B12-vítamín

Almennt um B12-vítamín

B12-vítamín er það nafn sem venjulega er notað um efnið cýanókóbalamín. Kóbolt er í B12-vítamíni og það er hér um bil allt og sumt sem menn vita um virkni kólbolts í líkamanum.

Vítamín eru sameindir sem samanstanda af fleiri eða færri frumeindum sem bindast hver annarri.

Kóbolt er snefilefni sem einnig verður að fá úr matnum. Þessi tvö efni mynda örnæringarefnin tvö – næringarefni sem aðeins þarf örlítið af.

B12-vítamínið er nauðsynlegt við myndun nýrra rauðra blóðkorna.

Hvernig nýtir líkaminn B12-vítamín?

B12-vítamínið hefur þýðingu fyrir fitubúskapinn og þær amínósýrur sem prótein er sett saman úr.

B12-vítamín er m.a. nauðsynlegt fyrir skiptingu frumnanna. Rauðu blóðkornin eru í hópi þeirra frumna sem skipta sér oftast og því veldur B12-vítamínskortur blóðleysi. B12-vítamín er nauðsynlegt fyrir nýmyndun tauganna.

Í hvaða mat er B12-vítamín?

Lifur, nautakjöti, svínakjöti, fiskmeti, mjólk og osti.

Vítamínið er ekki í grænmeti og jurtum, aðeins í þeim smádýrum og bakteríum sem lifa á grænmetinu.

Grænmetisætum er hætt við B12-vítamínskorti.

Vítamínið getur eyðst vegna:

 • vatns
 • sólarljóss
 • áfengis
 • östrógens
 • svefntaflna.

Aðeins um það bil 10% af B12-vítamíninu í matnum fer forgörðum við steikingu og suðu.

Hvað má taka mikið af B12-vítamíni?

Ráðlagður dagskammtur fyrir fullorðna er 2 míkrógrömm (einn milljónasti úr grammi). Meðal dagneysla er um það bil 6 míkrógrömm.

Upptaka B12-vítamíns um þarmana er treg samanborið við önnur vítamín. Ef tekið er inn meira vítamín í einu en þau 2 míkrógrömm sem eru ráðlögð, tekur líkaminn aðeins upp 1% af vítamíninu.

Ástæðan fyrir því hve þörfin er lítil fyrir B12-vítamínið er sú að líkaminn endurnýtir það. B12-vítamín sem búið er að nýta skilst út með gallinu frá lifrinni og er tekið upp aftur í þarmana og endurnýtt.

Auk þess framleiða kólíbakteríurnar sem eru í smáþörmunum B12-vítamín sem líkaminn tekur upp.

Hvað eykur hættuna á B12-vítamínskorti?

B12-vítamínskortur er sjaldgæfur meðal venjulegs fólks. Hættan á vítamínskorti eykst samt ef fyrir hendi er eitthvað af eftirfarandi:

 • of lítil myndun hjálparefnisins „intrinsic factor“ (sem leiðir til illkynja blóðleysis, (svokallaðs blóðhvarfs)
 • áfengissýki
 • elli samfara langvarandi einhæfu mataræði
 • ef mataræðið hefur verið laust við dýraafurðir (kjöt, mjólk, egg) um langa hríð
 • Bandormur (bandormur úr vatnafiski en ormurinn notar B12-vítamín í miklum mæli)
 • langvarandi sýking í briskirtlinum.

Langtímanotkun ýmissa lyfja getur einnig aukið hættuna á B12-vítamínskorti:

 • Asacol, Dipentum, Mesasal, Pentasa, Salazopyrin sem notuð eru við krónískri sýkingu í þörmum.
 • Colcicin við gigt.
 • Kólestýramín og klófíbrat sem notuð eru við auknu kólesteróli
 • Klóramphenicol, erythromycin, penisillín, súlfametoxazol við bakteríusýkingum.
 • Isóníasíð við berklum
 • Metótrexat við krabbameini.

Hvernig lýsir B12-vítamínskortur sér?

Það geta liðið mörg ár áður en B12-vítamínskortur, t.d. hjá grænmetisætum, gerir vart við sig vegna þess að lifrin kemur upp forða af B-vítamíni auk þess sem vítamínið er endurnýtt í miklum mæli.

 • Tungan er rauð og fylgja því óþægindi, tungan jafnvel sléttskafin að sjá.
 • Minnkandi bragðskyn.
 • Meltingartruflanir, vindverkir, breyttar hægðir og iðulega niðurgangur.
 • Snertiskyn breytist eða minnkar
 • Minnkandi titringsskynjun (menn skynja ekki sveiflur í tónkvísl).
 • Smám saman verður vart við örðugleika við gang og samhæfingu ásamt spastískri lömun. Einkennin geta einnig verið andlegs eðlis; minnistap, þunglyndi og vitglöp.
 • Fyrstu einkenni sumra, sem þjást af B12-vítamínskorti, snerta taugakerfið.
 • Börnum mæðra sem eru grænmetisætur, og sem ekki hafa neytt fæðubótarefna, er hætt við B12-vítamínskorti.Það getur valdið minni vexti, skapillsku og í verstu tilfellum vitsmunalegum vanþroska.
 • Langvarandi B12-vítamínskortur veldur sjúklegu blóðleysi sem lýsir sér þannig að undanfarar rauðu blóðkornanna bólgna upp.
 • Blóðhvarf eða mergruni

Hver eru einkenni blóðleysis sem stafar af B12-vítamínskorti?

Fyrstu einkennin eru magnleysi og hjartsláttur, andnauð og svimi.

Ef blóðleysið er alvarlegt geta menn fundið fyrir hjartakrampa, höfuðverk og fótaverkjum (claudicatio intermittens).

Er hægt að taka of stóran skammt af B12-vítamíni?

Of stórir skammtar eru nær óþekktir því að það er miklum erfiðleikum háð að taka upp B12-vítamín í þörmunum. Ef B12-vítamíni er hins vegar sprautað beint í æð getur það valdið ofnæmisviðbrögðum.

Hvers þurfa barnshafandi konur að gæta?

Þær sem eru grænmetisætur ættu að neyta fæðubótarefna og hafa samband við heimilislækninn sinn.