C-vítamín

Almennt um C-vítamín

C-vítamín er það nafn sem venjulega er notað um efnið askorbínsýru. Þegar keyptar eru vítamíntöflur er efnið oft í því formi sem kallað er askorbat, t.d. natríum-askorbat. Flest dýr framleiða sjálf sitt C-vítamín en maðurinn er ein fárra tegunda sem ekki er fær um það.

C-vítamín er tekið upp í þeim hluta smáþarmanna sem er næst maganum (jejunum á latínu). Gert er ráð fyrir að magn C-vítamína í líkamanum sé um það bil 1,5 grömm undir venjulegum kringumstæðum.

Þörfin fyrir C-vítamín eykst við líkamlegt álag, en ekki er alveg ljóst hvers vegna það er.

Hvernig nýtir líkaminn C-vítamín?

C-vítamín (askorbínsýra) er þýðingarmikið fyrir ónæmiskerfi líkamans, en það er m.a. vörn líkamans gegn veirum og bakteríum.

Það er einnig mikilvægur hluti af bandvefjum, beinum og öðru! C-vítamín er ásamt járni nauðsynlegt til að mynda eina af þeim 20 amínósýrum sem líkaminn notar til að byggja upp prótín. Þessi amínósýra binst prótíninu kollageni sem er sá hluti brjósks og sina sem þolir átak. Ef skortur er á kollageni verða minnstu æðarnar stökkar og sár gróa seint.

Myndun brjósks og beina verður líka slæm þar sem kollagen binst þeim. Langvarandi C-vítamínskortur veldur skyrbjúg (sjá nánari umfjöllun hér neðar).


C-vítamín kemur í veg fyrir sjúkdóminn skyrbjúg
sem fyrr á öldum hrjáði íslensku þjóðina.
 

Hormónið noradrenalín

Nýrnahetturnar nota C-vítamín til að búa til hormónið noradrenalín sem m.a. er notað sem boðefni frá taugafrumum þegar sléttu vöðvarnir í æðaveggjunum eiga að dragast saman, til dæmis ef senda á boð til háranna á handleggjunum um að þau eigi að rísa vegna kulda.

Auk þess að vera í nýrnahettunum er C-vítamín í þó nokkru magni í briskirtli, eistum, eggjastokkum og í hvítu blóðkornunum.

Ef til vill er hægt að minnka hættuna á því að fá krabbamein með því að taka inn C-vítamín í miklu magni.

Í hvaða fæðu er C-vítamín?

 

  • Sítrusávöxtum – sérstaklega kíví!
  • Berjum
  • Tómötum
  • Blómkáli
  • Kartöflum
  • Grænmeti með blaðgrænu.

Íslendingar fá C-vítamín aðallega úr kartöflum. C-vítamíni er iðulega bætt í mat sem rotvarnarefni.

Suða, ljós, reykingar og hiti brýtur C-vítamínið niður.

C-vítamín allt að því fjórfaldar upptöku járns úr grænmeti og skyldum mat. Það bætir ekki upptöku járns úr kjöt- og blóðmat.

Hvað má taka mikið af C-vítamíni?

Hérlendis fást að meðaltali 77 milligrömm á dag með því að borða venjulegan mat.

Ráðlagður dagskammtur af C-vítamíni fyrir fullorðna, þungaðar konur og konur með barn á brjósti er 60-100 milligrömm í mesta lagi en börnum nægja 40-50 milligrömm.

Almennt þola menn að fá allt að 4 grömm af C-vítamíni á sólarhring. Ef neytt er 200 milligramma af C-vítamíni, eru um það bil 4/5 hluti þeirra teknir upp. Ef neytt er meira magns minnkar hlutfall þess sem tekið er upp heilmikið. Reykingamenn þurfa næstum því helmingi stærri skammt af C-vítamíni en bindindismenn til að taka upp jafn mikið af vítamíninu í blóðið.

Hvernig lýsir C-vítamínskortur sér?

Hægt er að greina C-vítamínskort með því að mæla magn C-vítamíns í blóðinu. Röntgenmyndir af beinum barna geta einnig ljóstrað upp um C-vítamínskort hjá þeim.

Eins og fram hefur komið liðu Íslendingar fyrir C-vítamínskort á fyrri öldum sem orsakaði sjúkdóminn skyrbjúg. Fyrstu einkenni skyrbjúgs eru þreyta, kvefsækni, vöðva- og beinverkir og blæðingar í húð. Þegar fram í sækir bólgnar tannholdið og tekur að blæða úr því. Lokastig sjúkdómsins lýsir sér með öndunarerfiðleikum, þunglyndi, krampa og losti.

Skyrbjúgur – Alvarlegur C-vítamínskortur

Skyrbjúgur er í dag tíður í þróunarlöndunum, einkum í flóttamannabúðum þar sem neyðarástand ríkir og matargjafirnar innihalda ekki C-vítamín.

Hérlendis og í öðrum iðnvæddum löndum verður C-vítamínskorts aðeins vart hjá eiturlyfjaneytendum og áfengissjúklingum.

Hvernig er ráðin bót á C-vítamínskorti?

Til að vinna bug á C-vítamínskorti er 100 gramma af C-vítamíni neytt þrisvar á dag. Þegar þessi meðferð hefur staðið í um það bil tíu daga en hægt að minnka magnið niður í 100 milligrömm á dag.


10 milligrömm af C-vítamíni á dag geta komið í veg fyrir skyrbjúg.
 

Hvað ber að varast?

Sýna verður varkárni ef:

  • járninnihald l&iacu te;kamans eykst
  • tilhneiging er til nýrnasteina eða
  • ef notuð eru blóðþynnandi lyf.

Ef einhver grunur er á C-vítamínskorti er réttast að tala við lækni.

Reykingamenn þurfa um það bil 40% meira af C-vítamíni en aðrir.

Reykingar auka niðurbrot C-vítamíns í blóðinu. Enn ein góð ástæða til að drepa í!

sjá nánar um reykingar á NetDoktor.is

Hvernig lýsir of stór skammtur af C-vítamíni sér?

Of stór skammtur er fátíður vegna þess að líkaminn getur skilið út umframmagn C-vítamíns með þvaginu.

Ef dagleg C-vítamínneysla er meira en 2 grömm, getur það orsakað ógleði, niðurgang og aukið hættuna á að fá nýrnasteina. Einkenni of stórs skammts geta líka verið niðurgangur og þroti. Þar að auki hefur orðið vart blöðrubólgu af þessum sökum.

Ef neyslu C-vítamíns er hætt eftir langvarandi og mikla notkun C-vítamíns getur orðið vart einkenna C-vítamínskorts.

Mikil notkun C-vítamíns

Margir taka inn C-vítamín við kvefi, allt að 1 til 2 grömm á dag. Engar rannsóknir hafa þó sýnt fram á að C-vítamín geti fyrirbyggt kvef.


Ekki er sannað að C-vítamín gagnist við kvefi

Heilbrigðisyfirvöld hafna nýlegum kenningum um að stórir skammtar, svo sem 1-5 grömm á dag, geti hugsanlega haft áhrif á erfðaþætti mannsins.