tvenns konar sykursýki

Til er tvenns konar sykursýki:

Tegund 1, einnig kölluð insúlínháð sykursýki, og Tegund 2, stundum nefnd insúlínóháð sykursýki. Tegund 1 greinist oftast á barns- eða unglingsaldri, þó þeim tilfellum fari fjölgandi þar sem fullorðnir greinast með tegund 1. Tegund 2 kemur oftast fram um eða eftir fertugt, en þó þekkjast tilfelli þar sem hún kemur fram hjá yngra fólki, allt niður í smábörn. Talið er að u.þ.b. 10-15% sykursjúkra hafi tegund 1 og um 85-90% tegund 2. Sykursjúkir hafa of hátt hlutfall glúkósu í blóði sínu, oftast kallað blóðsykur. Annað hvort af því þeir framleiða of lítið insúlín, eða af því insúlínið vinnur ekki nægilega vel.

Insúlínháð sykursýki, tegund 1
Sé of lítið insúlín í líkamanum, getur líkaminn ekki nýtt sér næringarefnin úr fæðunni á eðlilegan hátt. Það hefur þau áhrif að blóðsykurinn hækkar. Verði blóðsykursgildið hærra en 10mmol/l, skolast umfram sykur út með þvaginu. Við alvarlegan insúlínskort er auk þess hætta á að líkaminn myndi sýruefni, svokallaða ketóna. Einkennin sem þá koma fram eru: aukin þvaglát, þorsti, þyngdartap, þreyta, kviðverkir, uppþornun og jafnvel meðvitundarleysi.

Einkenni: aukin þvaglát, þorsti og þyngdar tap, þreyta, kviðverkir, uppþornun og stundum meðvitundarleysi

Insúlínháð sykursýki kemur oftast fram fyrir fertugt. Þeir sem hafa þessa tegund sykursýki mynda ekkert eða mjög lítið insúlín í briskirtlinum. Orsakir sjúkdómsins eru aðeins að litlu leyti þekktar. Þó er vitað að tilhneigingin til að fá þennan sjúkdóm er arfgeng og að hann getur brotist út við t.d. veirusýkingu, sem þá er meðvirkandi í að eyðileggja þær frumur í briskirtlinum sem framleiða insúlín. Mörgum spurningum er enn ósvarað um það hvað veldur þessum sjúkdómi og vinna vísindamenn hörðum höndum við að finna við þeim svör.

Insúlínóháð sykursýki, tegund 2
Þessi tegund sykursýkinnar er mun algengari en hin fyrri. Sykursýki tegund 2 er arfgeng en flestir þeir sem greinast eru of þungir og/eða eldri en 40 ára. Hjá þessum sjúklingum framleiðir brisið insúlín en það vinnur ekki nægilega vel. Frumur líkamans virðast því hafa misst hæfni sína til að nýta insúlínið. Sérstaklega á þetta við um þá sem eru of þungir. Þess vegna geta sumir sjúklingar með tegund 2 náð réttu blóðsykurgildi eingöngu með réttu mataræði og þyngdartapi. Margir þurfa þó einnig blóðsykurlækkandi töflur og sumir insúlín.

Meðferð við sykursýki tegund 1

Fyrir þig sem ert með sykursýki tegund 1 snýst málið um að ná blóðsykrinum eins nálægt eðlilegu gildi og mögulegt er. Fjórir mikilvægustu þættirnir í meðferð sykursýkinnar eru:

1. Mataræði
Úr matnum fáum við orku og uppbyggingarefni fyrir frumur líkamans og fullnægjum um leið þörf okkar fyrir lífsnauðsynleg næringarefni. Maturinn er samsettur úr fjórum tegundum næringarefna, í mismiklu magni. Þau eru: kolvetni, fita, prótín (eggjahvítuefni) og alkóhól. Þess utan eru í matnum steinefni og vítamín (fjörefni). Stærsti hluti orkunnar kemur úr kolvetnum og fitu.

Matur fyrir sykursjúka er venjulegur, hollur matur, sem öll fjölskyldan hefur gott af að borða, enda er mataræði sykursjúkra svipað því sem næringarfræðingar ráðleggja fyrir alla. Vaxandi tilhneiging er hjá fólki almennt að borða of mikla fitu og of lítið af kolvetnum. Sú orka sem við fáum úr matnum ætti að skiptast þannig að: 55% komi úr kolvetnum, 30% úr fitu og 15% úr prótínum.

2. Insúlín
Aðalhlutverk insúlínsins er að stilla orkubúskap líkamans, þ.e.a.s. orkuna sem kemur úr matnum í formi kolvetna, fitu og prótína. Insúlínið sér um að glúkósan (sykrurnar, orkan) komist alla leið til vefja líkamans og kemur jafnframt í veg fyrir niðurbrot fituvefs, sem getur valdið myndun ketóna (sýru). Framleiði líkaminn hins vegar ekki nægilegt insúlín, verður það að koma annars staðar frá. Þá kemur sprautan til sögunnar því insúlínið eyðileggst í maganum sé það tekið inn.

Til eru margar tegundir insúlíns: Þær sem mest eru notaðar eru langvirkt insúlín og hraðvirkt insúlín. Auk þess er til tegund sérlega hraðvirks insúlíns, svokallað insúlínanalóg.

Langvirkt insúlín byrjar að virka eftir um 2 klst og hefur hámarksverkun um 6-15 klst eftir inngjöf. Verkunin minnkar síðan smám saman og er með öllu horfin eftir sólarhring. Langvirka insúlínið heitir Insulatard eða Humulin NPH. Hraðvirkt insúlín byrjar að virka um 1/2 klst eftir inngjöf og hefur kröftugasta verkun næstu 1-5 klst. Það er alveg hætt að virka eftir um 8 klst. Hraðvirka insúlínið heitir Actrapid eða Humulin Regular. Insúlínmeðferðin er mismunandi frá einum sykursjúkum til annars, en þó er ýmislegt sameiginlegt. Stöðugt fleiri sykursjúkir taka fjórar insúlínsprautur á dag: Hraðvirkt insúlín um 1/2 klst fyrir hverja aðalmáltíð (x3) og langvirkt insúlín fyrir svefn.

Hin nýju sérlega hraðvirku insúlín Insulin Lispro (Humalog) og Insulin Aspart (Novorapid) byrja að virka um leið og þau eru gefin inn og hafa hámarksverkun um 1 klst eftir inngjöf. Þau eru tekin strax fyrir máltíðir. Einnig er nú verið að gera tilraunir með enn eina nýja tegund, stundum nefnt Insulin Glargin, sem er sérlega langvirkt, verkar allt að heilum sólarhring. Gert er ráð fyrir að það komi á almennan markað innan skamms.

3. Hreyfing
Mikilvægt er að vera virkur, að hreyfa sig. Vöðvaáreynsla hefur góð áhrif á blóðfitu og styrkir hjarta og æðakerfi. Þú eykur líka orkunotkun, vinnur gegn offitu og lækkar blóðsykurinn með því að hreyfa þig.

4. Þekking og kunnátta
Þekkingin getur hjálpað þér að ná góðu jafnvægi milli mataræðis, insúlíns og hreyfingar. Þú þarft að afla þér leiðbeininga um hvernig þú getur sjálf/ur stjórnað þinni sykursýki. Með því að halda daglegt yfirlit yfir blóðsykurinn getur þú t.d. lært hvernig á að stilla insúlíngjöf með tilliti til matar og hreyfingar. Þá er blóðsykur mældur mörgum sinnum yfir daginn og sett upp línurit. Hversu oft slíkt er gert ákveðið þú og læknirinn þinn í sameiningu. Mikilvægt er einnig að þú vitir hvernig á að bregðast við sykurfalli og bráðum veikindum.

Meðferð sykursýkinnar:

 • mataræði
 • insúlín
 • hreyfing
 • þekking og kunnátta.

Mataræði sykursjúkra með tegund 1

Þú getur úbúið þér matseðil í samvinnu við næringarfræðing og/eða lækninn þinn. Hann á að vera verkfæri til að nota við meðferð sykursýkinnar þinnar. Mataræðið á umfram allt að koma í veg fyrir miklar sveiflur í blóðsykrinum. Mikilvægt er að stilla vandlega saman tímasetningu og samsetningu einstakra máltíða, insúlínskammta og líkamshreyfingu. En aðalatriðið er, að mataræðið sé sérsniðið að þínum óskum og þínum þörfum og að insúlínmeðferðin sé löguð að þínum lífsvenjum, ekki öfugt. Þú þarft að koma í veg fyrir að blóðsykurinn hækki um of 1-2 klst eftir máltíð, en samtímis þarftu líka að forðast að hann verði of lágur og valdi sykurfalli milli máltíða. Því þarftu að dreifa matnum jafnt yfir daginn með því að borða 3 aðalmáltíðir og 2-3 minni. Tímasetning máltíða og magn þess sem borðað er ætti að vera svipað frá degi til dags, þ.e. ef líkamshreyfing og þar með orkunotkun er sú sama. Ef þú hreyfir þig meira suma daga þarftu annað hvort að borða meira þann dag eða taka minna insúlín.

Auðvelt er að laga nútíma insúlínmeðferð, þar sem insúlín er gefið strax á undan máltíð, að þínum lífsvenjum. Til dæmis er hægt að fresta máltíð um allt að 1-1 1/2 klst, ef þú frestar insúlíngjöfinni samsvarandi. En þú mátt þó ekki skilja þetta sem svo að þú getir borðað „hvað sem er“.

Hollar matarvenjur hafa eftir sem áður úrslitaáhrif á það hvernig gengur að halda blóðsykri og blóðfitu sem næst eðlilegum gildum.

Þú verður að mæla blóðsykurinn reglulega, til að sjá hvaða áhrif mismunandi matur hefur á blóðsykurinn hjá þér við mismunandi aðstæður. T.d. fyrir, eftir og á meðan þú stundar líkamsþjálfun, þegar þú ert veik/ur eða þegar þú ferð í veislu. Að þekkja viðbrögð líkamans veitir þér mikið frelsi.

Gott ráð

Þeir sem eru í kjörþyngd ættu að borða þannig að þyngdin haldist stöðug.

Hve mikið áttu að borða?

Hve mikla orku, þ.e. hve margar hitaeiningar, þú þarft að fá úr mat og drykk, fer eftir ýmsu, m.a. kyni, aldri, hæð, þyngd og hve mikið þú hreyfir þig. Því meira sem þú hreyfir þig, því meiri er orkunotkunin.

Börn og unglingar þurfa að borða þannig að þau nái að vaxa og þroskast eðlilega og því þarf að breyta mataræði þeirra reglulega eftir því sem þau eldast og þroskast. Þeir sem eru of þungir þurfa að létta sig, því offita dregur úr virkni insúlíns, og þurfa því orkusnauðara fæði en annars. Þú ættir að borða nógu mikið -eða nógu lítið- til að ná eða halda kjörþyngd. Næringarfræðingur eða læknirinn þinn geta hjálpað þér að finna hve mikil orkuþörf þín er og leiðbeint um samsetningu mataræðisins.

Næringarefnin fjögur

Eins og áður er sagði eru fjögur aðalnæringarefni í matnum: Kolvetni, fita, prótín og alkóhól. Til að þú getir náð sem bestri stjórn á sykursýkinni, er mikilvægt að þú vitir hvaða þýðingu þessi næringarefni hafa fyrir líkamann og hvaða áhrif þau hafa á blóðsykurinn.

Kolvetni

Orka: 1g af kolvetnum breytist í líkamanum í 4 hitaeiningar orku.

Kolvetni eru í brauði, mjöli, hafragrjónum, hrísgrjónum, pasta (spaghetti o.fl.), kartöflum, mjólk, ávöxtum og grænmeti.

Rúmlega helmingur daglegrar orkuþarfar ætti að koma úr kolvetnum. En það eru til mismunandi kolvetni. Gerður er greinarmunur á einföldum kolvetnum, þeim sem fara hratt í gegnum meltinguna og hækka því blóðsykurinn hratt og mikið, og sterkju, sem í flestum tilfellum meltist hægt og hækkar því blóðsykurinn hægt.

Mikilvægt er að þú þekkir muninn á þessum tveim tegundum kolvetna, það getur hjálpað þér að halda blóðsykrinum jöfnum og innan eðlilegra marka allan sólarhringinn.

Til einfaldra kolvetna teljast sykur, þrúgusykur (glúkósi), mjólkursykur og ávaxtasykur. Sterkja er í brauði, kartöflum, hrísgrjónum, pasta, grænmeti og hafragrjónum, en jafnvel innan þessara flokka getur verið stór munur á áhrifunum á blóðsykurinn.

Áður fyrr álitu menn að öll sterkjurík matvæli meltust hægar en einföldu kolvetnin, og hækkuðu því blóðsykurinn minna og hægar. Það hefur hins vegar komið í ljós að sumar gerðir sterkju meltast svo hratt í þörmunum að þær fara eins hratt út í blóðið og sykur og hunang. Þetta á t.d. við um franskbrauð og kartöflur.

Kolvetnarík matvæli sem valda lítilli og hægri hækkun blóðsykurs eru t.d. alls kyns belgjurtir (baunir, linsur o.fl.), grænmeti, pasta (t.d. spaghetti, makkarónur), rúgbrauð og hrísgrjón.

Þó nokkuð meiri hækkun blóðsykurs sést í kjölfar franskbrauðs og kartaflna. Sum matvæli innihalda mikið af trefjum, t.d. gróft brauð, „gróft“ grænmeti og belgjurtir. Trefjarnar seinka upptöku sterkju og lækka því bæði blóðsykur og blóðfitu. Þess vegna er góð hugmynd að borða eitthvað af trefjaríkum matvælum í hverri máltíð.

Brauð

Brauð er kolvetnaríkt og því er ráðlegt að borða brauð oft á dag. Þú ættir að velja trefjaríkt brauð, t.d. óseytt rúgbrauð, sem er trefjaríkara en brauð sem bakað er úr hveiti.

Franskbrauð og rúnnstykki með háu hlutfalli heilhveitis, telst einnig gróft brauð. Aftur á móti hafa mörg bakarísbrauð (t.d. hnetubrauð, 3ja korna brauð) ekki nógu mikið trefjainnihald til að geta talist trefjarík. Af tæknilegum orsökum við bökunina er yfirleitt bætt í brauðið litlu magni sykurs, síróps eða malts, en það er of lítið til að skipta neinu máli fyrir sykursjúka.

Varaðu þig á að brauðmáltíðin verði ekki of fiturík. Gott ráð er að kaupa fitusnautt brauð (mest 5% fituinnihald) og borða færri en þykkri sneiðar af brauði. Og þú ættir að smyrja þunnt eða helst sleppa því alveg, sérstaklega ef þú notar álegg. Mundu líka að áleggið á að vera magurt og í þunnum sneiðum.

Mjólk og ávextir

Gott ráð

 • Tvö mjólkurglös á dag, en bara 1/2 glas í einu.
 • Gjarnan þrjá ávexti á dag

Mjólk og ávextir eru rík af einföldum kolvetnum. Allar mjólkurvörur, líka sýrðar mjólkurafurðir, innihalda mjólkursykur (laktósu), og allir ávextir innihalda ávaxtasykur. Þú ættir að takmarka daglega mjólkurneyslu við tvö lítil glös (4dl) og daglegan ávaxtaskammt við þrjú stykki. Séu mjólk og ávextir í sömu máltíðinni, ættu skammtarnir að vera litlir.

Þetta á að sjálfsögðu ekki við ef þú færð þér mjólk eða ávexti (t.d. ávaxtasafa) vegna sykurfalls.

Hvað með sykur í mataræði sykursjúkra?

Margar rannsóknir sýna að takmörkuð neysla á viðbættum sykri (sakkarósu), t.d. um 25-30 gr á dag, hefur engin neikvæð áhrif á blóðsykurinn hjá manneskju með sykursýki tegund 1, svo framarlega sem viðkomandi er í kjörþyngd og hefur almennt góða stjórn á sinni sykursýki. Athugaðu þó að hér er átt við að sykursins sé neytt í litlum skömmtum í einu um le ið og annar matur er borðaður.

Kolvetni

samantekt:

Borðaðu flókin kovetni. Borðaðu grænmeti með sem flestum máltíðum. Borðaðu svipað magn kolvetna á hverjum degi.

Lítið magn sykurs (um 25gr) getur verið hluti af mataræðinu, ef þú dreifir honum jafnt á máltíðir dagsins.

Fita

Orka: 1g af fitu breytist í líkamanum í 9 hitaeiningar orku. (= 9 kcal).

Með öðrum orðum: 1g af fitu gefur meira en tvöfalt meiri orku en 1g af kolvetnum eða 1g af prótíni. Matvæli sem innihalda mikla fitu eru smjör, smjörlíki, matarolíur, fljótandi smjörlíki, rjómi, majones, pylsuálegg, venjuleg lifrarkæfa, beikon og annað feitt kjöt, mörg salöt, salatsósur, kökur, súkkulaði og kartöfluflögur. Í dag fær fólk almennt um 40% orkunnar úr fitu sem er allt of mikið. Þetta hlutfall ætti að vera í mesta lagi 30%. Með því að takmarka fituneyslu má fyrirbyggja hjarta- og æðasjúkdóma og koma í veg fyrir offitu. Fyrir sykursjúka þýðir minnkuð fituneysla líka að insúlínið vinnur betur í líkamanum.

Sýnileg og falin fita

Borðaðu lítið af sýnilegri fitu. Notaðu fitusnautt viðbit á brauðið í staðinn fyrir smjör. Sparaðu steikingarfeiti og borðaðu ekki feitt kjöt. Skerðu sýnilega fitu af kjötinu.

Falda fitu ættirðu einnig að forðast. Hún er t.d. í majonesi, pylsuáleggi, lifrarkæfu, salötum, salatsósum, kökum og súkkulaði. Forðast helst alveg djúpsteiktan mat því hann sýgur í sig mikla fitu við matreiðsluna. Pylsur og kjötfars er oft mjög fituríkt, haltu þig heldur við magrari vörur.

Skoðaðu alltaf innihaldslýsingar á kjötvörum. Kjötvörur með minna en 12% fituinnihaldi eru magrar. Sé fituinnihaldið 18-20% eða meira, eru þær fituríkar og þeim ætti að sleppa alveg.

Gott ráð

Magrar kjötvörur hafa mest 12% fituinnihald.

Mismunandi gerðir fitu

Hugsaðu um hvers konar fitu þú neytir. Til eru mettaðar og ómettaðar fitusýrur, og skiptast hinar ómettuðu í einómettaðar og fjölómettaðar. Sérstaklega er mikilvægt að takmarka neyslu á mettaðri fitu, en hún er í smjöri, rjóma, osti, smjörlíki, tólg, feitu kjöti og feitu áleggi.

Mettuð fita ætti ekki að gefa meira en 10% af orkunni sem við fáum úr matnum. Hins vegar er gott að fá tiltölulega meira af ein- og fjölómettaðri fitu. Einómettuð fita er m.a. í ólífuolíu, kornolíu, avocadoávöxtum (lárperum), hnetum og möndlum. Fjölómettuð fita er t.d. í jurtaolíum, jurtasmjörlíki, feitum fiski eins og síld og makríl, hnetum og möndlum.

Til að fá minna af mettaðri og meira af ómettaðri fitu geturðu sleppt því að smyrja brauð ef þú notar álegg. Ef þú vilt endilega smyrja geturðu notað og annarrar matreiðslu geturðu notað jurtaolíu (t.d. ólífuolíu eða kornolíu) eða jurtasmjörlíki – en mundu: Eins lítið og mögulegt er.

Fita

samantekt:

Notaðu eins litla fitu og hægt er. Veldu ómettaða fitu í stað mettaðrar. Borðaðu fugl, fisk og magurt kjöt. Borðaðu fitusnautt álegg eða magran ost. Notaðu olíu- eða jurtasmjörlíki til steikingar – og eins lítið og hægt er.

Allur fiskur er tiltölulega fitusnauður – líka sá sem við köllum feitan.

Gagnstætt við kjöt er í honum mikið af fjölómettaðri fitu og er hollt að borða fisk sem oftast sem heita máltíð og sem álegg.

Prótín

Orka: 1g af prótínum breytist í líkamanum í 4 hitaeiningar orku.

Prótín eru fyrst og fremst í kjöti, innmat, fugli, eggjum, fiski, osti, mjólk, sojabaunum og kornvörum.

Prótín ættu yfirleitt ekki að gefa okkur meira en 15% orkunnar sem við fáum úr matnum og því ætti prótínþörf þinni að vera nokkuð vel fullnægt í ráðlögðu mataræði fyrir sykursjúka. Hafðu hugfast að þó nokkur fita getur leynst í kjöti, kjötáleggi og osti. Því ættirðu heldur að auka skammtinn af pasta, hrísgrjónum, brauði og kartöflum en að auka skammtinn af kjöti, mjólk og eggjum ef þú þarft að borða meira en venjulega.

Þú ættir líka að reyna að fá svipað magn jurtaprótína (úr t.d. belgjurtum, grænmeti, brauði og kartöflum) eins og prótína úr kjöti og fiski.

Prótín samantekt

Borðaðu meiri „fyllingu“ (brauð, pasta, hrís grjón, kartöflur) og minna kjöt. Borðaðu jafn mikið af prótínum úr jurtum eins og úr kjöti og fiski.

Alkóhól

Orka: 1g af alkóhóli breytist í líkamanum í 7 hitaeiningar orku.(= 7 kcal).

Alkóhól er t.d. í bjór, víni, snafs, koníaki og viskýi.

Alkóhól er næstum jafn orkuríkt og fita og ætti að neyta þess í hófi. Þú getur ef til vill skipt út mjólkurglasi fyrir einn léttbjór en athugaðu þó að óáfengt öl og vín inn iheldur oft mjög mikinn sykur. Hjá þeim sem hafa sykursýki tegund 1 getur verið erfitt að segja fyrir um áhrif alkóhóls á blóðsykurinn. Þú ættir því að fara varlega í að drekka mikið.

Alkóhól getur hindrað lifrina í að senda glúkósu út í blóðið. Það þýðir að aukin hætta er á blóðsykurfalli og insúlínlosti eftir áfengisneyslu. Sértu undir áhrifum áfengis finnur þú kannski ekki eins vel og venjulega fyrir einkennum of lágs blóðsykurs. Farirðu út að skemmta þér og drekkir áfengi ættirðu því að mæla blóðsykurinn og borða auka kolvetni (t.d. brauð) áður en þú ferð að sofa. Drekkirðu brennt vín (sterka drykki), ættirðu alltaf að borða með. Stundum er nauðsynlegt að minnka skammtinn af hraðvirku insúlíni.

Alkóhól

samantekt:

Drekktu aldrei áfengi á tóman maga, það getur valdið blóðsykurfalli. Borðaðu 1-2 brauðsneiðar áður en þú ferð að sofa eftir áfengisneyslu, annars er hætta á alvarlegu blóðsykurfalli. Mældu blóðsykurinn og reyndu að kortleggja hvernig þinn líkami bregst við áfengi. Minnkaðu e.t.v. skammt inn af hraðvirku insúlíni.

Gervisætuefni og aðrar sykrur

Sætuefni sem ekki hafa áhrif á blóðsykurinn og eru ekki orkugefandi, má nota í staðinn fyrir sykur. Þessi efni eru sakkarín, sýklamat, asesúlfam K, thaumatín o.fl.

Flokka má Aspartam (NutraSweet) með þessum efnum þó það sé lítillega orkugefandi. Sýklamat og asesúlfam K (Sunett) þolir vel suðu án þess að bragðið breytist.

Aspartam missir sætubragðið sé það soðið eða bakað í meira en örfáar mínútur og Sakkarín fær beiskt bragð sé það hitað upp fyrir 70° í lengri tíma.

Ekki er ráðlegt að nota aðrar tegundir af sykrum, svo sem sykuralkóhól (sorbitol og xylitol) eða frúktósu (ávaxtasykur) í miklu magni því jafnvel þó þessi efni hækki blóðsykur minna en venjulegur sykur, eru þau orkugefandi. Borðir þú meira en 25-30g á dag af þessum efnum geturðu fengið niðurgang og þarmabólgu.

Gervisætuefni og aðrar sykrur

samantekt:

Notaðu sætuefni eins og t.d.:
Sakkarín
Sýklamat
Asesúlfam K
Apartam.

Varastu mikið magn af öðrum tegundum sykra:
Sorbitol
Frúktósa
Maltitol
Maltitolsíróp o.fl.

Aðrar leiðbeiningar um mat og sykursýki

Matur og hreyfing

Þessar leiðbeiningar geta hjálpað þér að koma í veg fyrir sykurfall og hækkaðan blóðsykur þegar þú reynir á þig.

Maturinn

 • Borðaðu eina máltíð 1-2 klst áður en þú ætlar að stunda líkamsrækt.
 • Ef þú ætlar að æfa meira en 30 mínútur í einu skaltu fá þér auka kolvetni (ca. 15-25g kolvetni fyrir hverja klst, svo sem ávaxtasafa, mjólk, ávexti eða brauð).
 • Gættu að því að fá nægan vökva ætlir þú að reyna á þig lengi í einu (1/2 – 1 l fyrir hverja klst).
 • Hafðu alltaf með þér þrúgusykur.

Insúlín

 • Taktu insúlínið þitt, en þó ekki seinna en 1 klst áður en þú byrjar að æfa.
 • Athugaðu að þú gætir þurft að minnka skammtinn af hraðvirku insúlíni fyrir æfingu (hve mikið er einstaklingsbundið og fer eftir því hvers konar æfingar þú stundar og hversu góðri þjálfun þú ert í).
 • Ef þú ferð að stunda líkamsrækt reglulega gætirðu þurft að minnka daglegan insúlínskammt þinn.

Blóðsykurinn

 • Mældu blóðsykurinn áður, á meðan og á eftir venjubundinni æfingu.
 • Frestaðu æfingu og fáðu þér auka insúlín ef blóðsykurinn er yfir 15 mmol/l, og alveg sérstaklega ef þú ert með sýru í þvagi.

Matur og veikindi

Þegar þú ert veik/ur er mikilvægt að fá orku eins og venjulega. Jafnvel þó að matarlystin sé lítil og þó þú sért með ógleði og/eða uppköst. Rúgbrauði og franskbrauði er hægt að skipta út fyrir hreina jógúrt, súrmjólk, þykkmjólk eða hafragraut.

Þú getur líka reynt að drekka sætan djús, venjulegt gos eða te með sykri á t.d. korters eða hálftíma fresti. Þú mátt ekki minnka insúlínskammtinn. Ef þú ert með hita getur verið nauðsynlegt að auka við insúlínið um ca. 20% fyrir hvert stig sem hitinn fer yfir 37°.

Mundu að fylgjast með blóðsykrinum og athuga ketóna (sýru) í þvagi. Ræddu við lækninn þinn um hvernig þú getur notað hraðvirka insúlínið til að hjálpa þér í svona aðstöðu. Hins vegar er sykurfall sjaldgæft þegar fólk er með hita.

Matur og sykurfall

Einkenni sykurfalls eru hungur, sviti, skjálfti, hjartsláttur, innvortis óróleiki, pirringur eða s lappleiki. Ef þú færð sykurfall er mikilvægt að fá sér strax einföld kolvetni sem hækka blóðsykurinn hratt, t.d. ávaxtasafa, mjólkurglas eða nokkra mola af þrúgusykri. Þú getur þurft að gera þetta nokkrum sinnum. Til að þetta virki nógu lengi er skynsamlegt að fá sér síðan eitthvað að borða, t.d. brauðsneið.

Veislumatur

Veislumatur er oft samsettur úr mögru kjöti eða fiski og heilmiklu af grænmeti. Þ.e. hollum mat sem má borða í venjulegu magni. Ef þú vilt borða meira en venjulega geturðu e.t.v. bætt við hraðvirku insúlíni fyrir matinn eða meðan á máltíðinni stendur.

Þumalfingursreglan er að bæta við 2 ein. af hraðvirku insúlíni fyrir hver auka 20g af kolvetnum. Þetta á sérstaklega við ef þú ætlar ekki að dansa um kvöldið eða hreyfa þig á annan hátt. Það er líka allt í lagi að fá sér lítinn skammt af köku eða öðrum eftirrétti á eftir veislumáltíðinni. Ferskir ávextir eru auðvitað góður valkostur í eftirrétt.

Sælgæti og gosdrykkir

Stöku sinnum er allt í lagi að fá sér smáræði af sælgæti, t.d. ís, súkkulaði, brjóstsykur og lakkrís – en þó helst strax á eftir aðalmáltíð. Það er góð hugmynd að hreyfa sig aukalega þegar þú hefur borðað sælgæti. Það gerir þér ekkert til þó þú fáir þér sykurlaust tyggigúmmí eða „ópal“ töflur daglega.

Þú ættir að forðast sykraða drykki eins og gos og sódavatn. Drekktu heldur sykurlausu tegundirnar. Lestu vel innihaldslýsingarnar á flöskunni. Sumir drykkir sem bragðbættir eru með gervisætuefnum eru merktir „light“ eða „diet“.

Skiptilistar

Eins og áður hefur verið minnst á ættir þú sem ert með sykursýki að fá svipað magn kolvetna á hverjum degi – en þar með áttu ekki að borða alltaf sama matinn.

Sykursjúkir þurfa eins og aðrir að borða fjölbreyttan mat. Skiptilistar koma því að góðum notum því þeir geta hjálpað þér að setja saman mismunandi mat með svipuðu næringargildi.

Skiptilistarnir ná yfir kolvetni og fitu og er þeim skipt í kafla um brauð, ávexti, mjólk, fitu og grænmeti. Svo er líka listi um „ýmislegt“, en þar er að finna ýmsan tilbúinn mat, eftirrétti, nasl o.fl. Þessa lista má finna í bæklingunum „Matur og sykursýki 3 og 5“.

Annað lesefni

Matur og sykursýki 2
Hollur matur fyrir sykursjúka
Matur og sykursýki 5
Ráðleggingar til þeirra sem hafa sykursýki tegund 2
Tegund 2 sykursýki, spurningar og svör.
Auk þess fást margar bækur um hollt mataræði í bókabúðum og söfnum.
Leitið upplýsinga hjá Samtökum Sykursjúkra,
Netfang: diabetes@diabetes.is
Veffang: www.diabetes.is
Félagsaðild kostar kr.1.500 á ári, kr.750 fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

Viljirðu vita meira um þyngdartap og fæði fyrir sykursjúka hafðu þá samband við lækninn þinn eða lestu hina bæklingana í röðinni „Matur og sykursýki“.

Þú getur líka haft samband við Samtök Sykursjúkra (Diabetesfélagið á Íslandi).

Hátúni 10B,
105 Reykjavík
Sími: 562-5605

Gefið út af Samtökum Sykursjúkra (Diabetesfélaginu á Íslandi), diabetes.is í samvinnu við Samtök Sykursjúkra í Danmörku.