Vefjagigt

Vefjagigt er sjúkdómsástand sem leggst á bandvef líkamans. Sjúkdómurinn lýsir sér í langvarandi verkjum sem gjarnan eru verstir í vöðvafestum, stirðleika í vöðvum og almennri þreytu.

Hverjir fá vefjagigt

Vefjagigt er algengari hjá konum en körlum og er hlutfallið um það bil 10 konur á móti hverjum einum karlmanni sem fær einkenni vefjagigtar. Flestir þeir sem greinast með sjúkdóminn eru á aldrinum 20–60 ára, með hæsta tíðni milli 30 og 40 ára. En þó sjúklingar séu flestir um miðjan aldur þá er sjúkdómurinn einnig þekktur hjá öldruðum og börnum og virðist tíðnin vera að aukast í þessum aldurshópum.

 

Einkenni

Vefjagigt má einna helst líkja við slæma flensu. Óumræðanleg vöðvaþreyta, vöðvaverkir, vöðvastirðleiki, verkir í liðum, mikil almenn þreyta, dofi, stingir, órólegur ristill, pirringur í fótum, bjúgur, augn- og munnþurrkur, höfuðverkur og lítill svefn er það sem vefjagigtarsjúklingar búa við.  Sjúkdómseinkennum svipar oft til einkenna iktsýki (rheumatoid arthritis) og þessum sjúkdómum stundum ruglað saman í upphafi, en vefjagigt leggst hinsvegar ekki á liði eins og iktsýki og fylgja því ekki aflaganir á liðum.  Einnig hefur gætt ruglings við sjúkdóminn síþreytu (chronic fatigue syndrome), en einkenni þessa sjúkdóma eru um margt svipuð þó síþreytueinkenni séu oft mun sterkari og þreyta meira áberandi en verkir og hefur því oftast enn meiri áhrif á daglegt líf sjúklingsins.
Auk þessa má nefna að margir vefjagigtarsjúklingar eiga erfitt með tal. Það lýsir sér þannig að þeir muna ekki orðið sem þeir ætla að segja, þó það sé til staðar í höfðinu og viðkomandi sér það fyrir sér, getur hann bara ekki sagt það. Eins er algengt að segja röng orð t.d. rauður í staðinn fyrir blár, hvítur í staðin fyrir svartur eða ruglast á nöfnum t.d. barna sinna og vina og segja Jón í stað Pálína og öfugt. Fjarlægðarskyn margra vefjagigtarsjúklinga brenglast og því eiga margir erfitt með að aka bíl.

 

Eymsla- og verkjapunktar:

 • aftan á hnakka rétt neðan við hárlínu beggja megin
 • framan á hálsi fyrir ofan viðbein beggja vegna
 • á bringunni milli brjóstanna beggja vegna
 • aftan á baki á mótum axlar og háls beggja vegna miðlínu
 • á milli herðablaða sitthvoru megin við hryggsúlu
 • miðlægt á olnboga á báðum handleggjum
 • sitthvoru megin við hryggsúlu neðan mittis
 • hliðlægt á mjöðmum beggja vegna
 • miðlægt hnéskeljum á báðum hnjám

Hvað er til ráða?
Það er ekki hægt að lækna vefjagigtarsjúkling með einni pillu eða sprautu – því miður.  Reynslan hefur sýnt að sá sem er með vefjagigt og vill lifa sómasamlegu lífi þarf að breyta lífi sínu algerlega og huga að öllum smáatriðunum. Hann þarf að byrja á því að horfast í augu við þennan sjúkdóm, taka ákvörðun um að nýta sér hann til góðs og taka síðan til við að breyta.

 1. Svefn
  Vefjagigtarsjúklingar þurfa að ná svefni.  Það eru margar aðferðir til sem vefjagigtarsjúklingar og aðrir geta gert til að ná svefninum og þarf hver og einn að finna sína leið í því. Hægt er að leita til lækna, grasalækna, blómadropaþerapista, nuddara, nálastungulækna, stunda hreyfingu á kvöldin og stunda slökun eða fara í heit böð.
 2. Hreyfing
  Sá sem er með vefjagigt þarf að hugsa vel um sjálfan sig og hlusta á líkamann – alltaf. Þegar verkir verða slæmir – verri en vanalega – þá þarf að slaka á eins og kostur er. Það er nauðsynlegt að stunda einhvers konar hreyfingu. Vandamálið er að það er erfitt að hreyfa sig þegar maður er undirlagður af verkjum. Allt er þó betra en ekkert og bara það að fara út og ganga í tíu mínútur getur hjálpað. Aðilar sem stunda heildrænar lækningar geta hjálpað mikið. Grasalækningar, nálastungur, svæðanudd, blómadropar, slökunarnudd og höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð eru meðferðarform sem henta og fólk ætti að nýta sér.
 3. Breyttur hugsunarháttur og jákvæðni
  Vefjagigtarsjúklingar þurfa að breyta hugsunarhættinum og reyna að líta á lífið og tilveruna jákvæðum augum – það skiptir miklu máli. Það er fullkomlega eðlilegt að finna fyrir depurð eða reiði vegna þessa ástands. Það er óþolandi að geta ekki verið þátttakandi í lífinu og finna til vanmáttar. Þeir sem eru með vefjagigt geta þó þakkað fyrir að vera með sjúkdóm sem þeir geta sjálfir gert eitthvað í þó það sé erfitt og kosti mikla vinnu. Það eru sjúkdómar til sem enginn getur gert neitt í – það er erfitt.
 4. Mataræði    
  Breytt mataræði hefur sýnt sig að geta haft mikil áhrif. Það að elda allan mat frá grunni, taka út MSG og önnur óþörf aukaefni getur hjálpað í baráttunni við vefjagigtina.

 

Að lokum
Að greinast með vefjagigt þýðir að framundan er mikil vinna. Að vinna með sjálfan sig bæði líkamlega og andlega getur verið skemmtilegt. Það er nauðsynlegt fyrir þann sem greinist með vefjagigt að breyta lífi sínu. Hollur matur, hreyfing, aukin útivera og slökun er allt af hinu góða.

 Sjá einnig upplýsingar hjá: HNLFÍ, Reykjalundur  og Gigtarfélag Íslands