B1-vítamín

Almennt um B1-vítamín (þíamín)

B1-vítamín er það nafn sem oftast er notað yfir efnið þíamín. B1-vítamín er mikilvægur þáttur í orkuefnaskiptum. Það er vatnsuppleysanlegt og er í mörgum matvælum. Hérlendis líða fáir skort nema þeir sem eru haldnir mikilli áfengissýki.

Hvernig nýtir líkaminn B1-vítamín?

B1-vítamín er mikilvægt í ummyndun kolvetnis í þrúgusykur (glúkósa). Þegar líkaminn brennir þrúgusykri verður til orka sem er m.a. mikilvæg fyrir starfsemi hjartans, heilans og vöðvanna.

Í hvaða mat er B1-vítamín?

Það er í flestum fæðutegundum úr dýraríkinu og í mörgum úr jurtaríkinu. Vítamínið er sérstaklega í kornvörum, sumum ávöxtum (t.d. ertum og baunum) og í mögru svínakjöti. Vítamínið er viðkvæmt og getur brotnað niður við:

 • of háan steikingarhita
 • áfengi – sem er ástæðan fyrir að ofdrykkjusjúklingar þjást oft af B1-vítamínskorti
 • kaffi.

Hvað má taka mikið af B1-vítamíni?

Ráðlagður dagskammtur er 1-1,4 mg en fer eftir kyni og aldri. Konur á meðgöngu 1,5 mg og konur með barn á brjósti 1,6 mg á dag.

Hvernig lýsir B1-vítamínskortur sér?

Lítilsháttar skortur leiðir til:

 • minnkandi matarlystar
 • einbeitingarskorts
 • þreytu og geðvonsku

Þetta lýsir sér í þyngdartapi, hægðatregðu, minnkandi vöðvaafli, ásamt náladoða í fingrum og tám.

Hvað gerist ef ekki er brugðist við B1-vítamínskorti?

Ef skorturinn er viðvarandi getur hann leitt til beriberi-sjúkdómsins. Beriberi, sem er þekktur hörgulsjúkdómur, sérstaklega útbreiddur í Asíu. Orsök beriberi er langvarandi skortur á vítamíninu og hann er sérstaklega útbreiddur meðal manna sem lifa af hýðislausum hrísgrjónum og vinna erfiðisvinnu. Sjúkdómurinn er til í tveimur myndum:

 • önnur myndin kallast þurra gerðin (svipuð og hrjáir alkóhólista hér á landi) þar sem einkennin eru taugasýking, vöðvarýrnun og skrykkjóttur fótaburður.
 • vota gerðin veikir hjartað, sem þýðir að vatn safnast saman í líkamanum

Sjúkdómurinn getur þróast upp í það sem kallað er heilabólga Wernicks og kemur fram sem máltruflun, tvöföld sjón og skrykkjóttur fótaburður. Sjúkdómurinn getur leitt til dauða.
Annar sjúkdómur er Korsakoff-geðveikin sem leiðir til varanlegs minnistaps.

Hvers vegna skortir langdrykkjumenn B1-vítamín?

Langvarandi misnotkun áfengis veldur iðulega skorti á B-1 vítamíni. Ástæðurnar fyrir því eru margar:

 • minni neysla vegna lélegs mataræðis
 • minni neysla vegna skemmda á þörmum
 • slæm nýting vegna lifrarskemmda.

Áfengi er auk þess þvagræsandi og þar sem vítamínið er vatnsuppleysanlegt, tapast nokkuð af því með þvaglátum.

Hvernig lýsir of mikið B1-vítamín sér?

Það má taka inn stóra skammta af B1-vítamíni án þess að nokkurra einkenna verði vart.

Ef B1-vítamín er gefið með sprautu nokkrum sinnum, getur það orsakað ofnæmisviðbrögð. Það er ekki hægt að fá eitrun af B1-vítamíni því það er uppleysanlegt í vatni og skilst úr með þvaginu.