Fæðuofnæmi og fæðuóþol

Handrit og samantekt:
Guðrún Adolfsdóttir, matvælafræðingur.

Fagleg ráðgjöf:
Félag ofnæmis- og ónæmislækna.
Næringarráðgjafar á sjúkrastofnunum

Fæðuofnæmi og fæðuóþol
– hver er munurinn?
Óþol fyrir aukefnum er ekki algengt

Ert þú með fæðuofnæmi eða fæðuóþol?

Nei takk, ég er með ofnæmi!

Vafalaust hefur þú heyrt þessa fullyrðingu eða jafnvel notað hana sjálf(ur) vegna þess að þú telur þig vera með „ofnæmi" fyrir ákveðnum mat eða tilteknum efnum í mat. Erlendar kannanir sýna að u.þ.b. 33% fullorðinna telja sig vera með fæðuofnæmi. Hins vegar hafa rannsóknir leitt í ljós að innan við 2% einstaklinga eða færri en einn af hverjum 50 hafa raunverulega fæðuofnæmi. Ofnæmi fyrir mat er því ekki eins algengt og margir halda.

Ofnæmi eða óþægindi – fæðuóþol

Sumir finna fyrir einkennum, sem líkjast ofnæmi, þegar þeir borða ákveðinn mat, án þess þó að ónæmiskerfið komi við sögu. Í slíkum tilfellum er ekki rétt að tala um ofnæmi heldur skulum við kalla það önnur óþægindi af völdum fæðu. Fæðuóþol er dæmi um slík óþægindi. Þessi óþægindi eru algengari en ofnæmi en í flestum tilvikum eru þau væg.

Óþol fyrir aukefnum

Margir telja að aukefni í matvælum geti valdið ofnæmi. Hið rétta er að einungis lítill hluti þeirra aukefna, sem leyfilegt er að nota í matvörur, geta valdið einkennum sem nefnd eru óþol. Erlendar rannsóknir benda til þess að ofnæmi og óþol fyrir mat sé um það bil 10 sinnum algengara en óþol fyrir aukefnum.

Fæðuofnæmi tengist starfsemi ónæmiskerfisins.
Hvað er E mótefni?

Hvað er fæðuofnæmi?

Hvað er fæðuofnæmi?

Fæðuofnæmi eru viðbrögð líkamans við ákveðnum fæðutegundum eða efnum í fæðu þar sem ónæmiskerfi líkamans kemur við sögu. Þá geta sum efni í fæðu valdið óþoli eða óþægindum án þess að það tengist starfsemi ónæmiskerfisins.

Ofnæmi er truflun á ónæmiskerfinu

Hlutverk ónæmiskerfisins er að verja líkamann sýklum og öðrum framandi efnum sem kunna að berast úr umhverfinu. Þegar starfsemi ónæmiskerfisins verður of mikil og vart verður sjúkdómseinkenna er talað um ofnæmi. Það má því segja að ofnæmi sé truflun á starfsemi ónæmiskerfisins.

E-mótefnið og ofnæmisviðbrögð

Þegar einstaklingur sem hefur fæðuofnæmi borðar þá fæðutegund sem ofnæminu veldur, verður ónæmiskerfið fyrir áreiti ofnæmisvakans og myndar óvenju mikið magn E-mótefna. Þessi mótefni eru bundin boðfrumum. Þegar ofnæmisvakinn hefur bundist E-mótefni losa boðfrumurnar efni (m.a. histamín) sem valda ofnæmisviðbrögðum.

Hvar kemur ofnæmið fram?

Boðfrumurnar eru aðallega í þeim líffærum líkamans sem eru í snertingu við ytra umhverfi okkar eins og húð, lungum, meltingarfærum og augum. Þess vegna koma ofnæmisviðbrögðin oftast fram í þessum líffærum.

Hjá flestum koma einkennin í ljós innan klukkustundar.
Ofnæmislost getur verið lífshættulegt.

Ofnæmisviðbrögð.

Ofnæmisviðbrögð

Það geta liðið fáeinar mínútur og allt að 24 klst. þar til ofnæmisviðbrögðin koma fram. Algengast er að einkennin komi fram innan klukkustundar frá því að maturinn er borðaður. Mjög viðkvæmir einstaklingar finna fyrir einkennum við það eitt að anda að sér gufu sem myndast við suðu/steikingu viðkomandi fæðutegundar, en það á sérstaklega við ef um er að ræða ofnæmi fyrir fiski eða skelfiski. Ekki er fyrirfram hægt að segja til um hvaða fæðutegund veldur hvers konar einkennum. Ein fæðutegund getur valdið mismunandi einkennum og sömuleiðis geta sömu einkenni orsakast af fleiri en einni fæðutegund.

Ofnæmi og astmi

Þótt fæðuofnæmi geti í sumum tilvikum aukið á einkenni þeirra sem hafa astma, þá er fæðuofnæmi sjaldnast talið orsök sjúkdóma í öndunarfærum. Þess ber þó að geta að í þeim tilfellum, þegar fæðuofnæmi hefur áhrif á astma, geta astmaköstin oft verið slæm og jafnvel lífshættuleg.

Ofnæmislost

Það er sjaldgæft en mjög alvarlegt ástand þegar ofnæmisviðbrögð koma fram í mörgum líffærum samtímis. Það er kallað ofnæmislost (anaphylaxis) og koma einkennin fljótlega fram eftir neyslu matarins.

Helstu einkenni eru: Ofsakláði, ofsabjúgur, bólgur í hálsi, öndunarerfiðleikar, lækkaður blóðþrýstingur eða meðvitundarleysi. Alvarlegt ofnæmislost getur jafnvel leitt til dauða.

Einkennin eru einstaklingsbundin.
Meltingartruflanir, nefrennsli og exem eru meðal einkenna fæðuofnæmis.

Helstu einkenni fæðuofnæmis

Einstaklingsbundin einkenni

Einkennni fæðuofnæmis geta verið mjög mismunandi eftir einstaklingum. Það er misjafnt hversu alvarleg þau eru, hvernig þau lýsa sér, hvenær þau koma fram eftir máltíð og hversu mikið magn þarf til að framkalla einkenni.

*Hefur ekki verið staðfest með rannsóknum

Mjólk og egg eru algengustu ofnæmisvaldarnir hjá börnum.
Fáðu læknisálit!

Hvaða matur getur valdið ofnæmi?

Algengustu ofnæmisvaldar

Eins og sést í töflunni er algengast að eftirtaldar fæðutegundir valdi ofnæmi: Mjólk, egg, fiskur, skelfiskur, sojabaunir, hnetur, jarðhnetur, ertur (grænar baunir) og hveiti. Það eru ákveðin prótein í þessum matvælum sem eru ofnæmisvakar og valda því ofnæmiseinkennum.

Mjólk og egg eru algengustu ofnæmisvaldarnir hjá börnum. Mjólkur- og eggjaofnæmi hjá börnum hverfur í flestum tilfellum á 1.-3. aldursári. Ofnæmi fyrir fiski, skelfiski og hnetum hverfur hins vegar sjaldnast. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir fiski eru yfirleitt mjög næmir og þá er oftast um að ræða ofnæmi fyrir flestum fisktegundum þótt til séu undantekningar frá því. Ofnæmi fyrir rækjum, humri, hörpuskel, ostrum og kræklingi er einnig þekkt. Sojaprótein geta valdið sterkum ofnæmisviðbrögðum. Börn með ofnæmi fyrir mjólk geta einnig haft ofnæmi fyrir sojamjólk.

Fæðuofnæmi er algengast meðal ungra barna. Hafir þú grun um að barnið þitt sé með ofnæmi skaltu hafa samband við lækni.

Fæðudagbók – til að finna tengsl milli fæðutegunda og einkenna.

Hvernig má greina ofnæmi?

Greining fæðuofnæmis.

Ekki er erfitt að greina fæðuofnæmi ef sömu einkennin koma ætíð fram eftir neyslu tiltekinnar fæðutegundar. Þar sem fæðutengd einkenni geta orsakast af öðru en ofnæmi er nauðsynlegt að leita ráða sérfræðinga til að fá úr því skorið hvort um ofnæmi er að ræða.

Fæðusaga og fæðudagbók

Greining fæðuofnæmis hefst með því að læknir skráir eftir frásögn einstaklingsins hvaða fæðu hann hafi neytt undanfarna daga (svokölluð fæðusaga). Læknirinn skoðar hann til að finna út hvaða fæðutegund gæti valdið ofnæminu, hver einkennin eru, hversu langur tími líður frá neyslu þar til einkennin koma fram og hversu oft einkennin hafa komið fram. Einnig ráðleggja læknar notkun fæðudagbókar þar sem neyslan ásamt einkennum, sem fram koma, er skráð tímabundið. Þannig er hægt að fá hugmynd um tengsl milli ákveðinna fæðutegunda og einkenna, án þess þó að hægt sé að sanna ákveðið orsakasamband.

Húðpróf

Húðpróf (prick-skin test) getur gefið vísbendingu um ofnæmi. Þá er lausn af tiltekinni fæðutegund sett á húðina. Ef engin viðbrögð koma fram í húðinni er prófið neikvætt og ólíklegt að um ofnæmi sé að ræða. Ef húðin verður upphleypt og rauð innan 20 mínútna, er húðprófið jákvætt og hugsanlega um ofnæmi að ræða.

Áreitipróf (fæðuþolspróf) eru notuð til að staðfesta niðurstöður húðprófa og blóðprófa.

Ofnæmispróf og rannsóknir

Blóðpróf

Blóðpróf (RAST próf), sem mælir E mótefni í blóði, getur gefið sambærilegar upplýsingar og fást með húðprófi.

Áreitipróf

Ef fæðusaga og prófanir benda til ofnæmis fyrir ákveðinni fæðutegund og ef einkennin eru ekki mjög alvarleg, eru oft gerð áreitipróf (food challenge), einnig kölluð fæðuþolspróf. Þá er fæðutegundin fyrst útilokuð í ákveðinn tíma og athugað hvort einkennin hverfa. Síðan er fæðutegundinni bætt aftur í fæðuna til að athuga hvort einkenni komi fram á ný. Ef vart verður sömu einkenna er hægt að staðfesta að um ofnæmi sé að ræða.

Tvíblind áreitipróf

Niðurstöður verða áreiðanlegri ef gerð eru tvíblind áreitipróf (double-blind, placebo-controlled food challenge=DBPCFC). Í slíku prófi fær einstaklingurinn annars vegar fæðu sem inniheldur viðkomandi fæðutegund/efni og hins vegar fæðu sem ekki inniheldur fæðutegundina/efnið. Hvorki sjúklingurinn né læknirinn vita hvað verið er að prófa hverju sinni.

Veitið því athygli að ekki er hægt að nota aðrar aðferðir en þær sem hér hafa verið nefndar til að kanna hvort um fæðuofnæmi sé að ræða.

Lærðu að útiloka ofnæmisvaldinn.
Lærðu að lesa á umbúðir matvæla.
Fáðu ráðleggingar hjá lækni og næringarráðgjafa.

Meðhöndlun fæðuofnæmis

Að útiloka ofnæmisvaldinn

Þegar fæðuofnæmi hefur verið greint er eina örugga ráðið að útiloka þá fæðutegund sem ofnæminu veldur. Útilokun ákveðinna fæðutegunda úr daglegum kosti getur verið erfið og í mörgum tilfellum er mikilvægt að ráðfæra sig við lækni og næringarráðgjafa. Taka þarf tillit til viðkomandi einstaklings, hversu vel/illa hann þolir fæðutegundina, hvort hætta er á næringarskorti og hvaða fæðu hægt er að neyta í stað þeirrar sem útilokuð er.

Að lesa á umbúðir

Innihaldslýsingar á umbúðum matvæla eru nauðsynleg hjálpartæki við val á hentugri fæðu. Mikilvægt að viðkomandi kynni sér hvernig slíkum merkingum er háttað og hvaða reglur gilda. Sé upplýsingum ábótavant áttu rétt á að fá þær frá framleiðanda eða seljanda vörunnar. Sjá nánar kaflana um umbúðamerkingar.

Lyf við ofnæmislosti

Einstaklingar sem eiga það á hættu að fá ofnæmislost þurfa að hafa við hendina viðeigandi lyf, eins og adrenalín (Epipen) og andhistamín og vita hvernig þau eru notuð. Einnig er rétt er að þeir beri á sér viðvörunarmerki (Medic Alert) þar sem greint er frá ofnæminu.

Fæðuofnæmi getur verið langvarandi en það er bæði háð viðkomandi fæðutegund og þeim einstaklingi sem í hlut á.

Þyngdartap, þreyta og næringarskortur – gæti þetta verið glútenóþol?

Fæðuóþol og önnur óþægindi

Einkenni fæðuóþols

Fæðuóþol líkist ofnæmi að því leyti að einkennin eru svipuð. Hins vegar kemur ónæmiskerfið sjaldnar við sögu þegar um óþol er að ræða. Orsakir fæðuóþols eru í flestum tilvikum óþekktar. Til að fá vísbendingu um fæðuóþol er þeirri aðferð beitt að útiloka fyrst þá fæðutegund, sem talin er valda óþolinu, og bæta henni síðan við aftur til að sjá hvort einkennin koma fram að nýju.

Laktósuóþol

Laktósuóþol stafar af skorti á efni (laktasa) sem brýtur niður mjólkursykur (laktósu) og líkaminn getur því ekki melt mjólkursykur úr fæðunni. Afleiðingarnar eru verkir, loftmyndun í þörmum og niðurgangur. Þeir sem eru með laktósuóþol verða að útiloka mjólk og ýmsar mjólkurafurðir úr fæðunni.

Glútenóþol

Glútenóþol lýsir sér sem bólga í þarmaslímhimnunni vegna próteinsins glútens. Afleiðingarnar eru niðurgangur, fitugar hægðir, þyngdartap, þreyta og næringarskortur. Þeir sem eru með glútenóþol verða að útiloka allan mat sem inniheldur glúten. Glúten er í hveiti, rúgi, höfrum og byggi. Það er því í öllum matvörum sem innihalda þessar korntegundir.

Óþol fyrir aukefnum

Aukefni geta valdið óþoli, og þá sérstaklega sum litarefni, rotvarnarefni og þráavarnarefni. Einkennin koma oftast fram á húð sem roði, útbrot og kláði. Rotvarnarefnið súlfít getur ýtt undir astmaeinkenni hjá þeim sem hafa astma af öðrum ástæðum (á við um 5% tilfella).

Sterkir ostar, pepperóní, súkkulaði, léttvín, kaffi – allt eru þetta matvæli sem geta valdið óþægindum.

Matvæli sem geta valdið óþægindum

Histamín í matvælum

Matvæli sem innihalda histamín og önnur skyld efni eins og sterkir ostar, spægipylsa, pepperóní, makríll, sardínur, síld og léttvín geta valdið svipuðum einkennum og fæðuofnæmi. Sama er að segja um matvæli sem losa histamín úr boðfrumum eins og súkkulaði, jarðarber, skelfiskur, tómatar og spínat.

Koffein

Koffein í kaffi og te getur valdið einkennum eins og brjóstsviða, magaverkjum, óreglulegum hjartslætti og svefnleysi.

Eiturefni

Eiturefni, sem bakteríur mynda þegar matvæli skemmast og þörungaeitur í skelfiski geta valdið kvillum eins og magaverkjum, niðurgangi og uppköstum.

Athugið að ofnæmislyf koma yfirleitt ekki að gagni við meðhöndlun á fæðuóþoli og öðrum óþægindum af völdum fæðu.

Hjá Hollustuvernd ríkisins færðu lista yfir öll aukefni sem leyfilegt er að nota í matvæli.

Hvað veistu um aukefni og óþol?

Strangar reglur um aukefni

Aukefni eru notuð við framleiðslu matvæla til að lengja geymsluþol og viðhalda bragðgæðum og útliti. Aukefni eru rannsökuð mjög ítarlega áður en þau eru leyfð til notkunar í matvæli. Reglur eru í gildi sem tilgreina hvaða efni megi nota og í hvaða magni. Aukefnin fá E-númer þegar þau hafa verið viðurkennd af yfirvöldum.

Merking E-númera á umbúðum er því viss trygging fyrir neytendur.

Aukefni geta valdið óþoli

Ekki er algengt að aukefni valdi óþoli og hingað til hefur þáttur aukefna sem óþolsvaldandi efna verið ofmetinn. Í könnun sem gerð var í Bretlandi töldu 7% aðspurðra sig vera með óþol fyrir aukefnum. Hins vegar kom í ljós í tvíblindu áreitiprófi (fæðuþolsprófi) að einungis 0.2% voru í raun með óþol fyrir aukefnum. Rannsókn sem gerð var á skólabörnum í Danmörku staðfesti að 1-2% barnanna var með óþol fyrir ákveðnum litarefnum og rotvarnarefninu bensósýru.

Ekki virðist óalgengt að þeir, sem eru með óþol fyrir aukefnum, hafi líka einhverja ofnæmissjúkdóma.

Sum aukefni geta valdið óþoli. Öll aukefni ber að tilgreina á umbúðum matvæla.

Umbúðamerkingar og reglur um innihaldslýsingar

Reglur um merkingu aukefna

Aukefni þarf að merkja sérstaklega á umbúðum matvæla. Samkvæmt reglum ber að tilgreina heiti þess flokks, sem viðkomandi aukefni tilheyrir, og á eftir skal skrá annað hvort heiti efnis ins eða E-númer þess. Dæmi um rétta merkingu á rotvarnarefninu bensósýru:

Rotvarnarefni (bensósýra) eða Rotvarnarefni (E 210)

Innihaldslýsingar á umbúðum

Þurfir þú að útiloka tiltekin efni úr fæðunni er mjög mikilvægt að þú notfærir þér þær upplýsingar sem fram koma á umbúðunum. Meginreglan um innihaldslýsingar er sú að á umbúðum eiga öll efni að vera skráð í röð eftir minnkandi magni.

Undantekningar frá reglunni

Fjórar undantekningar eru frá þessari reglu. Sjá skýringar hér á eftir í liðum 1-4.

Þurfir þú að útiloka efni úr fæðunni skaltu þekkja meginregluna um umbúðamerkingar og undantekningar frá henni.

Lærðu á merkingarnar

1. Hráefnið vegur minna en 25%

Sé matvara samsett úr mismunandi hráefnum þarf ekki að merkja hvert efni fyrir sig í þeim hráefnum sem eru innan við 25% af þyngd vörunnar. Dæmi um það eru í innihaldslýsingu fyrir pítsu með pepperóní:

INNIHALD:

Botn: Hveiti, vatn, ger, salt.
Fylling: Pepperóní, sósa, sveppir, ostur, krydd.

Þar sem pepperóní er innan við 25 % af þyngd pítsunnar þurfa þau efni sem eru í pepperóní ekki að koma fram í innihaldslýsingunni. Það sama á við um sósuna og ostinn. Þó gæti þurft að merkja aukefni sem berast úr hráefnum í samsett matvæli, eins og fram kemur hér á eftir.

Þú skalt vera sérstaklega vel á verði þegar matvara er samsett úr mörgum hráefnum. Þurfir þú að fá nákvæmari upplýsingar um innihaldið skaltu leita eftir upplýsingum hjá framleiðanda eða innflytjanda.

2. Flokksheiti hráefna

Í sumum tilfellum má nota flokksheiti í innihaldslýsingum í stað þess að tilgreina nákvæmlega hvaða hráefni er notað. Dæmi um það eru í innihaldslýsingu fyrir tilbúinn kjötrétt:

INNIHALD:

Lambakjöt, sósa (vatn, sojasósa, edik, gerekstrakt, krydd, sterkja, bindiefni (E 450), rotvarnarefni (E 210)), grænmeti, salt.

Í þessari innihaldslýsingu þarf að merkja þau efni, sem sósan er gerð úr, þar sem hún er meira en 25% af þyngd vörunnar. Þegar krydd eða kryddjurtir vega minna en 2% af þyngdinni, þarf ekki að tilgreina um hvaða krydd er að ræða. Nota má flokksheitin krydd eða kryddjurtir. Þegar sterkja er notuð þarf ekki að tilgreina hvers konar sterkju er um að ræða. Nota má flokksheitið sterkja en hún getur hvort heldur sem er verið hveiti-, kartöflu-, eða maíssterkja. Flokksheitið grænmeti má nota yfir blöndu af grænmeti sem vegur ekki meira en 10 % af heildarþyngd vörunnar.
Matvörur sem seldar eru beint úr borði kaupmanns þarf ekki að merkja en þú átt rétt á nauðsynlegum upplýsingum.

Þú átt rétt á upplýsingum þótt merkingar vanti

3. Aukefni í hráefnum

Aukefni sem berast með hráefnum yfir í matvöru þarf ekki að merkja ef þau hafa ekkert tæknilegt hlutverk. Dæmi um þetta er tilbúin sósa í krukku. Í sósunni er vín sem inniheldur rotvarnarefnið súlfít. Vínið þarf að tilgreina í innihaldslýsingunni en ekki efnið súlfít, þar sem það hefur ekki áhrif á geymsluþol sósunnar.

4. Ópakkaðar matvörur

Matvörur eins og kjöt, fiskur og brauð, sem keypt eru beint úr borði kaupmanns eru oft ómerktar. Seljanda er ekki skylt að merkja vöruna en honum ber að fræða kaupanda um innihaldið leiti hann eftir því.

Neytendur eru hvattir til að afla sér upplýsinga um innihald þeirra matvara sem ekki eru merktar á sölustað.

Hvað er þriðja kryddið?
Gengur fæðuofnæmi í erfðir?
Kynntu þér málið.

Nokkrum spurningum svarað

Hverjir fá fæðuofnæmi?

Allir geta fengið fæðuofnæmi og það er algengara meðal barna en fullorðinna. Börnum foreldra með ofnæmi er mun hættara við að fá ofnæmi en öðrum. Meiri líkur eru taldar á því að börn fái ofnæmi fyrir ákveðinni fæðutegund því yngri sem þau eru þegar þau fá hana í fyrsta skipti.

Er þriðja kryddið (MSG) varasamt?

MSG (einnatríumglútamat) er mikið notað sem bragðaukandi efni í matargerð. Þekkt einkenni vegna mikillar neyslu á þessu aukefni eru höfuðverkur og þyngsli fyrir brjósti. Sé MSG (E 621) notað í matvæli á það að koma fram í innihaldslýsingunni. Efnið kemur einnig náttúrulega fyrir í gerekstrakti og jurtapróteinum, sem m.a. er að finna í pakkasósum, pakkasúpum og sojasósu.

Geta varnarefni valdið ofnæmi/óþoli?

Ekkert bendir til þess að efni sem notuð eru við ræktun á ávöxtum og grænmeti, meðal annars til varnar gegn myglu, geti valdið ofnæmi eða óþoli.

Má fyrirbyggja ofnæmi/óþol?

Börn sem fá brjóstamjólk fyrstu 4-6 mánuðina fá síður fæðuofnæmi. Hafi foreldrar eða systkini ofnæmissjúkdóm er mælt með eftirfarandi:

 • brjóstamjólk fyrstu 6 mánuðina
 • engri fastri fæðu fyrr en um 6 mánaða aldur
 • engum fæðutegundum eins og eggjum, fiski, hnetum og ertum fyrstu 1-2 árin.
 • < /ul>Til að fyrirbyggja ofnæmi hjá fullorðnum er eina ráðið að útiloka fæðutegundina sem ofnæminu/óþolinu veldur. Í sumum tilfellum þarf að beita lyfjameðferð.

  Vissir þú að ýmis efni í matvælum eru unnin úr
  mjólk, hveiti, soja eða eggjum?
  Þessi efni geta valdið ofnæmi eða óþoli.

  Hvað heita efnin í matnum?

  Hvað heita efnin í matnum?

  Hér má sjá töflur yfir ýmis heiti á mjólk, soja, eggjum, hveiti eða efnum úr þessum hráefnum/matvælum sem koma fyrir í innihaldslýsingum matvæla. Til hægri í töflunum má sjá matvæli sem þessi hráefni finnast í. Aðrar matvörur en þær sem hér eru tilgreindar, geta einnig innihaldið þessi hráefni.

  Athugið að framleiðendur breyta stundum uppskriftum og innihaldslýsingum á matvælum. Lesið því ávallt innihaldslýsingar á matvælum til að koma í veg fyrir óþægindi.

  Birt með góðfúslegu leyfi Hollustuverndar, hollver.is

  Bæklingur þessi sem gefinn var út 1995, fæst m.a. hjá Hollustuvernd ríkisins, Ármúla 1a, Reykjavík, s. 585 1000.