Zyban – Nýtt reykingalyf


Nýtt lyf sem hjálpar fólki að hætta að reykja

Nýverið kom á markað á Íslandi nýtt lyf sem heitir Zyban. Lyfið inniheldur efnið bupropion. Þetta er í raun gamalt lyf sem hefur verið notað við þunglyndi til margra ára. Nú er farið að nota efnið til að hjálpa fólki til að hætta að reykja. Mælt er með því að meðferð sé hafin á meðan reykingamaðurinn reykir enn og best er ef viðkomandi hættir að reykja innan tveggja vikna frá upphafi meðferðar. Mjög gott væri t.d. að hann setti sér markmið að hætta alveg reykingum á 10. degi meðferðar.

Fyrstu 3 dagana er tekin ein tafla á dag en eftir það eru teknar tvær töflur á dag með að minnsta kosti átta klukkustunda millibili. Meðferð varir í 7-9 vikur.

Ólíkt öðrum lyfjum sem hjálpa fólki að hætta reykingum inniheldur Zyban ekki nikótín. Boðefni í heilanum sem heitir dópamín hefur mikið að segja varðandi fíkn. Við reykingar veldur nikótín því að það losnar mikið magn dópamíns og verður heilinn mjög fljótt háður þessu aukna dópamíni. Þegar reynt er að hætta reykingum verður reykingafíknin mjög sterk og fráhvarfseinkenni áberandi. Talið er að lyfið líki eftir nikótíni að því leyti að það eykur myndun dópamíns í heila og losnar því áfram mikið magn dópamíns þó að viðkomandi sé hættur að reykja og verður því löngun í vindlinga minni.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur