Aukum hreyfingu í daglegu lífi

Þessa dagana fer í gang verkefni á vegum ÍSÍ sem heitir göngum í skólann. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér svokallaðann virkan ferðamáta í og úr skóla og auka um leið færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni þar sem milljónir barna frá yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn hafa tekið þátt.

Virkur ferðamáti kallast það að nota hreyfingu eigin líkama til þess að koma sér á milli staða. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta eða hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðu Göngum í skólann http://www.gongumiskolann.is/

Þetta er klárlega eitthvað sem við öll getum tekið upp því það eru ekki bara börn sem hafa gott af því að auka við hreyfinguna heldur ekki síður við fullorðna fólkið og að nota tímann í og úr vinnu eða öðrum erindum getur verið góð leið til þess. Um leið sýnum við komandi kynslóð gott fordæmi og aukum líkur á að festa góðar venjur í sessi.

Höfundur greinar