Verkir í MS-sjúkdómi

Tengsl MS-sjúkdóms og verkja hafa verið þekkt lengi þótt önnur vandkvæði, svo sem lamanir, dofi, jafnvægisleysi, stjórnleysi í útlimum og sjóntruflanir komi fyrr upp í hugann þegar fjallað er um MS-sjúkdóminn. Skráð tíðni verkja í MS er nokkuð breytileg eftir rannsóknum en gera má ráð fyrir að meira en helmingur MS-sjúklinga fái einhvern tíma verki vegna sjúkdómsins. Algengara er að konur fái MS-verki en karlar og tíðnin eykst með aldri. Orsakir verkjanna geta verið margvíslegar og þótt oft sé ljóst að MS-skemmdir í miðtaugakerfinu séu grunnorsök verkjanna eru tengslin óljósari í öðrum tilvikum. Í eftirfarandi umfjöllun verður verkjum í MS-sjúkdómi lýst með tilliti til sérkenna þeirra, þ.e. hvort um verkjaskot eða viðvarandi verki er að ræða og einnig verða mögulegar orsakir þeirra og meðferð rædd.

Verkjaskot

Verkjaskot (paroxysmal verkir) eru stuttvarandi verkir sem geta varað í sekúndu eða fáeinar mínútur og eru í mörgum tilvikum mjög sárir. Oft ýfast þessir verkir upp við hreyfingu eða snertingu en þeir geta þó komið án augljóss tilefnis. Þó að verkjaskotin séu stuttvarandi geta þau endurtekið sig í sífellu langtímum saman ef þau eru ekki meðhöndluð og koma þá stöðugt á sama svæði líkamans. Talið er að þessir verkir orsakist af óeðlilegri (ectopic) örvun sársaukatauga vegna afmýlingar (demyelinatio) í MS-skellu. Þessa skotverki er oft auðvelt að stöðva með karbamazepíni (Tegretoli) sem þekktast er sem flogaveikilyf og hindrar óeðlilegan flutning rafboða í taugakerfinu. Þol MS-sjúklinga fyrir lyfinu er þó oft lítið og getur það valdið óeðlilegri slævingu og versnun annarra einkenna, t.d. máttleysis og óregluhreyfinga. Ef karbamazepín hefur aukaverkanir í för með sér geta önnur lyf sem notuð eru við flogaveiki eða baclofen (Lioresal) komið að notum.

Vangahvot (vangaskot, trigeminus neuralgia) var fyrsta einkennið í þessum flokki sem skráð var en það er mjög sár stingverkur sem kemur í andlit. Algengara er að sjá vangahvot hjá þeim sem ekki hafa MS en MS-sjúklingar eru oftast yngri en hinir og hafa sjúkdóminn iðulega beggja vegna í andliti en slíkt er óalgengt ef ekki er um MS að ræða.

Lhermitte’s einkenni lýsir sér með skyndilegum rafstraumsverk sem geislar frá hálsi og kemur oftast fram þegar höfuð er hneigt fram á við. Verkurinn breiðist oftast niður hrygginn og niður í fætur en getur einnig farið í hendur og jafnvel komið eingöngu þar. Oftast er verkurinn vægur og ef hálshreyfingin er endurtekin nokkrum sinnum þreytist hann og getur horfið í nokkurn tíma á eftir.

Vöðvaspennukvöl (painful tonic seizure) getur komið samhliða eða í kjölfar sársaukaskots með húðskynstruflun (paroxysmal dysesthetic pain). Þessi einkenni koma í útlimi og felast í skyndilegum, oft mjög sársaukafullum vöðvaherpingi og bruna eða stingverkjum. Hreyfing eða snerting útlimsins geta komið þessum köstum af stað og einnig oföndun eða þau koma að tilefnislausu. Oftast koma þessi köst eingöngu í annan líkamshelming í senn en geta þó komið samtímis beggja vegna.

Langvinnir verkir

Sársauki ásamt húðskynstruflun (dysesthetic pain) er talinn orsakast af MS-skellu sem oftast er í bakstrengjum mænu. Oftast eru verkirnir þá í útlimum en geta verið hvar sem er í líkamanum. Verkirnir eru oft stöðugir en ýfast iðulega upp við áreiti á húðina, t.d. létta snertingu, ef vatnsdropi úr sturtu fellur á húðina og jafnvel við léttan vindgust sem leikur um svæðið. Hefðbundin verkjalyf eru oftast gagnslaus en þau lyf sem helst koma að notum eru lyf af flokki þríhringlaga geðlyfja. Þessi lyf ganga inn í efnaferli miðtaugakerfisins, m.a. með því að auka virkni serótóníns, en serótónín leikur stórt hlutverk í eigin verkjaslævandi kerfi líkamans.

Vöðvakrampar (spasmar) eru algengir í MS-sjúkdómnum og stundum geta þeir verið mjög sársaukafullir. Þessir verkir geta verið verri að nóttu til og fara eftir styrk vöðvasamdráttarins. Miklu skiptir því að forðast ástand sem ýft getur krampana upp, svo sem legusár og sýkingar. Krampalosandi lyf t.d. baclofen geta í öðrum tilvikum dregið úr samdrættinum og minnkað verki.

Mjóbaksverkir eru eitt algengasta vandamál fólks á vesturlöndum og er sjálfgefið að MS-sjúklingar eru ekki undanskildir þeim vanda. MS-sjúkdómurinn getur þó valdið ástandi sem eykur líkur á bakóþægindum, bæði vegna vöðvamáttleysis, sem eykur álag á liðþófa og liðbönd kringum hryggjarliði, og vegna spasma í baki sem geta verið sárir. Einnig er ekki útilokað að slíkir vöðvaspasmar og máttleysi orsaki verki vegna snemmkominna slitbreytinga í hrygg og stuðli að brjósklosi. Hefðbundin meðferð með bólgueyðandi lyfjum og styrkjandi sjúkraþjálfun ásamt meðferð á eymslapunktum í vöðvum er það meðferðarform sem fyrst er gripið til þótt stundum geti þurft að grípa til sértækari aðferða.

Bólgu í sjóntaug geta fylgt verkir bakvið auga sem hjaðna oftast niður innan fárra vikna. Sterameðferð getur oft dregið úr verknum en slík meðferð breytir þó litlu um gang sjúkdómsins að öðru leyti.

Einstaka sinnum getur MS-kast lýst sér fyrst og fremst í sárum verkjum. Í slíkum tilvikum getur háskammtasteragjöf í æð dregið hratt úr verkjum.

Ýmis önnur verkjavandkvæði geta lagst á MS-sjúklinga. Má t.d nefna verki vegna lið- eða taugaskemmda vegna langvarandi legu og óeðlilegra stellinga þegar sjúkdómur er langt genginn. Einnig getur langvinn steranotkun valdið brotum á hryggjarliðum og liðskemmdum.

Niðurlag

Verkir eru algengir meðal sjúklinga með MS þótt sjaldnast séu þeir taldir til grunneinkenna MS-sjúkdómsins. Oft eru þessir verkir fremur óþægindi en orsök alvarlegrar fötlunar og önnur einkenni eru í flestum tilvikum meira hamlandi.

Sumir einstaklingar fá þó svo alvarlega verki að þeir verða erfiðasta sjúkdómseinkennið og sennilega eru langvinnir sárir verkir óttalegasti sjúkdómurinn sem hægt er verða fyrir. Meðferð við verkjum er enn mjög ábótavant, bæði hjá þeim sem hafa verki vegna MS-sjúkdómsins og öðrum. Aðstæður þessarar vangetu til að slæva verki má rekja til vanþekkingar og áhugaleysis læknisfræðinnar á eðli og orsökum verkja allt fram á síðari ár. Undanfarin ár hafa grunnrannsóknir á eðli verkja þó blómstrað og má þess vænta að á næstu árum muni þessar rannsóknir skila sér í auknum skilningi, bættri meðferð og minni þjáningu þeirra sem nú lifa við mikla fötlun og vanlíðan vegna langvinnra verkja.

Birt með góðfúslegu leyfi MS félagsins, vefur þeirra er msfelag.is