Verkir og herpingur neðarlega í kvið?

Spurning:

Góðan dag
Þannig er mál með vexti að ég á engan heimilislækni og það er erfitt að fá slíkan í Reykjavík þannig að ég prufa þetta fyrst. Ég hef síðustu þrjár vikur fengið 4 skrítin köst, verið með verk í maganum. Síðan verður þetta eins og túrverkur, svona herpingur í leginu.Og síðan þarf ég stundum að kúka og fæ þvílíkan niðurgang og þarf oft að skila öllu .Síðan heldur verkurinn í ca 1 klst samt áfram svo lagast þetta í nokkra daga og ég sleppi því að leita til læknis. Mér finnst þetta stórskrítið því ég verð sjaldan veik og ég fæ ekki hita með þessu en það er ansi erfitt stundum að vinna fyrir kvölum. Það er ca mánuður síðan ég hætti á pillunni, getur þetta verið það?
Kveðja xx

Svar:

Sæl xx
Einkennin sem þú lýsir gætu passað við ristilkrampa (irritable bowel syndrome) sem er algengt hjá ungum konum og kemur stundum fram við álag, streitu, tíðir o.fl. Gæti tengst hormónabreytingum í tengslum við að hætta á pillunni. Ef blóð og slím fylgir hægðunum ættir þú að leita til meltingarlæknis, þar sem verið getur að þú sért með ristilbólgur, eins ættir þú að leita læknis ef einkennin lagast ekki á næstu 2 vikum eða svo.

Með kveðju,

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum