Vottar Jehóva

Þessi síða er hluti af ritinu Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Vottar Jehóva

Jehovah’s Witnesses

Trúfélag Votta Jehóva má finna í meira en 200 löndum og voru meðlimir yfir 6 milljónir árið 2000. Upphaf hreyfingarinnar má rekja til Bandaríkjanna á seinni hluta 19. aldar.

Hingað til lands barst hún árið 1929 og telur samfélag þeirra í dag um sex hundruð manns.

Helgisiðir

Í trúarsamfélagi Votta Jehóva fer fram fullorðinsskírn en ekki skírn barna. Skemmriskírn tíðkast ekki. Algengt er að Vottar Jehóva lesi Biblíuna eða önnur trúarrit.

Lífshættir

Fæðuvenjur
Engar sérstakar fæðuvenjur gilda í samfélagi Votta Jehóva aðrar en að þeir neyta ekki afurða sem unnar eru úr blóði eða sem blóði hefur verið bætt í.

Föstur
Engar sérstakar föstuvenjur gilda í samfélagi Votta Jehóva.

Hreinlæti
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við Votta Jehóva sem lýtur að hreinlæti.

Hreyfing
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við Votta Jehóva sem lýtur að hreyfingu.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Vottar Jehóva nota áfengi í hófi.

Reykingar
Vottar Jehóva reykja ekki.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Fjölskyldubönd eru jafnan sterk. Samræður fjölskyldu og vina við sjúkrabeð fela oft í sér trúarlega umræðu.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Vottar Jehóva þiggja þjónustu heilbrigðiskerfisins. Þeir notfæra sér mæðra- og ungbarnaeftirlit og langflestir þiggja bólusetningar. Af trúarlegum ástæðum eru Vottar Jehóva á móti læknismeðferð sem kallar á blóð- eða blóðhlutagjafir. Þeir líta á blóðið sem tákn lífsins og að það stríði gegn vilja Guðs að þiggja blóð úr annarri manneskju og vísa í því sambandi til texta, bæði í Gamla og Nýja Testamentinu. Á þetta jafnt við um neyðartilfelli sem stoðmeðferð. Allir Vottar Jehóva ganga með kort sem segir að þeir hafni blóð- og blóðhlutagjöf. Kortið er undirritað, vottað, dagsett og yfirleitt ekki eldra en ársgamalt þannig að ljóst er að það túlki núverandi afstöðu handhafa. Þar er einnig kveðið á um að spítali og heilbrigðisstarfsmenn séu leystir undan ábyrgð á því tjóni sem sú afstaða sjúklings, að heimila ekki blóðgjöf, kann að hafa í för með sér.

Ef læknismeðferð er fólgin í uppskurði sem kallar á blóðgjöf að áliti læknis er ekki óalgengt að sjúklingurinn leiti álits annars læknis áður en ákvörðun er endanlega tekin. Ef uppskurður verður ekki umflúinn kann sjúklingurinn að velja þann lækni sem tilbúinn er að framkvæma aðgerðina án þess að grípa til blóðgjafar eða að öðrum kosti hafna uppskurði. Söfnuðurinn hefur birt lista með ábendingum um læknismeðferð án blóðgjafar. Spítalasamskiptanefnd safnaðarins veitir frekari upplýsingar ef með þarf.

Ekki er andstaða við notkun blóðskilunarvéla (dialysu) og hjarta- og lungnavéla. Þá er ekki haft á móti blóð- og röntgenrannsóknum né heldur meðferð eins og geislameðferð.
Orsakir sjúkdóma
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við Votta Jehóva sem lýtur að viðhorfi til orsaka sjúkdóma.

Getnaðarvarnir
Notkun getnaðarvarna ákvarðast af einstaklingnum sjálfum.

Fóstureyðingar
Fóstureyðingar eru ekki leyfðar.

Meðganga
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við Votta Jehóva sem lýtur að meðgöngu.

Líffæraflutningar
Líffæraflutningur er háður samþykki sjúklingsins og/eða aðstandenda.

Verkjameðferð
Afstaða til verkjalyfja er einstaklingsbundin en almennt hafa safnaðarmenn ekkert á móti þeim.

Blóðgjafir
Af trúarlegum ástæðum eru Vottar Jehóva á móti læknismeðferð sem kallar á blóð eða blóðhlutagjafir. Þá er það einstaklingsbundið hvort menn þiggja ónæmisglóbúlín og gildir það einnig almennt um alla aðra blóðþætti, svo sem storkuþætti og einnig albúmín. Upplýsa þarf sjúklinginn um hvort lyf sem honum eru ætluð innihalda einhverja þætti sem unnir eru úr blóði manna eða dýra. Þeir hafna ekki öðrum hjálparmeðulum við blóðmissi ef þeim verður viðkomið svo fremi að þau innihaldi ekki blóð eða blóðhluta. Söfnuðurinn hefur birt lista með ábendingum um læknismeðferð án blóðgjafa. Spítasamskiptanefnd safnaðarins veitir frekari upplýsingar ef með þarf.

Krufningar
Krufning í rannsóknarskyni eða til að staðfesta dánarorsök er háð samþykki aðstandenda.

Snerting

Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eð a viðræðum við Votta Jehóva sem lýtur að snertingu.

Samskipti

Góðar upplýsingar til fjölskyldunnar um ástand og horfur sjúklingsins eru vel þegnar.

Vottar Jehóvar leggja áherslu á góða hlustun, heiðarlega og opna umræða um álitamál tengd blóðgjöf, eins og önnur viðkvæm mál sem upp kunna að koma í meðferð og umönnun.

Trúarsamfélagið vill gjarnan veita einstæðingum innan samfélagsins alla þá aðstoð sem þeir geta og óska því eftir að haft verði samband við samfélagið beri svo undir og óski sjúklingur þess.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Umönnun sjúkra og deyjandi sjúklinga og aðstandenda þeirra er ekki frábrugðin því sem almennt gildir við slíkar aðstæður inn á sjúkradeildum eða í heimahúsum.

Vottar Jehóva líta ekki á dauðann sem endalok alls, heldur byggir trú þeirra á von um eilíft líf. Því mæta þeir dauðanum í trú og trausti á uppristu líkamans í jarðneskri paradís.

Venjulega er ekki óskað eftir nærveru sjúkrahússprests eða annars prests heldur sjá umsjónarmenn safnaðarins og aðrir safnaðarmenn um sálusorgun.

Umhverfi

Vottar Jehóva leggja áherslu á friðsælt umhverfi og að aðstandendur geti verið nærri sjúklingum.

Það er einstaklingsbundið hvort safnaðarmenn vilja blóm við dánarbeð eða ekki. Fæstir vilja að kveikt sé á kerti. Vottar Jehóva nota ekki trúartákn svo ekki er óskað eftir neinum slíkum við dánarbeð.

Útför og greftrun

Útför er að jafnaði gerð frá samkomuhúsum Votta Jehóva. Þó kunna sumir safnaðarmenn að kjósa að nota útfararkapellur. Vottar Jehóva nota þjónustu útfararstofa.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda