Varasamir sveppir á Íslandi

Eftirfarandi þankar eru settir á blað af því tilefni, að á bráðamóttöku Landspítalans komu tveir einstaklingar á sama sólarhringnum með alvarlegar eitranir eftir að hafa neytt sveppa er þeir höfðu fundið úti í náttúrunni. Annar hafði aðeins neytt fáeinna sveppa. Hann kom inn með eitrunareinkenni frá meltingarfærum, hjarta og miðtaugakerfi. Hinn hafði etið svo tugum skipti af sveppum og samtímis reykt smávegis af kannabis. Hann var meðvitundarlaus við komu. Þegar hann var magaskolaður kom upp úr maga hans fjöldi ómeltra sveppa. Má leiða getum að því, hvernig farið hefði, ef hann hefði náð að melta alla þá sveppi. Annar neytti sveppanna mest af fikti, án þess að gera sér grein fyrir því að það gæti verið hættulegt, hinn til þess að komast í vímu.

Sumar þeirra sveppategunda, sem þegar er vitað að finnast hér á landi, geta greinilega verið varasamar til átu vegna þess að í þeim eru efni, sem eru mannslíkamanum óholl og trufla starfsemi hans. Neysla þeirra getur leitt af sér ýmisskonar truflanir á líkamsstarfsemi, vægar eða jafnvel alvarlegar eitranir. Sérstaklega eitraðar eru þær sveppategundir, sem í er hið hættulega eitur cyclopeptide, en það veldur oft lífshættulegum lifrarskemmdum. Sumar af vægari sveppaeitrunum geta valdið geðrænum einkennum/truflunum, svo sem ofskynjunum. Vitneskja um þetta er útbreidd meðal vímuefnaneytenda hér á landi og sumir þeirra fara af stað í ágústmánuði, september og fram í október til þess að leita að sveppum, sem þeir telja sig vita að í sé Psilocybin, og neyta þeirra. Hvort þeir svo þekkja þessa sveppi frá öðrum, sem í eru önnur skaðleg efni, er sjálfsagt undir hælinn lagt. Því má búast við, að með þeim sveppum, er þeir neyta, geti slæðst sveppir, er í eru önnur virk eitruð efni. Sveppnum Conocybe filaris, sem algengur er í Ameríku og í er hið hættulega eitur cyclopeptid, er oft ruglað saman við litla brúna mykjusveppinn Psilocybe coprophilia með alvarlegum afleiðingum fyrir þann sem fyrir því verður. Sömuleiðis villast vímuefnaneytendur þar í álfu oft annars vegar á sveppunum Amanita muscaria og Amanita pantherina, sem í eru mucarin, iboten-sýra og muscimol sem að vísu eru eitur, en mun vægari og hættu minni en cyclopeptide, og hins vegar á hinum lífshættulegu ættingjum þeirra, sveppunum Amanita phylloides, Amanita virosa og Amanita verna, er allir hafa að geyma lifrareitrið cyclopeptide.

Sveppaneyslan getur vel verið aðeins hluti af vímuefnaneyslunni og með sveppunum sé neytt annarra vímuefna, sem breyta einkennum þeirrar eitrunar er sveppirnir valda. Sem dæmi má nefna kannabis með sveppunum, stóra skammta af andkólínvirkum lyfjum (t.d. Artane) eða sjóveikistöflum til þess að fá með því atropin-eitrunareinkenni svo sem ofskynjanir, en þær eru aukaverkanir stórra skammta af þessum lyfjum. Eða menn ætu sveppina með LSD í þeim tilgangi að drýgja það. Mörg önnur vímuefni gætu komið til greina og erfitt að átta sig á því, hvaða efni fjöl-vímuefnaneytendum dettur í hug að taka inn samtímis.

Albert Hoffman, sá hinn sami og fann LSD, einangraði Psilocybin í sveppum árið 1958, en meðal Azteca þekktust áhrif sveppa, er í var þetta efni, mörgum öldum áður. Þeir nýttu sér þau til þess að komast í annarlegt ástand við trúarathafnir.

Skynvilluáhrif efnisins eru svipuð áhrifum LSD, en Psilocybin er 200 sinnum veikara að verkun en LSD og verkar skemur. Ekki er að fullu vitað hvernig Psilocybin veldur ofskynjunum, en álitið er, að það breyti magni indolsambanda í heilanum, þar á meðal magni Serotonins.

Um það bil 20-30 mínútum eftir að sveppanna hefur verið neytt koma fram Psilocybin-áhrif, svo sem roði í andliti, slökun vöðva, aukinn hjartsláttarhraði, útvíkkun sjáaldra, munnþurrkur og ógleði. Skyntruflanir koma meðal annars fram í miklum afbökunum á rúm- og tímaskyni svo og geðslagsbreytingum. Stórir skammtar geta framkallað ofsjónir og afbakanir á snerti- og sársaukaskyni. Afbakanir skynjunar af völdum Psilocybins geta verið skemmtilegar og þægilegar fyrir neytandann, en þær geta líka verið mjög ógnvekjandi, valdið ofsahræðslu og jafnvel framkallað bráðasturlun. Andlit vina, ættingja og ókunnugra geta virst breyta um lit eða lögun, eða skyndilega elst ógnvænlega. Þetta getur gerst meðan á neyslu sveppanna stendur eða eftir á og staðið yfir lengi.

Bráða víman af völdum Psilocybins varir í um það bil 6 klukkustundir. Eftir hana kvarta neytendurnir oft um lasleika, mjög mikla þreytu og djúpt þunglyndi. Krampar virðast stundum geta komið eftir Psilocybin-eitrun, einkum þó hjá börnum.

Meðferðin á Psilocybin-vímu er fyrst og fremst fólgin í því að sitja yfir sjúklingnum, tala hughreystandi og róandi við hann, ef hann verður óttasleginn og órólegur. Best er að reyna að komast hjá því að gefa honum róandi lyf. Verði ekki hjá því komist er öruggara, vegna krampahættu, að nota díasepam frekar en fentíazín. Leiki einhver vafi á því, hvers konar sveppi sjúklingurinn át, er rétt að magaskola hann og gefa lyfjakol.

Helstu sveppategundirnar, sem ég veit að finnast hér á landi og í eru efni, sem valdið geta alvarlegum eitrunum eða ýmisskonar truflunum á líkamsstarfsemi, eru:

1. Meldrjóli (claviceps purpurae). Hann sést stundum hér á melgresi og myndar þar þá svarta aflanga drjóla, sem eru ummynduð frækorn og eru eitraðir vegna ergotamins sem sveppirnir mynda og getur það m.a. valdið geðrænum einkennum. Langt aftur í aldir, allt aftur til Assyríumanna 600 fyrir Krist, þekkjast frásagnir af eitruðu korni, sem olli undarlegum sjúkdómum/eitrunum hjá þeim er neyttu þess. Frá miðöldum eru til frásagnir af faröldrum af ergot-eitrunum þar sem einkennin voru gangren á höndum, handleggjum, fótleggjum og fótum. Í alvarlegum tilfellum urðu dauðir vefirnir þurrir og svartir eins og á múmíum. Limir gátu þá auðveldlega brotnað af án þess að blæddi. Þar sem þessum breytingum vefjanna fylgdi oft sár sviði og brunaverkur var ekki óeðlilegt að menn kenndu þetta einhvers konar „heilögum eldi“. Önnur einkenni, er fylgt gátu langvarandi ergot-eitrun, voru fósturlát hjá konum og krampar.

2. Berserkjasveppur (amanita muscaria) er oft stórvaxinn, með allt að 20 sm breiðum hatti og álíka háum staf. Hatturinn er blóðrauður. Í fyrstu er hann meira og minna þakinn hvítum hululeyfum, er síðar mynda flögur á yfirborði hans og hverfa oft með aldrinum, því að þær skolast af í regni. Fanir eru mjög þéttar, hvítar eða gulhvítar með hjölkenndri egg. Stafurinn er einnig hvítur og dálítið mélugur ofan til, með gulhvítum hangandi kraga, oftast með greinilegum hnalli. Holdið hvítt, en gult undir hatthúðinni, nær lyktarlaust, mjúkt viðkomu. Vex í skógum, kjarrlendi og hrísmóum og virðist fylgja eftir birki og fjalldrapa. Berserkjasveppir eru dæmigerðir eitursveppir. Innihald þeirra af eiturefnum er mismunandi og fer að einhverju leyti eftir vaxtarstöðum. Meðal ýmissa þjóða í Síberíu hefur hann verið notaður sem nautnameðal. Í honum eru nokkur eiturefni í mismunandi miklum mæli, og verka þau á mismunandi líffæri. Kunnast eiturefni í berserkjasveppunum eru muscarin. Þótt það hafi fyrst verið verið einangrað í berserkjasveppnum, Amanita muscarina, er muscarinið þar í svo litlu magni, að það getur tæplega eitt sér borið ábyrgð á hinum verulegu og stundum alvarlegu eiturverkunum hans. Eiturverkanir sveppa af þessari og skyldum tegundum stafa frá anticholinergiskum áhrifum og skynvilluframkallandi áhrifum ýmissa isoxazol-sambanda, ibotensýru, muscimol og muscazon. Ibotensýran líkist glutaminsýru og líkir eftir ýmsum áhrifum hennar. Hún umbreytist í muscimol, en það líkist GABA og dregst því auðveldlega að GABA-viðtækjum taugafrumna.

Þessi þrjú sveppaeitur valda m.a. einkennum sem oft byrja með syfju, en síðan kemur vímuástand, samfara pirringi, óróleika, skyntruflunum og óráði. Skyntruflanirnar geta birst þannig, að smáhlutir virðast risastórir og nálægir hlutir virðast óralangt í burtu. Stundum koma missýnir eða ofsjónir.

Öryggisleysi í hreyfingum, þvoglumælgi, sundl, höfuðverkur og vöðvakippir eða vöðvakrampar fylgja gjarnan geðrænu einkennunum. Toniskir-kloniskir krampar og dauðadá getur fylgt alvarlegum eitrunum, einkum hjá börnum. Einkenni eitrunarinnar byrja að koma fram 30-90 mínútum eftir að sveppanna er neytt, ná hámarki eftir 2-3 klukkustundir, en enda oft í mjög djúpum svefni er varir 4-8 klukkustundir.

Meðferð eitrana af völdum isoxasol-sambanda er fyrst og fremst fólgin í að magaskola og kola sjúklinginn, veita honum hjúkrun og stuðning. Atropin er varhugavert, því að það getur beinlínis aukið á áhrif ibotensýru og muscimols. Atropin ætti því ekki að nota. Krampa má meðhöndla með venjulegum krampastillandi lyfjum, en rétt er að fara varlega í að nota díazepam, þar eð dýratilraunir hafa gefið vísbendingar um, að þessi eiturefni geti samverkað með því og valdið öndunarlömun.

Muscarin finnst í mun meira magni í sveppum af ætt hærusveppa (Inocybe). Einkenni Muscarin-eitrunar koma fram 30-60 mínútum eftir að sveppurinn var etinn. Þau lýsa sér m.a. með munnvatns- og tárarennsli, ógleði, uppköstum, krampaverkjum í kviði, niðurgangi, höfuðverk, sjóntruflunum, andþrengslum, fækkun eða óreglu hjartaslaga, blóðþrýstingsfalli er getur endað í losti.

Atropin gefið í vöðva, 1-2 mg í einu á 30 mínútna fresti, kemur að mestu í veg fyrir þessi einkenni.

3. Slöttblekill (coprinus atramentarius) er varasamur, því að í honum er efni, sem bindur aldehyddehydrogenasa og verkar því eins og antabus ef áfengis er neytt með sveppnum.

4. Klukkusveppir (paneolus). Hér á landi eru þekktar a.m.k. 4-5 tegundir og eru nokkrar þeirra mjög algengar. Engin þeirra er æt, en í einhverjum þeirra er líklega psilocibin, þótt það sé eitthvað umdeilt, að minnsta kosti í Bandaríkjunum þar sem sveppir þessarar tegundar eru algengir.

Klukkusveppir eru meðalstórir með bjöllulaga hatti. Hattur og stafur venjulega samlita, brúnir eða grábrúnir. Fanir oftast áberandi svartflekkóttar vegna þess að gróin þroskast misjafnlega hratt. Sveppirnir vaxa oftast á taði eða vel töddum jarðvegi. Ein af þessum tegundum er gráklukkusveppur (paneolus campanulatus / sphinctrinus). Hann er allur grábrúnn eða leðurbrúnn, oft með grásvörtu barði sem stundum er með hvítum hengslum (slæðuleyfum), stafurinn langur og grannur. Vex á hrossataðshrúgum og kúadellum. Mjög algengur um allt land.

5. Grænslíkjusveppur (stropharia aeruginosa) vex í grámosa til fjalla. Dimmgrænn nema fanirnar sem eru fjólugráar og verða síðan dökkbrúnar. Hann er talinn lítið eitt eitraður.

6. Brennisteinsheftingur (hypholoma fasciculare). Hann er með brennisteinsgulan hatt og gulgrænar fanir. Hefur fundist í görðum í Reykjavík. Talinn varasamur til átu.

7. Peðsveppir eru smávaxnir, oft með feitiglansandi hatti sem oftast er brúnleitur, hvolflaga eða topplaga. Fanirnar breiðar, oftast aðvaxnar, verða dimmbrúnar við þroskann. Gróin brúnsvört með kímgati. Vaxa á jarðvegi, taði eða ýmsum rotnandi efnum. Af þessari ætt eru t.d. Taðpeðla (psilocybe coprophilia). Þetta er örlítill sveppur með grábrúnum hvelfdum, feitiglansandi hatti, sem verður gulbrúnn við þurrk. Stafurinn er stuttur, um 1 sm að lengd, oft með gráum háraflösum. Vex á kúaskánum og ýmsum öðrum skít. Í sveppnum er Psilocybin og þarf 30-200 ferska sveppi til þess að valda ofskynjunum.

8. Af kögursveppaætt (cortinariaceae) er ættkvíslin hærusveppir (inocybe). Af henni eru til mjög eitraðar tegundir, þar af nokkrar hér á Íslandi, þó ekki mjög eitraðar. Í þessum eitruðu tegundum er muscarin eins og í berserkjasveppnum, en líklega í meiri mæli. Af hærusveppa-ættkvíslinni finnast a.m.k. 20 tegundir hér á landi. Þetta eru litlir eða meðalstórir sveppir. Hatturinn oftast topplaga (keilulaga), en réttist stundum upp við þroskann og verður knýfður, klæddur geislalægum meira eða minna inngrónum hárum, oftast brúnleitum, oft rifinn á barðinu. Fanirnar gráar eða grábrúnar, enda er gróduftið grábrúnt eða tóbaksbrúnt. Stafurinn oftast mélugur ofan til, en þráðóttur neðan til. Oft með sérkennilegri sæðiskenndri lykt. Vaxa í alls konar gróðurlendum, mest þó í mólendi, mýrlendi og snjódældum til fjalla.
Topphæringurinn (inocybe fastigata),
gráhæringurinn (inocybe lacera),
rauðhæringurinn (inocybe dulcamara) og
fóthæringurinn (inocybe decipens? ) finnast allir hérlendis. Þeir eru allir eitthvað eitraðir, en hættulegasta tegundin, Inocybe patouillardii, hefur ekki fundist hér á landi enn svo að vitað sé.

9. Af kögursveppaætt (cortinariaceae) er einnig ættkvíslin stubbasveppir (poliota). Eitthvað vex hérlendis af sveppum þeirrar ættkvíslar, t.d. hverfisveppur (poliota mutabilis) og logasveppir (poliota alnicola/apicrea). Talið er að af stubbsveppaættkvíslinni séu sveppir, sem í er Psilocybin, en ekki veit ég, hverjir það eru. Þessi upptalning er ekki á neinn hátt tæmandi og vafalaust eru margar tegundir sem ég hvorki þekki né hef haft spurnir af.

Að lokum þetta:

Tegundum fjölgar stöðugt í sveppaflóru landsins. Þess má vænta að sú fjölgun haldi áfram. Meðal þeirra sveppa, sem þar er nú þegar að finna, eru óhollar og eitraðar tegundir. Þær er ekki alltaf auðvelt að greina frá skaðlausum sveppum. Neysla þeirra getur valdið alvarlegum eitrunum eins og dæmin sanna. Fíklar leita uppi sveppi, sem þeir telja að í séu vímuefni, og neyta þeirra einna sér eða í bland með öðrum vímuefnum til að komast í vímu. Unglingar, jafnvel börn, kunna að neyta sveppa af fikti án þess að gera sér grein fyrir hættunni. Hvenær sem er geta borist hingað ennþá eitraðri tegundir frá öðrum löndum. Því er brýnt að yfirvöld beiti sér fyrir rannsókn og skráningu á sveppaflóru landsins og láti kanna innihald sveppanna af eitruðum efnum.

Heimildir:

Goodman & Gilman’s: The Pharmacological Basis of Therapeutics, 8. útgáfa, 1992.
Helgi Hallgrímsson: Sveppakverið, Garðyrkjufélag Íslands, Rvk. 1979.
Henning Knudsen: Politikens Svampebog, Politiken Forlag, 4. útg. 1992.
M. Lange: Soppflora,NKS-Forlaget, 4. útg. 1981.
J. F. Lassen, H. B. Ravn & S. F. Lassen: Hallucinogene psilocybinholdige svampe; Ugeskrift for Læger, 152/5, Jan. 1990.