Varnir gegn vinnuslysum

Vinnuverndarvikan 2001

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur áætlað að tap vegna vinnuslysa og sjúkdóma nemi um 4% af heildarframleiðslu heimsins. Meðal Evrópubandalagsþjóða má gera ráð fyrir að á ári hverju láti um 5500 manns lífið í vinnutengdum slysum. Þessu til viðbótar slasast um 4,5 milljónir í vinnunni þannig að valdi meira en 3 daga fjarvist. Þetta leiðir til þess að meðal þessara þjóða, sem Íslendingar bera sig helst saman við, tapast um 146 milljón vinnudaga. Þessu til samanburðar má nefna að á árabilinu 1990 til 2000 létust alls 44 í vinnuslysum hér á landi að frátöldum sjó- og flugslysum. Þetta svarar til um 1,7 dauðsfalls á hverja 100.000 íbúa en meðal íbúa EB er það 1,5 dauðsfall á hverja 100,000 íbúa. Samkvæmt nýútkominni skýrslu Vinnueftirlitsins hafa um 5% starfsmanna í öldrunarþjónustu á Íslandi lent einhvern tíma í vinnuslysi en sami fjöldi hafði lent í umferðarslysi einhvern tíma á ævinni. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt athugun Vinnueftirlitsins á úrtaki starfsmanna leikskóla hafa tæp 5% lent í vinnuslysi en rúm 6% lent í umferðarslysi. Starfsmenn í öldrunarþjónustu eru að meðaltali 15 daga fjarverandi eftir vinnutengd slys. Þetta þýðir að í þeirra hópi hafa tapast samtals 28.290 vinnudagar vegna vinnutengdra slysa. Ef við gerum ráð fyrir að að þessi fjöldi vinnudaga tapist að meðatali í öðrum vinnuslysum sem leiða til fjarvista þýðir það að vegna þeirra 1200 vinnuslysa sem Vinnueftirlitinu er tilkynnt um á ári hverju tapast samtals 18.000 vinnudagar á ári hverju. Þetta er án efa vanmat vegna þess að þarna vantar allar upplýsingar um vinnuslys í flugi og slys á sjómönnum en þau eru skráð annars staðar (Rannsóknarnefnd sjóslysa og Rannsóknarnefnd flugslysa), auk þess sem rökstuddur grunur er um að nokkur fjöldi vinnuslysa sé ekki tilkynntur.

Hvaða vinnuslys ber að tilkynna? Þessu er skipt í tvennt. Annars vegar slys eða eitrun sem ekki veldur langvinnu eð varanlegu heilsutjóni en í því tilviki ber atvinnurekanda eða fulltrúa hans að tilkynna Vinnueftirlitinu slysið sem fyrst og eigi síðar en innan 14 daga frá slysadegi. Sé hins vegar mögulegt að slys eða eitrun geti valdið langvinnu eða varanlegu heilsutjóni ber að tilkynna slysið til lögreglu og Vinnueftirlitsins eins fljótt og hægt er og ekki síðar en innan sólarhrings. Byggt á þessum tilkynningum hefur Vinnueftirlitið rekið Vinnuslysaskrá frá 1980. Í henni eru nú upplýsingar um 13.607 vinnutengd slys þar af 111 banaslys. Fjörutíu prósent af þessu slysum eru á fólki sem er 30 ára eða yngra.Á móti hverri einni konu sem slasast í vinnuslysi slasast þrír karlar. Þetta hlutfall er þó breytilegt eftir aldri; þannig slasast fjórir karlar fyrir hverja konu á aldrinum 20 til 40 ára en eftir fertugt slasast tveir karlar fyrir hverja konu. Banaslysin eru flest hjá þeim sem eru á milli 20 og 30 ára aldurs. Á þessu er þó önnur hlið því hjá þeim sem eru yngri en 40 ára eru um 6 banaslys fyrir hver 1000 tilkynnt vinnuslys en um 11 banaslys fyrir hver 1000 tilkynnt vinnuslys hjá þeim sem eldri eru. Þetta bendir til þess að slys hjá þeim sem eldri eru séu almennt mun alvarlegri.

Hvaða atvinnugreinar?

Í hvaða atvinnugreinum urðu þessi tilkynntu vinnuslys? Á þessu rúma 20 ára tímabili hafa flestar tilkynningar um vinnuslys borist frá byggingariðnaðinum eða um 12 % og frá fiskvinnslu einnig um 12 % allra slysa, síðan málmsmíði, vélavinnu, skipasmíði og viðgerðum um 9% allra vinnuslysa. Dæmið lítur ögn öðruvísi út ef litið er til látinna í vinnuslysum. Í landbúnaði urðu flest banaslys við vinnu eða 30 (27%), þá byggingariðnaður 22 (20%) og þá flutningastarfssemi 12 (11%).

Til hvers að skrá slys?

Til hvers er verið að skrá slys? Markmið skráningar er fyrst og fremst að afla upplýsinga um hættur. Við getum illa varist þeim hættum sem eru óþekktar! Ljóst er að tilkynnt vinnuslys eru ekki nema brot af minni slysum og óhöppum sem verða á vinnustöðum að ógleymdum óhöppum sem við lá. Mikilvægt er að vinnustaðir haldi skrá um þetta til þess að þeir geti unnið stöðugt að endurbótum á sínu eigin áhættumati og slysavörnum. Í því sambandi er rétt að nefna að slysavarnir sem byggja á áhættumati sem, ef vel á vera, þarf að vera unnið kerfisbundið og af haldgóðri þekkingu má skipta í fernt (Encyclopaedia of Occuaptional Health and Safety , 56.33 ILO 1998).

1. Eyða hættu ef hægt er þannig að ekki sé lengur hætta á líkams- eða eignatjóni.
2. Tryggja að starfsmaður (menn) og búnaður sé ekki í námunda við hættuna. Hættan er enn fyrir hendi en hún er aðskilin frá starfsmönnum.
3. Koma upp varnarbúnaði, eins og til dæmis eldvarnarveggjum, láta starfsmenn nota viðeigandi hlífðarbúnað til þess að minnka líkur á að tjón hljótist af slysum ef þau verða.
4. Aðlaga sig að áhættunni. Til dæmis með því að koma upp varúðarmerkingum, eftirlitsbúnaði, kennslu í hvernig á bregðast við hættuástandi o.s.frv. Þessi þáttur fjallar um það hvernig við eigum að lifa með hættu og glíma við hana þegar á þarf að halda.

Það er ljóst að þessi fjögur atriði spila saman, en þegar verið er að vega og meta aðgeðrir gegn áhættum á vinnustöðum og reyndar annars staðar þá er nálgun sem þessi viðeigandi og rétt að gera hana í þessari röð. Mikilvægt er að hugsa um þetta í samhengi við öryggi vinnustaðarins. Það er nauðsynlegt að bæði atvinnurekendur og starfsmenn hafi skilning á því að öryggismál eru jafn mikilvæg og allir aðrir hlekkir í starfseminni. Starfsmenn og stjórnendur verða að þekkja hættur og mögulegar hættur en slíkt gerist ekki nema að menn þekki til hlítar starfsemina sem stunduð er. Jafnframt þarf að hvetja starfsmenn til að hegða sér með öruggum hætti og kenna þeim að takast á við hættur og meta hættur rétt með tilliti til vinnustaðar síns og þeirra sem þar eiga leið um. Mikilvægt er að alltaf sé valið það vinnuumhverfi sem er hættuminnst m.t.t. þess verks sem framkvæma þarf, samhliða því að öryggisbúnaður sé tryggður og að persónuhlífar séu notaðar. Hluti af þessu er að tryggja eðlilegt viðhald á tækjum og búnaði og að búnaður sé stilltur miðað við þarfir notenda. Í þessari upptalningu er rétt að minna á að viðbrögð við náttúruhamförum eða stórslysum, s.s. eldsvoðum þurfa alls staðar að vera þekkt og kynnt öllum starfsmönnum til þess að reyna koma í veg fyrir slys á fólki.

Helstu orsakir vinnuslysa

Hverjar eru orsakir vinnuslysa? Algengustu orsakir, samkvæmt tilkynningum til Vinnueftirlitsins eru orsakir sem tengjast vinnusvæðinu og umhverfi þess (30%), en þar eru lausir stigar, verkpallar tæki og búnaður, sem eru á vinnusvæðinu stærstu liðir. Þegar rætt er um vinnuumhverfi ber þess að geta að starfsmenn þurfa að hafa góða yfirsýn yfir það, hávaði má ekki vera það truflandi að hann hamli samskiptum og komi þannig í veg fyrir að varnaðarorð heyrist. Umgengni um vinnusvæði þarf að vera góð, tæki og búnaður þarf að vera á réttum stöðum og ræst með fullnægjandi og viðeigandi hætti. Aðrar orsakir eru ýmsar iðnaðarvélar (13%) og handverkfæri (11%). Í hverju eru óhöppin fólgin? Fall á jafnsléttu og fall af hærri stað taka til um 30 % slysanna og skiptast nokkuð jafnt í þessa tvo flokka. Næstalgengastir eru áverkar sem fela í sér að starfsmaður hefur fengið á sig högg (18%), hafi klemmst (15 %) eða skorið sig (14 %). Þegar þetta er skoðað saman þarf ætíð að líta til þess hvað gerðist sem leiddi til slyss? Langoftast er þar um röð atburða að ræða. Til dæmis að efni hafi verið gallað, bilun í eða skortur á öryggisrofa eða búnaði, ónóg þjálfun starfsmanna. Þetta leiðir sjónum að því að viðbrögð starfsmanns eru alltaf mikilvæg í þessari orsakakeðju en slíkt undirstrikar að nokkurn gaum þarf að gefa að starfsmanninum í þessu mati. Það fyrsta sem máli skiptir er menntun og reynsla. Ófaglærðum, reynslulitlum starfsmönnum er hættara við slysi eða óhappi en öðrum. Þannig er um helmingur vinnuslysa ófaglærðra iðnaðarmanna á fyrsta starfsári þeirra en um fjórðungur vinnuslysa faglærðra iðnaðarmanna, samkvæmt vinnuslysaskrá Vinnueftirlitsins. Heilsa og heilsufar, skiptir einnig miklu máli. Þannig er hættulegra fyrir starfsmenn, sem eru veikir, að sinna tilteknum verkum. Þess vegna eru gerðar þær kröfur til manna, sem vinna hættuleg verk, að þeir hafi góða heilsu. Í þessu sambandi má minna á gildi góðrar heyrnar, sjónar og dómgreindar. Hvíld er öllum nauðsyn til þess að vera í stakk búnir til að sinna vandasömum verkum. Þannig eru skýr ákvæði um vinnutíma og kröfur um lágmarkshvíld meðal mikilvægustu ákvæða til þess að draga úr vinnuslysum. Þetta leggur líka þá kröfu á starfsmenn að þeir noti frítíma sinn til þess að hvílast nægjanlega en mæti ekki þreyttir í vinnu eftir helgar- eða kvöldskemmtanir. Í fyrrgreindri könnun á starfsfólk í öldrunarþjónustunni eru þeir sem misnota áfengi mun líklegri til þess að lenda í vinnuslysum en aðrir; staðreynd sem þeir sem vinna í áhættusömum störfum þurfa að gera sér grein fyrir. Það verður ekki skilið við mannlega þáttinn í vinnuslysum án þess að nefna mikilvægi góðra vinnufélaga. Góðir, velþjálfaðir vinnufélagar, með reynslu og færni, á vinnustað þar sem er góð samvinna allra, bæði stjórnenda og annarra starfsmanna, og þar sem áhættumat er gert með reglubundnum hætti er mikilvæg slysavörn.

Hér fyrir neðan er safn af spurningum úr heftinu Vinnuvernd sem tekur einvörðungu stutta stund að fara í gegnum. Ég vil hvetja alla á vinnumarkaði að fara í gegnum þessi atriði á vinnustað sínum.

1. Eru öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður á þínum vinnustað?
2. Eru viðeigandi persónuhlífar tiltækar, notaðar og í lagi?
3. Er viðeigandi öryggisbúnaður á vélum í lagi? Er nauðsynlegur einangrunar- eða útblástursbúnaður fyrir hendi?
4. Eru leiðbeiningar um vélar og tækjabúnað á íslensku aðgengilegar?
5. Ef unnið er með varasöm efni á vinnustaðnum:
Eru öryggisleiðbeingar tiltækar?
Er augnskolunarbúnaður fyrir hendi?
Er um mengunarvandamál að ræða?
6. Er nýliðum leiðbeint um öryggisatriði?
7. Er umgengni í lagi?
8. Er ræsting í lagi?
9. Er hávaði undir leyfilegum mörkum?
10. Er sjúkrakassi og kunnátta í skyndihjálp á staðnum?
11. Eru óhöpp/slys skráð og rædd?
12. Er tilkynnt um vinnuslys til Vinnueftirlitsins eftir settum reglum?

Tilkynningarblöð um Vinnuslys er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins

Grein þessi er byggð á:

Stellman, JM (ritstjóri) Encyclopeadia of Occupational Health and Safety. 4th edition. International Labour Office Geneva 1998.
Bergmann, H. Vinnuvernd 3. Útgáfa, endurskoðun Stefánsdóttir HK,. Vinnueftirlit ríkisins, Prentsmiðjan Grafík, Reykjavík 2000.
Vinnueftirlitið. Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks í öldrunarþjónustu Reykjavík 2001.
Zucconi A og félagar . Health Promotion at the workplace, Istituto dell approccio centrato sulla persona, Róm 2001.
European Agency for safety and health: http://osha.eu.int/ew2001.
Vinnuslysaskrá Vinnueftirlits ríkisins