Aukið líkamlegt þrek – betri heilsa!

Umfangsmiklar rannsóknir bæði vestan hafs og austan hafa sýnt að þeir sem eru með lélegt líkamlegt þrek eru miklu líklegri til að deyja ótímabært heldur en hinir sem eru í betra formi. Íslenskar rannsóknir hafa einnig stutt þessar niðurstöður. Í Bandaríkjunum komust vísindamenn að því að þau 20% sem eru með lægstu þrektöluna – minni en 25 í þrektölu – eru tvisvar sinnum líklegri (2,03 sinnum fyrir karla og 2,23 sinnum fyrir konur) til að deyja fyrir aldur fram en hinir miðað við átta ára tímabil (sjá t.d. Blair og félaga 1996 í JAMA 276:205-210).

Í sömu rannsókn kom í ljós að reykingafólk var líka tvisvar sinnum líklegra (karlar 1,89 sinnum og konur 2,12 sinnum) til að deyja fyrir aldur fram en þeir sem ekki reyktu. Þessar tölur reyndust að mestu óháðar aldri og öðrum áhættuþáttum fyrir sjúkdómum sem athugaðir voru. Þeir sem ekki hreyfa sig reglulega eiga mikla hættu á því að verða með þrektölu lægri en 25 með tímanum. Það má því segja að hreyfingarleysi sé jafn óholt og reykingar en fæstir efast lengur um óhollustu reykinga.

En hvað þarf mikla hreyfingu til að lenda ekki í þessum áðurnefnda áhættuhópi? Vísindamenn hafa komist að því að hreyfing eins og rösk ganga eða sund, í 30 mínútur á dag, 5 eða fleiri daga vikunnar, ætti að tryggja það. Jafnvel þó þessar 30 mínútur séu ekki samfelldar heldur dreifist eitthvað yfir daginn eru líkurnar talsvert miklar á að það dugi. Það þarf ekki meira til. Rannsóknir hafa líka sýnt að með reglulegri hreyfingu má minnka líkur á margvíslegum kvillum og sjúkdómum og auka vellíðan. Þannig má draga úr lyfjanotkun, sjúkrahúslegu, læknisþjónustu og spara einstaklingum og þjóðfélaginu stórfé.

Þótt ofangreind heilsubætandi áhrif hreyfingar séu umtalsverð þá gefur enn meiri hreyfing enn betri áhrif. Hins vegar má segja að því meira sem menn hreyfa sig því minni verður hlutfallsleg bæting heilsunnar og það kemur að því að enginn hagur er að aukinni hreyfingu. Þessu er lýst á meðfylgjandi mynd (Mynd 1). Erfitt er að segja nákvæmlega hvar mörkin eru. Hinsvegar, þegar hreyfingin er orðin mjög áköf áreynsla í meira en klukkutíma á dag alla daga vikunnar og viðkomandi er farinn að verða var við álagsmeiðsli og vaknar þreyttur og aumur á hverjum morgun, þá er ástæða til að staldra við. Það má sem sagt öllu ofgera.

Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Þessi pistil birtist í Morgunblaðinu sem lesendabréf sumarið 2001 og í DV í September 2001; í bæði skiptin vantaði þó grafið!