Líkamslögun

Vaxtarlag karla/stráka

Karlmenn virðast ekki hafa verið eins uppteknir af vaxtarlagi sínu í gegnum tíðina en þó hafa herðabreiðir og sterkir karlmenn yfirleitt verið í tísku.  Svo virðist vera að veikbyggður kvenmaður hafi alltaf þurft sterkan og kröftugan karlmann sér við hlið (yeah right)

Vaxtarlag karla hefur þó líka breyst, áður voru þeir grennri og lægri að meðaltali (Napóleon keisari var tittur.)

Vaxtarlag kvenna/stelpna

Þrátt fyrir að hin granna kvenímynd hafi ríkt lengi hefur hún ekki alltaf verð í tísku.  Áður fyrr þótti fallegra að vera í þéttara lagi.  Þá var ekki auðveldara að tolla í tískunni fyrir þær sem voru mjög grannar og áttu erfitt með að bæta á sig heldur en fyrir stelpur sem eru í þéttara lagi í dag.  Það er áhugavert að líta til baka og sjá hvernig tískan breytist með árunum.

Við erum öll ólík í laginu og þar skiptir ekki aðeins fitan máli.  Beinvöxtur er einnig mismunandi og ræður miklu um útlit.  Til dæmis eru um 40% kvenna með peruvöxt hvort sem þær eru feitar eða grannar.  Ef kona með peruvöxt fer í megrun mun það ekki breyta vaxtalagi hennar mikið vegna þess að mjaðmir eru að mestu bein og hverfa ekki þótt öll fita sé fjarlægð.  Við höfum ekki stjórn á beinabyggingu, hún er arfgeng.  Ef fólk hugsar vel um útlit sitt, er hraustlegt, snyrtilegt og hefur gott sjálfstraust er það aðlaðandi hvernig sem líkamslögun þess er.

  1. Stundaglas  Sú líkamslögun þar sem axlir og mjaðmir eru jafnbreiðar.  Línurnar eru mjúkar og ávalar.  Mitti er áberandi og upphandleggir oft sverir.  Í fegurðarsamkeppnum er þetta vaxtarlag yfirleitt vinsælast.  Af þekktum konum með þennan vöxt ma´nefna Selmu Björnsdóttur söngkonu, Britney Spears söngkonu og Lindu Pétursdóttur fegurðardrottningu.  Einungis um 8–16% kvenna hafa þennan vöxt.
  2. Hjarta  Axlir og upphandleggir eru breiðasti hluti líkamans.  Efri hluti líkamans er breiðari en sá neðri og mjaðmir og læri eru frekar mjó.  Hjartalaga kona virkar oft stærri en konur með annað vaxtarlag þar sem þyngdarpunkturinn er mjög ofarlega.  Af þekktum konum með þennan vöxt má nefna leikkonuna Catherine Zeta-Jones.  Um 8-16% kvenna hafa þennan vöxt.  Hjartalaga karlmenn eru oft með mikinn maga.
  3. Sporaskja   Engin mittislína og þyngdin sest öll á búkinn í stað útlima.  Útlimir eru því yfirleitt mjög grannir miðað við búk.  Af þekktum konum með þennan vöxt má nefna Kelly Osbourne söngkonu og Drew Barrymore leikkonu.  Um 30% kvenna hafa þennan vöxt.  Þetta er algengasta vaxtarlag meðal karlmanna.
  4. Pera   Þyngdin sest öll fyrir neðan mitti og efri hluti líkamans er mjög grannur sé miðað við þann neðri.  Það sem einkennir perulaga vöxt er fallegt mitti.  Jennifer Lopez söng- og leikkona er fyrsta perulaga konan sem kemst í tísku í langan tíma.  Um 40% kvenna hafa þennan vöxt.  Perulaga karlmönnum fer fjölgandi með aukinni neyslu á hormónabættum matvælum.
  5. Beinvaxin   Nær engar mjaðmir eða brjóst og grönn læri.  Þessi vöxtur þykir ákjósanlegastur í fyrirsætubransanum.  Af þekktum konum með þennan vöxt má nefna Nicole Kidman leikkonu og Christinu Aguilera söngkonu.  Um 8-16% kvenna hafa þennan vöxt.  Næstalgengasta vaxtarlag karlmanna.  Þessir karlmenn eru vanalega grannir.
  6. Þríhyrningur  Mjög breiðar axlir og grannar mjaðmir.  Þær sem eru með þríhyrningslaga vöxt eru oft mjög grannar og hann einkennir oft  fimleika- og sundkonur.  Af þekktum konum með þennan vöxt má nefna Birgittu Haukdal söngkonu og Kristínu Rós Hákonardóttir afrekskonu í sundi.  Um 8-16% kvenna hafa þennan vöxt.  Þetta vaxtarlag þykir eftirsóknarverðast meðal karlmanna, gerir þá herðabreiða og kraftalega.

Úr bókinni Hvað er málið?