Útskröpun á meðgöngu

 • Hvað er útskröpun?

  Útskröpun felur í sér að slímhimna legsins er skafin varlega með sogröri og innihald legsins, þ.m.t. fóstur/fósturvísir, þannig fjarlægt. Konan er svæfð á meðan aðgerðin fer fram.

 • Hvaða konur gangast undir slíka aðgerð?

  Ef fóstrið hefur dáið snemma á meðgöngu en ekki losnað frá leginu af sjálfu sér, eða hluti fósturvefsins situr eftir er gripið til þessarar aðgerðar til að koma í veg fyrir miklar eða langvarandi blæðingar eða móðurlífsbólgur. Einnig er þessari aðferð beitt ef kona óskar eftir fóstureyðingu fyrir 12. viku meðgöngu.

 • Hvernig er útskröpun framkvæmd?

  Fyrst er framkvæmd læknisskoðun þar sem gengið er úr skugga um hversu langt meðgangan er komin og hvernig ástandi konan er í. Ef konan er gengin lengra en 12 vikur á leið er ekki beitt útskröpun, nema að konan hafi þegar fætt fóstrið. Ef um fóstureyðingu er að ræða þarf einnig að leggja fram skriflega beiðni sem samþykkja ber af sérstakri nefnd áður en fóstureyðing fer fram.

  Aðgerðin sjálf er gerð í svæfingu af kvensjúkdómalækni. Hann víkkar aðeins út leghálsinn til að koma inn sogrörinu og síðan er allur fósturvefur sogaður út. Eftir fósturlát er útskafið sent í smásjárskoðun og rannsókn til að ganga úr skugga um hvort það innihaldi ekki örugglega vef úr fylgju og fóstri og stöku sinnum er hægt að sjá hver ástæða fósturlátsins hefur verið. Ekki er óalgengt að fósturlát verði vegna litningafrávika eða byggingagalla fóstursins.

 • Þarf maður að taka sér frí frá vinnu eftir útskröpun?

  Flestar konur hvílast heima daginn eftir aðgerðina en þær eru fljótar að ná sér aftur. Sumum líður þó ekki vel andlega eftir fósturlát þar sem þá er í flestum tilvikum um að ræða þungun sem reiknað er með og konan jafnvel farin að hlakka til að eignast barn. Í slíkum tilvikum er rétt að konur deili hugsunum sínum og tilfinningum með sínum nánustu eða ræði við lækni, ljósmóður, sálfræðing eða prest. Rétt er að hafa í huga að langflest fósturlát eiga sér rætur í vansköpun fóstursins en stafa ekki af því að konan hafi drukkið eða snætt einhverja ólyfjan eða gert einhverja vitleysu. Flest fósturlát verða fyrir 12. viku meðgöngu og við þeim er engin meðhöndlun til. Eðlilegt er að konan verði vör við smáblæðingar fyrst eftir útskröpun. Fari hins vegar að blæða mikið svo jafnist á við kröftugar tíðir eða ef konan fær hita og kviðverki ætti hún að leita til læknis.