Val á skólatösku

           

 

Senn líður að hausti og skólasetning á næsta leiti í grunnskólum landsins.  Það er ýmislegt sem tilheyrir þessum árstíma og sérstaklega skólabyrjun.  Börnin okkar eru sum að fara í fyrsta skipti í skóla full af spenningi og tilhlökkun.  En það er að mörgu að huga, eins og til dæmis að velja skólatösku. 

 

Skólatöskur eru til margar og mismunandi og mikilvægt að velja tösku fyrir barnið sem hentar því. Þá er mikilvægt að hafa í huga að taskan passi vel á bak barnsins, sé hvorki of síð eða breið, of hörð eða of mjúk. Taskan ætti ekki ná lengra niður en að neðri hlulta lendarsveigjunnar. Einnig þarf hún að liggja vel að baki barnsins en má ekki hanga langt aftur á bak.

 

 

 

Bak töskunnar

 

Æskilegt er að bakið sé ekki alveg stíft og ekki alveg mjúkt eða ófóðrað en sitji vel að baki barnsins. Það þarf að vera vel fóðrað og halda lögun sinni jafnvel þó taskan sé lögð til hliðar.

 

Alveg hart bak getur meitt barnið þar sem taskan liggur að baki þess. Það getur svo leitt til þess að barnið vill ekki hafa töskuna eða fer að bera hana öðruvísi en til er ætlast og auka þannig álagið á líkama sinn (bakið).

 

Ófóðrað bak: Ef taskan hefur alveg lint eða ófóðrað bak er hætta á að hún liggi ekki nægilega vel að baki barnsins og það komi óheppilegt, ójafnt tog á axlarólarnar sem flyst yfir á bak barnsins. Einnig má benda á að bækur fara ekki vel í töskum sem geta kuðlast alveg saman.

 

 

 

Axlarólarnar

 

Axlarólarnar á töskunni eru sá hluti hennar sem flytja þunga töskunnar yfir á bak barnsins. Til þess að axlarólarnar séu þægilegar ættu þær að vera nokkuð breiðar og vel fóðraðar (mjúkar). Grannar axlarólar meiða barnið í axlirnar þegar búið er að setja bækur í töskuna. 

 

Mikilvægt er að auðvelt sé að stilla axlarólarnar á töskunni. Þá er auðvelt að breyta um stillingu þannig að taskan sitji vel á baki barnsins sem á að bera töskuna. 

 

Sumar töskur eru einnig með mittisól sem  er mjög góður kostur. Mittisólin er höfð í hæð við efri brún mjaðmarspaðanna og stillt þannig að mestur þungi töskunnar hvíli á mjöðmunum en ekki á öxlunum um axlarólarnar. Þannig verður enn þá minna álag á bak barnsins en þunginn færist beint yfir á fætur þess.

 

 

 

Leikfimitaska

 

Ekki má gleyma því að barnið þarf einnig að hafa tösku fyrir leikfimifatnað í skólann þá daga sem leikfimi er á stundaskránni.  Margar skólatöskur eru komnar með aukatösku fyrir leikfimifötin sem hægt er að smella af þá daga sem ekki er leikfimi.  Aðrar töskur hafa innbyggt sér hólf fyrir leikfimifötin. Þessar töskur geta verið góð lausn því þá hefur barnið allt á bakinu í einum bakpoka en þarf ekki að bera með sér hliðartösku eða aðra tösku sem situr ekki vel. Þegar búið er að bæta við aukatösku til hliðar eða annars staðar hefur það áhrif á þyngdarmiðju barnisns annað hvort lengra aftur á bak eða út til hliðar en það eykur álagið á bak barnsins umtalsvert. Það þarf því að hafa í huga hvernig sem leikfimitaskan er útbúin að þyngdarmiðja barnsins raskist ekki mikið. Að mestur þunginn sé nálægt líkama barnsins og taskan leiti ekki aftur á bak frá baki barnsins eða til hliðanna.  

 

Þyngd töskunnar

 

Eigin þyngd töskunnar ætti að vera sem minnst. Bækur eru þungar og því þarf ekki margar bækur til þess að taskan verði nokkuð þung. 

 

Þegar barnið er byrjað í skólanum er mikilvægt að fylgjast vel með því hvað það þarf að hafa  með sér í skólann á hverjum degi. Það er mikilvægt að passa uppá að það sé ekki að bera meira með sér en nauðsynlegt er. Í sumum skólum hafa börnin skúffu í skólanum þar sem þau geyma þær bækur sem þau þurfa ekki að læra í heima. Í öðrum skólum geyma þau bækurnar heima sem þau þurfa ekki að nota í skólanum þann daginn. Reynum að passa uppá að börnin séu ekki að burðast með þyngri tösku en nauðsynlegt er. Ef okkur finnst taskan of þung dags daglega ættum við að skoða vel hvort eitthvað er í töskunni sem ekki þarf að vera þar eða hvort hægt væri að breyta skipulaginu á einhvern hátt. 

 

 Höfum hagsmuni barnsins að leiðarljósi við val á skólatösku.

 

 Gangi ykkur vel!

 

 Hrefna Frímannsdóttir

 

Lögg. Sjúkraþjálfari