Vefjagigt

Hvað er vefjagigt?

Vefjagigt er sjúkdómsástand sem leggst á bandvef líkamans. Sjúkdómurinn lýsir sér í langvarandi verkjum sem gjarnan eru verstir í vöðvafestum, stirðleika í vöðvum og almennri þreytu. Sjúkdómseinkennum svipar oft til einkenna iktsýki (rheumatoid arthritis) og þessum sjúkdómum stundum ruglað saman í upphafi, en vefjagigt leggst hinsvegar ekki á liði eins og iktsýki og fylgja því ekki aflaganir á liðum. Einnig hefur gætt ruglings við sjúkdóminn síþreytu (chronic fatigue syndrome), en einkenni þessa sjúkdóma eru um margt svipuð þó síþreytueinkenni séu oft mun sterkari og þreyta meira áberandi en verkir og hefur því oftast enn meiri áhrif á daglegt líf sjúklingsins.

Vefjagigt er algengari hjá konum en körlum og er hlutfallið um það bil 10 konur á móti hverjum einum karlmanni sem fær einkenni vefjagigtar. Flestir þeir sem greinast með sjúkdóminn eru á aldrinum 20–60 ára, með hæsta tíðni milli 30 og 40 ára. En þó sjúklingar séu flestir um miðjan aldur þá er sjúkdómurinn einnig þekktur hjá öldruðum og börnum og virðist tíðnin vera að aukast í þessum aldurshópum.

Hver er orsök vefjagigtar?

Ekki er þekkt nein ein ákveðin orsök vefjagigtar og er talið að samverkandi þættir valdi sjúkdómnum. Oft er vefjagigt skipt í annarsvegar vefjagigt og hinsvegar afleidda vefjagigt.

Vefjagigt Stöðugt er verið að rannsaka hvaða þættir það geti verið sem valda sjúkdómsmyndinni:

Svefntruflanir: Talið er að svefntruflanir geti átt þátt í sjúkdómsmyndinni. Rannsóknir hafa sýnt að djúpsvefn er truflaður hjá sjúklingum með vefjagigtareinkenni og þegar djúpsvefninn er truflaður hjá heilbrigðum sjálfboðaliðum í ákveðinn tíma, lýsa þeir einkenum vefjagigtar. Þannig geta einstaklingar sem þjást af svefntruflunum í einhvern tíma átt á hættu að þróa með sér einkenni vefjagigtar, t.d. sjúklingar sem þjást af verkjum og geta þess vegna illa sofið.

Galli í vöðvafrumum: Í fyrstu var talið að sjúkdómurinn væri tilkominn vegna galla í vöðvafrumum. Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar með þennan sjúkdóm hafa minna af ákveðnu ensími sem hefur áhrif á samdrátt og slökun vöðvafruma. Þegar magn þessa ensíms er lágt, slakar vöðvinn ekki á að samdrætti loknum, heldur helst áfram spenna í vöðvanum, sem aftur getur svo valdið þeim þreytueinkennum sem sjúklingar lýsa. Einnig hefur verið sýnt fram á að háræðaveggir í vöðvum þessara sjúklinga eru þykkari en í heilbrigðum einstaklingum og gæti það stuðlað að lækkuðu magni ensímsins auk þess sem það gæti einnig stuðlað að minna súrefnisflæði til vöðvans, sem svo aftur getur valdið þeim þreytueinkenum sem sjúklingar lýsa. Í dag hallast þó menn að því að orsökina sé frekar að finna í taugakerfinu eða óæmiskerfinu heldur en að lækkað ensímmagn eða þykkari veggir háræða sé orsökin.

Truflanir í heilanum: Rannsóknir á vefjagigtarsjúklingum hafa sýnt minnkað blóðflæði til þeirra hluta heilans sem hafa með sársaukaskynjun að gera. Athygli hefur einnig beinst að ákveðnum hluta undirstúku heilans og heiladingli, sem stjórna ýmsum mikilvægum þáttum í líkamanum s.s. svefni, vexti, streituviðbröðgðum og þunglyndi og þá kannski fyrst og fremst efni sem kallast Somatomedin C og er framleitt á þessu svæði meðan einstaklingur er í djúpsvefni. Þar sem djúpsvefninn er truflaður hjá einstaklingum með vefjagigtareinkenni er framleiðsla á Somatomedini C minnkuð og er það talið geta valdið lækkuðum sársaukaþröskuldi hjá þessum einstaklingum. Lækkaður sársaukaþröskuldur veldur því að sjúklingar upplifa sársauka t.d. eftir litla áreynslu og veigra sér því við áreynslu sem aftur leiðir til vöðvarýrnunar. Af stað fer vítahringur sem felur í sér vöðvarýrnun og stöðugt lægri sársaukaþröskuld, sem veldur stöðugt meiri verkjum og svefntruflunum. Magn Somatomedins C hækkar við upplifun sársauka og hefur verið sýnt fram á hátt magn af þessu efni í heila- og mænuvökva þessara sjúklinga. Hvort þessi truflun í Somatomedin C framleiðslu er arfbundin eða áunnin er ekki þekkt, en henni geta fylgt enn frekari truflanir á hormónastjórnun og boðefnum í heila. Einnig er þekkt að vefjagigtarsjúklingar hafi minnkað magn af öðru boðefni í heilanum sem kallast serotonin og forvera þess amínosýrunni tryptofan. Þekkt er að skortur á serotoníni getur valdið þunglyndi og kvíða.

Sjálfsofnæmi: Einkenni vefjagigtar svipar um margt til einkenna sk. sjálfsofnæmissjúkdóma. Sjálfsofnæmissjúkdómar verða til með þeim hætti að ónæmiskerfið fer að skynja eigin vefi sem utanaðkomandi og fer að framleiða efni (mótefni) sem ráðast þá á eigin vef og skemma hann, dæmi um slíka sjúkdóma er iktsýki (rheumatoid arthritis) og rauðir úlfar (systemic lupus erythematosus). Ekki hefur þó enn tekist að sýna fram á framleiðslu á ákveðnu mótefni gegn eigin vefjum hjá sjúklingum með vefjagigt.

Ofurnæmi: Eitt af því sem komið hefur til tals í umræðunni um hvað það sé sem valdi vefjagigt er sk. Ofnæmi, en í því felst að truflun verður á skynjun hjá þessum einstaklingum, þannig að þeir skynja sársauka óeðlilega sterkt. Þættir sem gætu stuðlað að þessu ofurnæmi gætu hugsanlega verið annað hvort erfðir, svefntruflanir, truflanir í boðefnum eða eitthvert áfall sem einstaklingurinn verður fyrir s.s. slys eða skurðaðgerð.

Þunglyndi: Sálræn einkenni sem fylgja sjúkdómnum eru kvíði og þunglyndi og eru sumir sem vilja meina að þessir þættir séu undirrót sjúkdómsins. Hins vegar er oft erfitt að átta sig á hvort kvíði og þunglyndi hafa verið til staðar áður en sjúkdómseinkennin gerðu vart við sig eða hvort kvíði og þunglyndi eru afleiðing verkja og svefntruflana.

Langvarandi vöðvabólgur: Vöðvabólgur eða aukin vöðvaspenna getur aukið líkur á vefjagigt. Einnig er talin meiri hætta á vefjagigt meðal þeirra sem hafa vanið sig á að nota vöðvana rangt.

Afleidd vefjagigt Stundum er talað um afleidda vefjagigt þegar sjúkdómseinkenni koma fram eftir eitthvað ákveðið skilgreint atvik, t.d. eftir slys eða skurðaðgerð. Þetta er t.d. nokkuð vel þekkt eftir hálsáverka og sýnt hefur verið fram á að allt að 20% þeirra sem fengið hafa hálsáverka hafa greinst með afleidda vefjagigt.

Hver eru einkenni vefjagigtar?

Helstu einkenni vefjagigtar eru stöðugir verkir, stirðleiki og almenn þreyta, verkirnir byrja oft í hálsi og öxlum og breiðast svo út þaðan. Einkenni vefjagigtar geta verið breytileg frá degi til dags og staðsetning vöðvaverkjanna fara oft úr einum stað í annan. Sjúklingar geta litið mjög vel út þrátt fyrir að þeim líði mjög illa. Verkirnir og stirðleikinn eru oft verstir þegar sjúklingar vakna eftir oft lélegan nætursvefn og lagast oft lítið þegar líður á daginn og þá skortir oft þrótt til að komast í gegnum daglegt amstur. Sjúklingar kvarta oft yfir dofa í höndum, þeir séu þungir í skapi, pirraðir og grátgjarnir. Sumir þjást af tíðum höfuðverkjaköstum og jafnvel migreni, eiga oft erfitt með að einbeita sér og minni er oft lélegt og einnig geta fylgt meltingartruflanir sem lýsa sér með hægðatregðu og niðurgangi til skiptis,ásamt vindverkjum. Tíð þvaglát geta verið hluti af sjúkdómsmyndinni og hjá konum geta tíðarverkir versnað. Sjúkdómsmyndin er ekki alveg sú sama hjá börnum, fram koma svefntruflanir og útbreiddir verkir en þreyta er oft ekki eins áberandi og höfuðverkir og morgunstriðleiki fátíðari.

Hvað gerir einkennin verri?

Ýmislegt getur haft áhrif til að gera sjúkdómseinkenni verri, s.s. veðurfar, líkamleg áreynsla og streita í umhverfi og aukið álag.

Hvenær skal leita læknis?

Ef eitthvert af ofangreindum einkennum hefur verið til staðar og grunur leikur á að um vefjagigt geti verið að ræða er rétt að hafa samband við lækni. Greining vefjagigtar getur reynst flókin og því tekur oft nokkurn tíma frá því sjúklingur leitar læknis þar til niðurstaða liggur fyrir. Hægt er að leita hvort sem er á heilsugæslustöð eða til sérfræðings í gigtarsjúkdómum ef grunur leikur á að um vefjagigt sé að ræða.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Ekkert eitt einkenni eða einhver ein rannsókn er til sem stutt getur sjúkdómsgreininguna vefjagigt. Í byrjun er þó nauðsynlegt að gera ýmsar rannsóknir til að útiloka að um aðra sjúkdóma sé að ræða. Mikilvægt er að fá sem nákvæmasta sjúkrasögu frá sjúklingi m.t.t. áðurnefndra einkenna og til að útiloka aðra sjúkdóma. Við læknisskoðun eru svokallaðir eymsla- eða verkjapunktar eitt mikilvægasta greiningaratriðið. Út frá sjúkrasögu og skoðun sjúklings, ásamt því að rannsóknarniðurstöður benda ekki á aðra sjúkdóma, beinist grunur að vefjagigt. Hluti af greiningunni byggist á því að verkir hafi verið til staðar lengur en í 3 mánuði og a.m.k. 11 af 18 eymsla-og verkjapunktum séu hvellaumir við þreifingu (ekki er nóg að eymsli séu til staðar).

Eymsla- og verkjapunktar:

  • aftan á hnakka rétt neðan við hárlínu beggja megin
  • framan á hálsi fyrir ofan viðbein beggja vegna
  • á bringunni milli brjóstanna beggja vegna
  • aftan á baki á mótum axlar og háls beggja vegna miðlínu
  • á milli herðablaða sitthvoru megin við hryggsúlu
  • miðlægt á olnboga á báðum handleggjum
  • sitthvoru megin við hryggsúlu neðan mittis
  • hliðlægt á mjöðmum beggja vegna
  • miðlægt hnéskeljum á báðum hnjám

Vegna þess hversu einkenni geta verið breytileg getur verið sterkur grunur um vefjagigt út frá sögu sjúklings en einkenni ekki til staðar, því getur þurft nokkrar heimsónir til læknis áður en hægt er að fá staðfest eða útiloka að um vefjagigt sé að ræða.

Það eru nokkrir sjúkdómar sem svipar til vefjagigtar m.t.t einkenna:

Ýmsir sjálfsofnæmissjúkdómar hafa sambærileg einkenni, en þá er hægt að greina frá með sérhæfðum prófum:

Rauðir úlfar (systemic lupus erythematosus)

Iktsýki (rheumatoid arthritis)

Polymyalgia Rheumatica

Sjögren’s sjúkdómur

Multiple Sclerosis:
Sjúkdómur sem leggst á miðtaugakerfið og einkenni sambærileg þeim sem sjást hjá vefjagigtarsjúklingum. Sjúkdómurinn er hægfara í byrjun, engin sérhæfð próf eru til sem hægt er að nota til að staðfesta sjúkdómsgreiningu.

Síþreyta:
Einkenni eru mjög sambærileg þeim sem vefjagigtarsjúklingar hafa og eiga sjúkdómarnir það einnig sameiginlegt að ekki eru heldur til nein próf sem staðfest geta þá og greining byggir því fyrst og fremst á sögu sjúklings. Við síþreytu er þreytan meira áberandi en vöðvaeymsl aftur meira áberandi í vefjagigt.

Vanstarfsemi skjaldkirtils:
Sjúkdómseinkenni eru sambærileg þeim sem sjást hjá vefjagigtarsjúklingum, en til eru sérhæfð blóðpróf til að greina þennan sjúkdóm.

Lyme disease:
Maurar bera bakteríu (Borrelia burgdorferi) sem veldur sjúkdómnum til manna. Sjúkdómurinn er landlægur á stórum svæðum í Ameríku og einkenni koma oft ekki fram fyrr en mánuðum eftir sýkingu og því mikilvægt að hafa sjúkdóminn í huga ef sjúklingur hefur verið á ferð um þessi svæði.

Ýmsir aðrir sjúkdómar geta valdið einkennum sem eru sambærileg þeim sem sjást við fjölvöðvagigt og þarf að útiloka þessa sjúkdóma áður en hægt er að staðfesta sjúkdómsgreininguna vefjagigt.

Hvað er til ráða?

Þegar sjúkdómsgreiningin er fengin er mikilvægt að gera sér grein fyrir eðli sjúkdómsins og taka virkan þátt í meðferðinni. Hugsanlegt er að sjúklingur með vefjagigt þurfi að skipta um starf eða minnka við sig vinnu. Umfram allt þarf viðkomandi að finna hvað hentar best og hvað þurfi helst að forðast til að honum/henni líði betur.

Hver er meðferðin?

Eins og gildir um marga gigtarsjúkdóma byggist meðferðin mjög mikið á þverfaglegri teymisvinnu, þ.e. samvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga, iðju- og sjúkraþjálfa, félagsráðgjafa og jafnvel sálfræðinga. Reynt er að komast að því hvaða meðferð er árangursríkust og henti viðkomandi sjúklingi best. Meðferð sjúklinga er hins vegar mjög einstaklingsbundin og fræðsla um sjúkdóminn er lykilatriði.

Líkamsþjálfun:
Líkamsþjálfun er mjög stór þáttur í að stuðla að betri líðan og minni verkjum hjá sjúklingum með vefjagigt. Margir sjúklingar eru hræddir við að líkamsþjálfun auki verki, en verkir eftir líkamsþjálfun líða í flestum tilfellum hjá 30 mínútum eftir að þjálfun er hætt. Líkamsþjálfun eykur blóðflæði um vöðva og eykur þar með súrefnisflutning og kemur auk þess í veg fyrir vöðvarýrnun og með tímanum eykur þrek og minnkar verki. Mælt er með þolþjálfun í byrjun fyrir þennan sjúklingahóp, mikilvægt er að byrja á léttum æfingum í stuttan tíma til að byrja með og auka þær svo smám saman, síðar er svo í sumum tilfellum hægt að byrja styrktarþjálfun og þá mikilvægt að byrja með litla þyngd og fáar endurtekningar. Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar með vefjagigt eru mun verr á sig komnir en jafnaldrar, sem eykur enn frekar á mikilvægi þess að þessir sjúklingar leggi stund á líkamsþjálfun. Sjúklingur þarf að gera sér grein fyrir að um langtímameðferð er að ræða og það þurfi að stunda reglulega þjálfun í töluverðan tíma áður en þeir fara að finna árangur. Göngur og hjólreiðar eru dæmi um góðar æfingar fyrir vefjagigtarsjúklinga og einnig hefur sýnt sig að vatnsleikfimi hefur reynst þessum sjúklingahóp sérstaklega vel. Mikilvægt er fara rólega af stað og hita vöðvana vel upp og teygja svo vel á þeim eftir þjálfunina.

Sjúkraþjálfun er mjög mikilvæg í byrjun og er aðalmarkmiðið að kenna sjúklingnum viðeigandi æfingar sem henta þannig að hann geti haldið áfram að stunda þjálfun á eigin spýtur. Þjálfunin stuðlar að því að auka líkamlegt þrek með blöndu léttra líkams- og úthaldsæfinga og sundlaugarþjálfunar. Slíkt eykur jafnframt blóðflæðið til vöðvanna en talið er að vöðvaverkirnir geti stafað m.a. af minnkuðu súrefnisflæði til vöðva.

Sálfræðimeðferð:
Mikilvægt er að hjálpa sjúklingum við að læra að lifa með sjúkdómnum og aðlaga sig að umhverfinu. Einnig er nauðsynlegt fyrir þessa sjúklinga að læra að fást við streitu og þá verki sem óneitanlega eru fylgikvilli vefjagigtar. Það hefur sýnt sig að vefjagigtarsjúklingar eiga erfiðara með að takast á við daglegt amstur en heilbrigðir einstakingar. Til að minnka stressið getur verið gott að gefa sér tíma nokkrum sinnum á dag og draga andann djúpt og rólega nokkrum sinnum og finna slökunina og ef tækifæri er til að leggjast niður í nokkrar mínútur og slaka á.

Heilbrigðir lifnaðarhættir:
Mikilvægt er fyrir alla að lifa heilbrigðu lífi og enn mikilvægara er það fyrir þá sem þjást af vefjagigt. Holl fæða stuðlar að bættri líðan, rétt er að forðast mat sem inniheldur mikið af fitu og einsykrum, en borða meira af grænmeti, ávöxtum, grófmeti og mögru kjöti og fiski. Svefn er þessum sjúklingum mikilvægur og vaktavinnu þola þeir mjög illa. Truflaður svefn og of lítill svefn eykur á verki og vanlíðan og því nauðsynlegt að svefn sé reglulegur. Jóga, hugleiðsla og nudd eru tæki sem sjúklingar geta nýtt sér til slökunar og stuðla þannig að minni verkjum og vellíðan. Einnig geta nálarstungur og TNS-hljóðbylgjur hjálpað. Iðjuþjálfun gegnir mikilvægu hlutverki við að aðstoða einstaklinga með vefjagigt til að endurskipuleggja lífshætti sína, hvort sem er heima fyrir eða í vinnunni. Markmiðið er að auðvelda sjúklingum að finna betri lausnir til að geta stundað dagleg störf.

Lyfjameðferð:
Mikilvægt er að líta á lyfjameðferð sem skammtímalausn sem gripið er til þegar sjúklingur er á erfiðu stigi sjúkdómsins. Mikil andleg þreyta fylgir miklum svefntruflunum og stöðugum verkjum. Ef brjóta á upp þennan vítahring getur þurft að grípa til einhverrar lyfjameðferðar. Ekki er til nein ein lyfjameðferð sem hentar öllum heldur þarf að nota einstaklingsbundna meðferð.

Þríhringlaga geðdeyfðarlyf: eru töluvert notuð í meðferð vefjagigtar, þau bæði hafa áhrif á svefninn og verkina en hafa einnig verkun á þunglyndi sem oft er eitt af sjúkdómseinkennunum. Það tekur þessi lyf nokkurn tíma að ná fullri virkni.

Serotonín-hamlar: geðdeyfðarlyf sem hindra endurupptöku á serotoníni í miðtaugakerfi og auka þannig magn þess en þetta efni er oft lækkað hjá vefjagigtarsjúklingum. Þessi lyf eru notuð til meðhöndlunar á þunglyndi og er best að taka þau að morgni því annars er hætta á að þau geti valdið svefntruflunum.

Hormónameðferð: tiltölulega algengt er að fyrstu einkenni vefjagigtar komi samfara tíðahvörfum og verkar oft jákvætt að setja þær konur á hormónameðferð. Hormónameðferð virkar verndandi gegn beinþynningu sem og hjartasjúkdómum, en einnig virðast þær konur sem fá hormónameðferð sofa betur en þær sem fá ekki estrogenmeðferð.

Verkjalyf: þegar þörf er á að taka verkjalyf er rétt að byrja á að taka einföld verkjalyf s.s. parasetamól. Bólgueyðandi lyf gagnast verr því ekki er um að ræða eiginlegan bólgusjúkdóm, þessi lyf geta einnig haft alvarlegar aukaverkanir s.s. magasár og magablæðingar og þarf því að taka þau með varúð. Sterkari verkjalyf, s.s. þau verkjalyf sem innihalda kódein þarf einnig að umgangast með varúð og aldrei nota nema tímabundið í þeim tilfellum þegar sjúkdómurinn er á erfiðu stigi.

Sterar og deyfilyf: í einstaka tilfellum þegar um einangraða hvellauma bletti er að ræða er hægt að sprauta blöndu af sterum og deyfandi lyfi í svæðið til verkjadeyfingar.

Svefnlyf: eru ekki góður kostur fyrir sjúklinga með vefjagigt vegna hættu á ávanabindingu og því rétt að forðast þau nema í einstaka tilfellum og þá einungis tímabundið.

Batahorfur

Sjúkdómurinn er ekki lífshættulegur en getur engu að síður haft mikil áhrif á líf sjúklings og er talið að allt að helmingur sjúklinga geti þurft að breyta sínu daglega lífi s.s. vinnu og heimilisstörfum. Engar vöðvaskemmdir eru til staðar þótt verkir séu frá vöðvunum. Sjúkdómurinn leggst ekki á liði og því koma ekki fram neinar skemmdir á liðum og sjúklingar með vefjagigt hafa ekki meiri líkur en aðrir að fá liðagigt síðar á ævinni. Einstaklingur sem greindur er með vefjagigt á ekki á hættu að þurfa að fara í hjólastól vegna vöðvaslappleika eða lömunar. Vegna verkja og svefnleysis er þó hætta á að sjúklingar ánetjist verkja- og/eða svefnlyfjum. Börn virðast hafa betri batahorfur en fullorðnir og einnig hefur sýnt sig að þeir sem fylgja vandlega leiðbeiningum varðandi lifnaðarhætti og þjálfun hafa betri horfur.