D-vítamín

 

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín sem stuðlar að upptöku kalks og fosfórs úr meltingarvegi en þau efni eru nauðsynlegt í vexti og viðhaldi beina.

Hve mikið?

Ráðlagður dagsskammtur D-vítamíns fyrir fullorðna eru 15 míkrógrömm (600 AE) og 10 míkrógrömm (400 AE) fyrir börn.  Raunin er hinsvegar sú að Íslendingar eru almennt ekki að fá nema 4-5 míkrógrömm á dag úr fæðunni. Samkvæmt íslenskum rannsóknum þjáist yfir þriðjungur fullorðinna af D-vítamínskorti og 10-15% af alvarlegum D-vítamínskorti. Aðeins þau börn sem taka lýsi daglega ná ráðlögðum dagsskammti af D-vítamíni og fjórðungur barna nær ekki lágmarksþörf af D-vítamíni á dag.

Skortur

D-vítamín skortur getur valdið ýmsum kvillum svo sem beinþynningu, beinbrotum, vöðvarýrnun og tannskemmdum. Einnig getur hann valdið einkennum eins og þreytu, magnleysi, pestsækni, þunglyndi, kvíða, beinverkjum og vöðvaverkjum. Hjá börnum getur D-vítamínskortur valdið beinkröm sem er alvarlegur hörgulsjúkdómur.

Hvar fáum við D vítamín ?

D-vítamín fáum við úr lýsi, feitum fisk s.s laxi, silungi, sardínum, síld og lúðu, eggjarauðum og D-vítamínbættum mjólkurvörum. Einnig myndum við D-vítamín í húðinni út frá sólarljósi. Þar sem sólardagar á Íslandi eru almennt færri en gerist í öðrum löndum gerum við ráð fyrir því að sú myndun sé mjög takmörkuð yfir vetrarmánuðina. Einnig kemur sólvörn í veg fyrir þá myndun yfir sumartíman.

Á vef Landlæknis er fólk hvatt til að taka inn D-vítamín daglega, þá annaðhvort lýsi eða D-vítamín töflur. Að taka inn D-vítamín hefur marga kosti í för með sér s.s. að draga úr líkum á krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum, dregur úr líkum á beinbrotum og ver gegn flensu og öðrum umgangspestum. Einnig getur D-vítamín reynst þeim vel sem þjást af þunglyndi og depurð.

Þar sem D-vítamín er fituleysanlegt og skilst ekki út úr líkamanum með þvagi hafa sumir áhyggjur af því að innbyrgða of mikið af því. Raunin er sú að viðmið fyrir hámarksdagskammta af D-vítamíni eru töluvert hærri en ráðlagður dagsskammtur, eða 100 míkrógrömm (4000 AE) fyrir fullorðna og 50 míkrógrömm (2000 AE) fyrir börn á dag. Því eru litlar líkur á eitrunaráhrifum nema því sé neytt í miklu magni í lengri tíma. Það er því óhætt að ráðleggja daglega inntöku á D-vítamíni fyrir alla Íslendinga.

 

Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur