Grænmeti og ávextir til höfuðs krabbameini

Frá örófi alda hafa menn trúað á heilnæmi plantna ýmiss konar og lækningamátt þeirra gagnvart ýmsum kvillum. Í Egyptalandi hinu forna trúðu menn að neysla hvítkáls og lauks læknaði marga sjúkdóma, hvítlaukur var álitinn heilög planta. Grænmeti af krossblómaætt (kálgrænmeti ýmiss konar og rófur) var notað í lækningaskyni gegn m.a. höfuðverk, heyrnarleysi, niðurgangi, þvagsýrugigt og magaóþægindum. Blaðselja og gúrka voru gefnar við þvagteppu, gulertur við hjartakveisu og linsubaunir við niðurgangi og til að stuðla að jafnlyndi. Rúsínur og vínber höfðu margvísleg læknisfræðileg áhrif og voru m.a. gefin með stólpípu.

Þar til nýlega hafa heilsusamlegir eiginleikar grænmetis og ávaxta frekar byggst á trú en vísindalegum staðreyndum, en á síðustu árum og áratugum hafa fjölmargar faraldsfræðilegar rannsóknir komið fram þar sem tengsl neyslu grænmetis og ávaxta við heilsu eru skoðuð. Sýna niðurstöður þessara rannsókna oftar en ekki fram á verndandi áhrif mikillar neyslu þessara afurða gagnvart sjúkdómum á borð við krabbamein. Í nýlegri samantekt reyndust 128 rannsóknir af 156 sýna marktæk verndandi tengsl af neyslu grænmetis og ávaxta á ýmsar gerðir krabbameins. Hefði mátt búast við að finna þessi tengsl í 4 rannsóknum ef tilviljun ein réði för.

Þetta sterka samband ásamt fleiri heilnæmum áhrifum þessara fæðutegunda hefur leitt til þess að víða á Vesturlöndum er farið að leggja mikla áherslu á aukna neyslu grænmetis og ávaxta með herferðum á borð við „5 á dag“, þar sem vísað er til fjölda stykkja eða skammta af þessum fæðutegundum.

Andoxunarefni og önnur krabbameinshemjandi efni

Í grænmeti og ávöxtum er fjölda krabbameinshemjandi efna að finna sem hafa margvíslega virkni, sem getur lagst saman og jafnvel haft margföldunaráhrif. Meðal þeirra eru karótenoíðar, C-vítamín, E-vítamín og selen, sem öll hafa andoxunarvirkni. Minna þekkt eru flavónoíðar, plöntuestrógen, próteasahindrar og allíumsambönd sem hafa fjölbreytileg krabbameinshindrandi áhrif. Reyndar mætti lengi áfram telja því í ávöxtum og grænmeti hafa fundist nú þegar yfir 150 efnasambönd sem virðast hafa eitthvað til málanna að leggja í baráttunni gegn krabbameini.

Margir vilja stytta sér leið með því að fá einhver þessara efna beint, þ.e. á formi fæðubótarefna, og veltir fæðubótarefnamarkaðurinn gríðarlegum fjármunum árlega í sölu á andoxunarefnum. Það virðist þó ekki hafa tilætluð áhrif, því stórar rannsóknir þar sem þátttakendum eru gefnir stórir skammtar andoxunarefna, hafa sýnt að áhrifin eru ekki þau sömu og við neyslu grænmetis og ávaxta. Enda er mál manna í vísindaheiminum að samanborið við fæðubótarefni sé bæði miklu fleiri heilnæm efnasambönd að fá úr grænmeti og ávöxtum og að þar fáist þessi efnasambönd í náttúrulegum hlutföllum sem tryggi eðlilegt virknisamspil milli efnanna eftir að í líkamann er komið. Að auki hækkar mikil neysla grænmetis og ávaxta hlutfall kolvetna og trefja í fæðunni á kostnað fitu, þ.a. hlutfall orku úr fitu lækkar og þar með dregur úr líkum á offitu og sjúkdómum tengdum henni, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum og jafnvel krabbameini. Ennfremur eru grænmeti og ávextir fjölbreytilegur flokkur matvæla, með tilliti til bragðskynrænna þátta, þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Gerðir krabbameins og tegundir ávaxta og grænmetis

Rannsóknir hafa sýnt að áhrif grænmetis og ávaxta virðast vera sterkust á krabbamein í öndunar- og meltingarfærum, þ.e. lungum, vélinda, munni, barkakýli, maga og ristli. Hlutfallsleg áhætta fyrir þessar gerðir krabbameins í lægstu neysluhópum var u.þ.b. tvöföld á við þá hæstu. Áhrifin eru ekki eins sterk á þær gerðir krabbameins sem kallast hormónatengdar, til dæmis í brjóstum, leghálsi, eggjakerfi og legþekju. Þar var hlutfallslega áhættan í kringum 1,5 í lægstu neysluhópunum miðað við þá hæstu.

Þær tegundir grænmetis og ávaxta sem helst hafa verið tengdar við minnkaða hættu á krabbameini eru grænt blaðgrænmeti, grænmeti af krossblómaætt (t.d. hvítkál, spergilkál, rósakál, blómkál, næpur og grænkál), gulrætur, salatblöð og sítrusávextir. Tengsl kartaflna og bauna við krabbamein eru ekki eins afgerandi.

Grænmetis- og ávaxtaneysla Íslendinga

Íslendingar borða allra þjóða minnst í Evrópu af grænmeti og ávöxtum. Í landskönnun á mataræði þjóðarinnar frá árinu 1990 kemur fram að helmingur þátttakenda neytti sem nemur hálfri gulrót og 1/4 úr ávexti á dag. Ótrúlega margir eða yfir 10% þátttakenda borðuðu alls enga ávexti og helmingur karla borðaði sem samsvarar tæpu epli á viku. Í rannsókn á mataræði íslensks skólafólks á aldrinum 10-14 ára, sem gerð var veturinn 1992-1993, kom m.a. í ljós að meðaltalsneysla ferskra ávaxta og berja var sem nemur hálfum ávexti á dag og heildargrænmetisneyslan var sem nemur þriðjungi úr gulrót. Nýlegar rannsóknir á neysluvenjum á fyrsta ári og við tveggja ára aldur leiddu í ljós að neyslan náði hámarki við 9 mánaða aldur (þegar mörg börn fá grænmetis- og ávaxtamauk), en lækkaði eftir það. Við tveggja ára aldur jafngilti grænmetisneyslan fimmtungi úr gulrót og þriðjungi úr ávexti að meðaltali.

Eins og þessar niðurstöður gefa til kynna, borða Íslendingar, jafnt ungir sem aldnir, of lítið af grænmeti og ávöxtum. Neyslan hefur þó aukist talsvert undanfarna áratugi og er væntanlega meiri núna hjá fullorðnum Íslendingum en fyrir 10 árum.

Aukum grænmetis- og ávaxtaneyslu frá unga aldri

Í raun ættu allir að borða meira af grænmeti og ávöxtum, sama á hvaða aldri þeir eru. En það getur verið erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og því er æskilegt að temja sér strax á unga aldri hollar neysluvenjur með miklu af grænmeti og ávöxtum í fæðinu.

Eftir eins árs aldurinn byrjar barnið að borða með fjölskyldunni þann mat sem á borðum er. Á þessum tíma byrja matarvenjur barnsins að mótast og þær venjur mótast að miklu leyti af þeim matarvenjum sem eru á heimilinu. Foreldrar gegna lykilhlutverki í þessu sambandi, æskilegt er að þeir sýni gott fordæmi og borði grænmeti og ávexti sjálfir, því börn gera oft frekar það sem þeim er sýnt en það sem þeim er sagt. Margir foreldrar segja að börn sín vilji ekki grænmeti, en gott er að hafa í huga að börn eru í eðli sínu varkár gagnvart nýjum fæðutegundum og þegar verið er að kynna þær fyrir þeim er ekki ólíklegt að þau hafni þeim í fyrstu. Það þarf þó alls ekki að þýða að þau vilji ekki sjá viðkomandi fæðutegund aftur og því er mikilvægt að bjóða vöruna endurtekið, því sennilegt er að barnið muni taka hana í sátt að lokum. Óæskilegt er þó að neyða eða þvinga fæðu ofan í börn. Einnig er það ekki talin góð lenska að nota mat í verðlaunasamhengi, til dæmis með setningum á borð við: „Tíndu dótið af gólfinu og þá færðu sælgæti“, eða „ef þú borðar grænmetið þitt máttu horfa á sjónvarpið“. Þetta hefur áhrif á langanir barna í sambandi við mat og kennir þeim að mislíka frekar matur sem það borðar til að fá verðlaun, en líka betur við mat sem notaður er sem verðlaun. Börn sem læra og venjast því að borða fæði ríkt af grænmeti og ávöxtum strax á barnsaldri eru líklegri til að halda áfram á sömu braut á fullorðinsárum og hafa þannig lagt grunn að heilsusamlegum lífsháttum sem minnka líkur verulega á að fá margar gerðir krabbameins, hjarta- og æðasjúkdóma og fleiri sjúkdóma sem hrjá Vesturlandabúa nútímans.