Zoloft (sertralín) vegna ofsakvíða

Upplýsingar fyrir þá sem taka Zoloft (sertralín) vegna ofsakvíða.

Læknirinn þinn hefur ávísað þér Zoloft til meðhöndlunar á ofsakvíða. Það er mikilvægt að þú þekkir lyfið þitt vel. Eftirfarandi atriði geta hjálpað þér að þekkja Zoloft betur.

Hversu oft á ég að taka Zoloft?
Zoloft á að taka einu sinni á dag með morgunmat eða fyrir svefn. Henti annar tími betur getur þú rætt það við lækninn þinn, en hafðu í huga að auðveldast er að muna eftir að taka lyf þegar þau eru tekin á sama tíma dagsins.

Hvað líður langur tími þar til mér fer að líða betur?
Við meðhöndlun á ofsakvíða líða yfirleitt a.m.k. tvær vikur þar til þér fer að líða betur. Þér getur jafnvel liðið verr og fundið fyrir auknum kvíða fyrstu 7-14 dagana eftir að þú ferð að taka lyfið. Eftir þetta tímabil fara einkenni ofsakvíða venjulega að minnka. Þetta upphafstímabil með auknum kvíða er hægt að lina með annarri sanhliða lyfjameðferð í upphafi. Við notkun Zoloft verða kvíðaköstin með tímanum strjálli og vægari þar til þau að lokum hverfa. Það geta liðið 2-4 mánuðir þar til kvíðaköstin hverfa.

Hvernig finnur þú að Zoloft hjálpar þér?
Kvíðaköstin hverfa smám saman. Það sem hverfur síðast er það sem kallað er væg kvíðaköst eða vísbendingar um kvíðakast.  Hræðslan við að kvíðaköstin muni koma minnkar síðan. Öryggistilfinningin um að þú sért heilbrigð/ur líkamlega og andlega kemur aftur. Vandamál tengd ofsakvíða leita ekki eins á huga þinn og áður. Sú hræðsla sem kvíðaköstin geta hafa valdið varðandi það að þú værir kannski með alvarlegan líkamlegan sjúkdóm eða að eitthvað alvarlegt kæmi fyrir þig eins og t.d. þú myndir deyja, missa stjórn á þér, fá svimaköst, fa hjartaáfall, myndir kafna o.þ.h. minnkar með tímanum. Mikilvægt er að þú fáir upplýsingar hjá lækninum þínum eða sálfræðingi, annaðhvort munnlega eða jafnvel í bæklingi, svo þú skiljir hvað átti sér stað þegar þú fékkst kvíðaköst og hvaða kvíðatengdu hugsanir spruttu síðan út frá þeim. Til viðbótar lyfjameðferðinni er síðan eftir þörfum hægt að fara í sálræna meðhöndlun eins og hugræna samtals- og atferlismeðferð.

Eru aukaverkanir af Zoloft?
Eins og öll lyf getur Zoloft valdið aukaverkunum. Þær eru yfirleitt vægar og þeirra verður vart í upphafi meðferðar. Flestir finna ekki fyrir óþæginlegum aukaverkunum, en algengustu aukaverkanirnar eru ógleði, magaóþægindi, niðugangur og höfuðverkur.  Einnig getur orðið svitamyndun, kynlífstruflanir og svefnörðugleikar geta átt sér stað. Flestir þola Zoloft mjög vel og ljúka meðferð.

Hversu lengi þarf ég að taka Zoloft?
Meðferðarlengdin er mismunandi en mikilvægt er að taka lyfið eins lengi og læknirinn mælir með. Meðferðin stendur yfirleitt í eitt ár eða lengur, þar sem það minnkar líkurnar á að veikjast aftur. Hættu aldrei að taka lyfið án samráðs við lækninn þinn.

Hvað gerist ef ég gleymi að taka lyfið?
Þumalfingursreglan er ,,Gleymdur skammtur – gleymdu honum!”.  Þú átt ekki að taka aukatöflu þó þú gleymir einum skammti.

 

Get ég tekið Zoloft með öðrum lyfjum?
Já í langflestum tilvikum, en þú skalt ávallt ráðfæra þig við lækninn þinn fyrst.

 

Zoloft er ekki ávanabindandi lyf.