Yfirlið

Yfirlið er sjaldnast alvarlegt og oftast kemst fólk fljótt til meðvitundar. Yfirlið getur þó verið merki um hjartaáfall þótt því fylgi ekki verkir fyrir brjósti.

Yfirlið tengist oftast skertu blóðstreymi til heilans. Ástæður þess geta til dæmis verið hægur hjartsláttur (flökkutaug sem hægir á hjartslættinum örvast um of vegna ótta, kvíða, lyfja eða þreytu), hjartsláttartruflun, ofþornun, blæðing eða örmögnun vegna hita. Blóðsykursskortur getur einnig valdið yfirliði.

Löng kyrrseta eða staða, sérstaklega í hita, getur valdið því að blóð safnast fyrir í útvíkkuðum æðum og blóðþrýstingurinn hrapar. Þá dregur úr blóðstreymi til heilans með þeim afleiðingum að viðkomandi missir meðvitund.

Hvað sérðu?
Yfirvofandi yfirliði fylgir venjulega eitt eða fleiri eftirtalinna einkenna:
• Svimi
• Máttleysi
• Dílar fyrir augunum
• Óskýr sjón
• Ógleði
• Fölvi
• Sviti

Hvað gerirðu ef það er um það bil að líða yfir einhvern?
• Reynir að hindra að einstaklingurinn detti.
• Hjálpar honum að leggjast.
• Losar um þröngan fatnað og belti.
• Færir viðkomandi í skugga eða kaldara umhverfi ef það er mikill hiti.

Hvað gerirðu hafi þegar liðið yfir viðkomandi?
• Leggðu hann niður.
• Losaðu um þröngan fatnað og belti.
• Kannaðu meiðsl ef viðkomandi hefur dottið.
• Ef einstaklingurinn kemst til meðvitundar og er ómeiddur skal láta hann sitja um stund og drekka eitthvað kalt með sykri í ef hann getur kyngt.
• Ferskt loft og kaldur, blautur klútur á andlitið getur flýtt því að fólk jafni sig eftir yfirlið.

Varúð: Ekki
• Skvetta eða hella vatni á andlit fólks í yfirliði.
• Slá fólk utan undir til að reyna að koma því til meðvitundar.
• Gefa því neitt að drekka fyrr en það hefur jafnað sig nægilega og getur kyngt.

Leitið læknis ef viðkomandi:
• Er yfir 35 ára aldri.
• Hefur ítrekað misst meðvitund.
• Vaknar ekki innan fárra mínútna.
• Missir meðvitund sitjandi eða liggjandi.
• Fellur í yfirlið af engri sýnilegri ástæðu.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.
Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands