Vitundarvakning um vélindabakflæði, brjóstsviða – nábít

Þekkingarskortur almennings á vélindabakflæði er algengur. Einkenni sjúkdómsins eru ekki öllum ljós og fólk veit hvorki af hverju þau stafa né hvað hægt er að gera við þeim. Margir hafa af þessum sökum sætt sig við skert lífsgæði og þjóðfélagið verður fyrir tapi vegna skertrar starfsorku.

Hvað er vélinda?

Vélinda er „slanga“ um 25-27 sm að lengd, sem flytur fæðuna úr munni og niður í maga. Maginn meltir fæðuna með því að bæta í hana saltsýru og meltingarhvötum. Innihald magans er því eldsúrt og ertandi. Þar sem vélindað opnast inn í magann er lokuvöðvi (hringvöðvi), sem hindrar að innihald magans fari til baka og upp í vélindað. Ef vélindað er heilbrigt fer fæðan greiðlega þesa leið og gúlpast ekki til baka.

Hvað er bakflæði í vélinda?

Þegar lokuvöðvinn í vélindanu starfa ekki eðlilega – hefur t.d. slaknað – komast magasýrur upp í vélindað. Þegar magasýrurnar flæða ítrekað þessa leið, þannig að það hefur áhrif á líf og líðan einstaklingsins, leiðir það til sjúkdóms sem nefndur er vélindabakflæði.

Hver eru einkenni vélindabakflæðis?

Bakflæði í vélinda lýsir sér með ýmsum hætti.

Fjögur helstu einkenni þess eru:

 • brjóstsviði: bruna- eða sviðaóþægindi undir bringubeini
 • nábítur: súrt óbragð í munni af magainnihaldi sem leitar upp í kok
 • kyngingarerfiðleikar: erfiðleikar og/eða sársauki við að kyngja
 • brjóstverkur: verkurinn getur verið svo sár að hann minnir á hjartaverk.

Ofangreind einkenni gefa oftast tilefni til að leita læknis til að fá leiðbeiningar um viðbrögð. Af þessum einkennum er brjóstsviði skýrasta einkennið sem bendir til bakflæðis. Aftast í þessarri grein er spurningalisti sem hjálpar þér að meta hvort og hvenær þú ættir að leita til lænis.

Hjá sumum sjúklingum með bakflæði koma fram eftirfarandi einkenni:

 • astmi
 • hósti
 • barkabólga
 • öndunarerfiðleikar
 • bólga í raddböndum og hæsi.

Í þessum tilvikum er oft um samspil tveggja eða fleiri þátta að ræða og vítahringur getur myndast: astmi og hósti geta framkallað bakflæði sem aftur gerir astmann og hóstann verri. Bakflæði getur aftur framkallað astma eða valdið því að hann svarar illa meðferð. Langvarandi hósti skaðar raddbönd og veldur hæsi.

Geta allir fengið bakflæði?

Já, bakflæði fer ekki í manngreinarálit. Allir geta fengið bakflæði, óháð kyni, aldri, þyngd, starfi og lífstíl – jafnvel kornabörn. Engu að síður virðist tilvikum fara nokkuð fjölgandi eftir fertugt og feitu fólki er hættara við að fá einkenni bakflæðis en öðrum. Í vissum tilvikum getur bakflæði verið tímabundið ástand, sem tengist sérstökum aðstæðum s.s. þugun. Þá hættir bakflæði oftast af sjálfu sér eftir meðgöngu.

Hvaða áhrif hefur vélindabakflæði á líf einstaklingsins?

Bakflæði getur skert lífsgæði fólks og starfsorku. Skert lífsgæði koma fram í líkamlegri vanlíðan; brjóstsviða, nábít og oft er t.d. ekki hægt að njóta matar, drekka vín eða kaffi.

Erlend rannsókn sýnir að fjarvistir frá vinnu vegna sjúkdómsins eru að meðaltali 2.4 tímar á viku hjá sjúklingum með vægan til alvarlegan brjóstsviða. Minnkuð framleiðni í starfi er um 20-27% á hvern ómeðhöndlaðan einstakling.

Langvarandi vélindabakflæði

Langvarandi bakflæði í vélinda getur leitt til þess að slímhúðin í vélindanu skemmist. Þessi skemmd lýsir sér sem bólgur í slímhúð. Í sumum tilvikum getur myndast sár og einnig þrengsli í vélinda vegna örvefsmyndunar.

Langvarandi bakflæði getur valdið ástandi sem kallast Barretts breytingar. Þá myndast ný slímhúð í vélindanu, sem er líkari þeirri sem er í maga eða þörmum. Það er álitið að þessi breyting geti verið tilraun líkamans til að verja sig fyrir frekari skaða af magasýrunum. Langvarandi bólga getur leitt til frumubreytinga sem í sumum tilvikum eru undanfari illkynja breytinga (krabbameins).

Hvernig er bakflæði meðhöndlað?

Það fer erftir því á hvaða stigi bakflæðið er. Við vægu bakflæði dugar oft að breyta lífstíl og eru nokkur hollráð um það hér neðar. Þess ber að geta að slík ráð eiga ekki síður við á öðrum stigum sjúkdómsins.

Næsta stig er að nota sýrubindandi lyf sem hægt er að fá án lyfseðils. Bakflæði á hærri stigum er hins vegar yfirleitt ævilangur sjúkdómur og þá eru tveir kostir varðandi meðferð: 1. Að gefa lyfseðilskyld sýrubindandi lyf. 2. Ef þessi lyfjameðferð dugar ekki til að halda einkennum í skefjum, eða ef sjúklingur vill ekki langtímameðferð með lyfjum, er hægt að beita skurðaðgerð sem styrkir lokuvöðvann.

Nokkur hollráð

Þeir sem þjást af vélindabakflæði geta sjálfir gert ýmislegt til að bæta ástandið:

Forðast mjög stórar máltíðir

Matur getur almennt magnað vélindabakflæði vegna þess að maturinn fyllir magann og veldur því að lokuvöðvinn í neðri hluta vélindans slaknar tímabundið. Auk þess örva allar máltíðir sýruframleiðslu magans til þess að hjálpa til við meltinguna og geta aukið bakflæðið í vélinda hjá þeim sem þjást af sjúkdómnum. Búast má við því að allar stórar máltíðir geti valdið brjóstsviða hjá sumu fólki.

Forðast vissar fæðutegundir og fæðuvenjur

Vissar fæðutegundir geta hrundið einkennum af stað hjá sumum sjúklingum. Einnig getur einkenna orðið vart, t.d. við að leggja sig eftir mat. Fólki með vélindabakflæði er gjarnan ráðlagt að neyta ekki matar 2-3 klst. Fyrir svefn.

Feitur og mikið kryddaður matur veldur oft auknum einkennum. Að auki geta t.d. kaffi, áfengi, súkkulaði, piparmynta og nikótín veikt hringvöðvann og aukið þannig líkurnar á bakflæði, en áhrifin eru einstaklingsbundin.

 

Eru matarkúrar nauðsynlegir?

Oft er fólki sagt að forðast vissa fæðu, hvort sem hún hefur í raun einhver áhrif á einkennin eða ekki. Þess ber líka að gæta að einkenni af völdum neyslu tiltekinnar fæðutegundar geta verið einstaklingsbundin.

Hér er ekki verið að mæla almennt með því að beita ströngum matarkúrum gegn einkennum bakflæðis, en hitt er þó víst að offita er stundum meðvirkandi þáttur í bakflæði.

Ýmsar venjur og athafnir

Ef fólk klæðist þröngum fötum er því hættara við að fá einkenni bakflæðis og hið sama á við ef fólk bograr. Æskilegt er að hækka höfðalag rúms frá miðju baki (t.d. með fleygdýnu) um 10-12 sm, en ekki bara bæta við kodda, vegna þess að það hækkar einungis höfuðið og getur gert illt verra. Ef viðkomandi einstaklingur tekur lyf við öðrum sjúkdómum en bakflæði, er mikilvægt að ræða það við lækni, vegna þess að sum lyf geta aukið einkenni bakflæðis.

Gott að halda dagbók!

Góð leið til að greina þessa áhrifaþætti er að halda dagbók um sjúkdómseinkenni bakflæðisins og skrá niður hvenær þeirra verður vart. Ef einkennin fylgja einhverju mynstri og þeirra verður vart eftir einhvern sérstakan mat eða athafnir, ætti að forðast þann áhrifaþátt. Dagbók auðveldar viðkomandi einstaklingi líka að halda áfram að njóta þess matar og þeirra athafna sem virðast ekki valda sjúkdómseinkennum, þannig að ekki verði þrengt meira að lífstíl en nauðsyn krefur.

Hvert getur þú leitað ef þú telur þig hafa einkenni bakflæðis?

Ef þú færð oft brjóstsviða eða önnur einkenni sjúkdómsins og hefur grun um að þú hafir bakflæði í vélinda, ættir þú að leita til lækns þíns og ræða málin. Miklu skiptir að læknir taki af öll tvímæli um það hvort bakflæði er að valda þér óþægindum eða hvort orsökin er önnur. Aftast í þessari grein er spurningalisti til að hjálpa þér að meta hvenær þá átt að leita læknis.

Skilgreining á nokkrum hugtökum

Hvað er vélindabakflæði?

Magasýrur flæða ítrekað upp í vélindað, þannig að það hefur áhrif á líf og líðan einstaklingsins.

Hvað er brjóstsviði?

Bruna- eða sviðaóþægindi undir bringubeini.

Hvað er nábítur?

Súrt óbragð í munni eða koki.

Hvað er þindarslit?

Vítt op á þindinni sem veldur því að hluti magans gúlpast upp um opið og inn í brjóstholið. Þindarslit eitt og sér þarf ekki að tengjast vélindabakflæði, en það er mjög oft meðvirkandi þáttur.

Hvað er magaspeglun?

Skoðun á vélinda, maga og skeifugörn með holsjá sem þrædd er niður um munn. Fyrir rannsóknina er gefin kokdeyfing og oft lyfjaforgjöf (kæruleysissprauta).

Ert þú með vélindabakflæði?

Sjálfskönnun til mats á því.

Finnur þú til eftirtalinna einkenna:

 1. Bruna- eða sviðatilfinningu undir bringubeini tvisvar eða oftar í viku?
 2. Súrt óbragð í munni eða koki, sérstaklega eftir máltíðir?
 3. Virka sýrubindandi lyf aðeins skamman tíma á þessi einkenni?
 4. Ert þú að taka lyfseðilsskyld lyf til að meðhöndla þessi einkenni sem virka ekki að fullu?

Ef þú hefur svarað spurningu eitt og jafnvel fleiri af þessum spurningum játandi, er líklegt að þú hafir vélindabakflæðissjúkdóm. Til að vera viss er ráðlagt að þú leitir ráða hjá lækni.

Hafa ber í huga að vélindabakflæði getur haft ýmis önnur einkenni, eins og nefnt hefur verið, en þetta sjálfsmat tekur mið af algengustu einkennum sjúkdómsins.

Birt með góðfúslegu leyfi Félags sérfræðinga í meltingarsjúkdómum.

Textinn birtist í bæklingi sem heitir: Hvað þarft þú að vita? Vitundarvakning um vélindabakflæði, brjóstsviða – nábít. Hann var úgefinn af Félagi sérfræðinga í meltingarsjúkdómum í samstarfi við Félag íslenskra heimilislækna, Skurðlæknafélag Íslands og Innsýn (Félag speglunarhjúkrunarfræðinga).