Vitundarvakning um ristilkrabbamein

Síðastliðinn fimmtudag, þann 24.október var haldinn blaðamannafundur, sem markaði tímamót og upphaf að fræðsluátaki sem er liður í baráttunni gegn ristilkrabbameini. Heiti átaksins er Vitundarvakning um ristilkrabbamein. Vitundarvakning er átaksverkefni sem miðar að því að rækja forvarnir á Íslandi gegn sjúkdómum í meltingarvegi. Markvisss og skipuleg fræðsla er mikilvæg í nútíma læknisfræði og fræðslan þarf að fara fram í þjóðfélaginu almennt, en ekki einungis í einkaviðtölum á læknastofum.

Við þurfum að auka þekkingu almennings og heilbrigðissétta, hvetja til meiri árvekni varðandi þennan sjúkdóm m.a. um hvað hægt er að gera til að minnka líkur á að fá þetta krabbamein og hvernig hægt er að greina það á fyrstu stigum. Um þetta snýst baráttan nú víða um heim. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur í samvinnu við ýmiss fagfélög tengd meltingarsjúkdómum (OMGE, OMED, UEGF, ESGE og ASGE) og krabbameinum (UICC) beitt sér á þessum vettvangi um fvorvarnir og skimun fyrir ristilkrabbameini. Við viljum vera þátttakendur í því.

Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið á Íslandi og önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina. Hér er um lífshættulegan sjúkdóm að ræða, sem er þó oftast læknanlegur ef hann greinist nógu snemma. Þar skipta þekking fólks og árvekni sköpum.

Með því að auka fræðslu almennings um þennan sjúkdóm og beita greiningaraðferðum snemma, er von til að fækka verulega ristilkrabbameinum og bæta horfur þeirra sem fá þennan sjúkdóm. Nýleg viðhorfskönnun hér á landi sýnir að verulega skortir á þekkingu fólks á þessu krabbameini. Einungis helmingur svarenda þekkti orsök sjúkdómsins, fjórðungur fyrstu einkenni og nýgengi og tíundi hluti svarenda vissi hver mesti áhættualdur þessa krabbameins er. Um 83% töldu að þeir hefðu enga fræðslu fengið um sjúkdóminn, tæplega 90% töldu fræðslu nauðsynlega og voru hlynntir skipulagðri leit að þessu krabbameini. Það er mjög alvarlegt til þess að vita að aðeins helmingur þeirra á aldrinum 45-75 ára, sem höfðu tekið eftir blóði í hægðum, hafði farið í ristilrannsókn. Eftir fimmtugt fer nýgengi sjúkdómsins stig vaxandi og blóð í hægðum getur bent til æxlis (góðkynja eða illkynja) í ristli.

Af þessu má ráða að það er vissulega þörf hér á Íslandi fyrir frekari fræðslu um þennan alvarlega sjúkdóm.

Á hverju ári greinast um 3 milljónir nýrra tilvika krabbameins í meltingarvegi í heiminum og 2,2 milljónir manna deyja af völdum þessara krabbameina á ári hverju. Í Vatíkaninu þann 23. mars síðastliðinn staðfesti Páll páfi II stuðning sinn við alþjóða baráttu gegn krabbameini í meltingarvegi, sem undirbúin er af heimssamtökum meltingarlækna (OMGE og OMED) og Evrópusamtökum meltingarlækna (UEGF). Þar var því lýst yfir að fyrsta takmarkið væri að árið 2010 yrði fækkað um helming þeim 500.000 einstaklingum sem deyja árlega um heim allan vegna krabbameins í ristli og endaþarmi. Það á að bjóða öllum, körlum og konum, 50 ára og eldri, skimun eða kembileit fyrir ristilkrabbameini og forstigum þess, sem nefnist kirtilæxli eða ristilsepi. Baráttan mun því í fyrstu beinast gegn krabbameini í ristli og endaþarmi, en þess má geta að páfinn sjálfur, sem er verndari átaksins, greindist með sjúkdóminn á byrjunarstigi fyrir mörgum árum.

Hér á landi hefur nokkur árangur náðst. Síðastliðið vor samþykkti Alþingi Íslendinga eftirfarandi þingsályktunartillögu: „Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem teljast vera í áhættuhópi og undirbúa framkvæmd starfsins. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að því að beita sömu aðferðum, eftir því sem fært er, í baráttunni við aðrar algengustu tegundir krabbameina hér á landi.“

Nú í haust gaf Landlæknisembættið út leiðbeiningar varðandi einstaklingsbundna skimun og eftirlit með þeim sem greinst hafa með þetta krabbamein. Leiðbeiningarnar eru mjög líkar þeim sem gefnar hafa verið út í mörgum þjóðlöndum.

Hér á landi miðar Vitundarvakning um ristilkrabbamein að því að koma á framfæri fræðsluefni fyrir almenning og heilbrigðisstarfsfólk.  Þar má nefna fræðslubækling, fræðsluþátt í sjónvarpi, auglýsingar, fræðsluspjöld, fyrirlestra og blaðagreinar er varða forvarnir, greiningu og meðferð ristilkrabbameins.  Félag sérfræðinga í meltingarsjúkdómum hefur forgöngu um þennan þátt fræðsluátaksins.

Mörg fyrirtæki og opinberar stofnanir styðja og styrkja þetta fræðsluátak sem er löngu tímabært og mun verða öllum til heilla og án efa auka lífsgæði á Íslandi.

Reykjavík 28. október, 2002.

Ásgeir Theodórs læknir. Formaður átakshóps Vitundarvakningar um ristilkrabbamein.

Sjá fyrri smásjá um krabbamein í ristli og endaþarmi: Sjúkdómur sem má finna og lækna á forstigi.

Sjá klíniskar leibeiningar frá Landlæknisembætttinu. Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.