Vellíðan við vinnu

Flestir eru sammála um nauðsyn góðs vinnuumhverfis. Sjónarmið heilbrigðis og forvarna koma þar inn í, en vissulega skipta bæði efnahagsleg og pólitísk sjónarmið einnig máli.
Stjórnendur fyrirtækja eru almennt að gera sér betur grein fyrir að gott starfsumhverfi skiptir miklu máli varðandi starfsánægju og vellíðan við vinnu. Áhugi á heilsuvernd starfsmanna er að aukast og starfsmaðurinn er auðlind sem fyrirtækin eiga að nýta sér og varðveita.
Heilsuvernd starfsmanna er skilgreind í lögum um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum og er ábyrgðin í höndum fyrirtækja og stofnana. Samkvæmt þeim eiga atvinnurekendur að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna. Unnin var skýrsla á vegum Vinnueftirlits ríkisins um Heilsuvernd starfsmanna í júní 1999. Í henni er talað um nauðsyn þess að unnið sé að heilsuvernd starfsmanna í þverfaglegu teymi sem samanstæði af fimm fagstéttum.

Ljóst er að samvinna margra ólíkra fagstétta þarf til þess að stuðla að virkri heilsuvernd starfsmanna á vinnustað. Starfsvettvangur minn hjá Heilsuvernd ehf. er m.a að sinna heilsuvernd starfsmanna á vinnustöðum. Fyrirtækið hefur á að skipa lækni, hjúkrunarfræðingum, sjúkraþjálfurum og sálfræðingi og er þjónusta fyrirtækisins tvíþætt. Annars vegar upplýsinga- og skráningakerfi um veikindi á vinnustað – fjarvistaskráning. Hins vegar heilsuefling og heilsuvernd starfsmanna.

Heilsuvernd leitast við að efla heilbrigði starfsmanna fyrirtækjanna með einstaklingsbundinni ráðgjöf í veikindum. Jafnframt er leitast við að veita starfsmönnum almenna ráðgjöf til aukins heilbrigðis og stuðla að heilsusamlegu vinnuumhverfi og heilsueflingu innan fyrirtækjanna.

Sú þekking sem myndast með fjarvistaskráningunni nýtist til greiningar á vinnuumhverfi og til skipulagningar heilsuverndarstarfs innan fyrirtækja sem og að byggja upp kröftugt forvarnarstarf gegn vinnutengdum álagseinkennum og sjúkdómum.
Þáttur minn sem sjúkraþjálfara inni í þessari samvinnu er m.a. að vekja athygli á vinnuumhverfinu, vinnuskipulagi og álagseinkennum þeim tengdum.
Sjúkraþjálfarar hafa sérþekkingu á einkennum frá stoðkerfi s.s. frá vöðvum, sinum, liðamótum. Til þess að vinnustaðir fái þá þjónustu sem leitað er eftir og til að hámarka gæði hennar, þá er mikilvægt að leita til aðila sem hafa þekkingu á heilsuvernd starfsmanna á vinnustöðum.
Ráðgjafaþjónustan felst meðal annars í að greina og meta áhættuþætti í vinnuumhverfinu og skoða hvaða áhrif þessir þættir hafa á líðan einstaklingsins.
Í slíkri vinnustaðaúttekt er nauðsynlegt að nota gátlista til að tryggja gæði þjónustunnar. Í þessum gátlistum er vinnuumhverfið athugað svo sem hávaði, lýsing, vinnuhæðir, vinnurými, búnaður o.þ.h. Álag á hreyfi og stoðkerfi er einnig skoðað þar sem vinnuskipulag og eðli vinnunar er greint s.s. erfiði og einhæfni. Einnig er fylgst er með hvernig starfsmaðurinn beitir líkamanum við vinnu sína. Félagslegur aðbúnaður er kannaður svo sem vinnutími, taktur, tímaáætlun, einangrun o.þ.h. Fróðlegt er einnig að spyrja starfsmenn um verki, álagseinkenni og reglubundna hreyfingu innan vinnunnar sem utan hennar. Þannig tryggir maður að sömu þættir séu athugaðir hjá öllum þeim sem stunda sams konar störf innan fyrirtækisins. Með þessu móti fæst heildstæð mynd af þessum þáttum vinnuverndarinnar og sérkenni vinnustaðarins koma fram. Í úttektinni er starfsmönnum einnig veitt persónuleg ráðgjöf um likamsbeitingu, álagseinkennavarnir og notkun búnaðar.
Niðurstöður úttektar eru notaðar til grundvallar varðandi endurbætur á vinnuumhverfi s.s. skipulagi, húsbúnaði, tækjum, lýsingu, litum. Skriflegar tillögur eru gerðar að úrbótum og þeim forgangsraðað. Í kjölfarið er síðan æskilegt að gera skammtíma og langtímamarkmið í samráði vð stjórnendur og starfsmenn.
Fræðsla og kennsla um álagseinkenni, líkamsbeitingu, vinnutækni, þjálfun og hléæfingar er mikilvægur hluti af störfum sjúkraþjálfara innan fyrirtækja og stofnana. Fræðslan er sniðin að eðli vinnunnar og þörfum starfsmanna vinnustaðarins þannig að þeir geti notfært sér upplýsingarnar við vinnu sína. Fræðsla til starfsmanna er einnig nauðsynleg til þess að þær úrbætur sem gerðar hafa verið á vinnuumhverfinu, nýtist til fulls.
Brýnt er að einstaklingurinn sætti sig ekki við slæma vinnuaðstöðu og athugi jafnframt sjálfur hvað hægt er að gera til úrbóta. Ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu þarf að vera hverjum starfsmanni ljós. Ekki má gleyma að með því að stunda reglubundna hreyfingu þá er líkaminn betur í stakk búinn til að takast á við álag.
Hlutverk sjúkraþjálfara á þessum markaði er einnig að aðstoða og veita ráðgjöf um val á tækjum, húsbúnaði, stólum, ýmsum hjálpartækjum og öðrum fylgihlutum sem stuðlað geta að bættri vinnuaðstöðu starfsmanna.
Eftirfylgni sjúkraþjálfara er æskilegur þáttur í heilsuvernd starfsmanna. Þar er átt við reglulega innkomu sjúkraþjálfara, þar sem gert er endurmat á vinnuumhverfi, vinnuskipulagi og þeim úrbótum sem gerðar hafa verið. Slík regluleg innkoma sjúkraþjálfara getur verið þáttur í stefnumörkun fyrirtækis varðandi heilsuvernd á vinnustað.
Starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja gera sér æ betur grein fyrir því hve mikilvægt það er að njóta vellíðunnar við vinnu og af þeim sökum hefur eftirspurn eftir ráðgjöf við úttekt og mat á vinnustöðum farið vaxandi innan fyrirtækja.