Útlit

Allir hafa hugmynd um hvernig þeir vilja líta út og yfirleitt er fólk of gagnrýnið á sjálft sig.

Ef unglingar eru spurðir hvort þeir vilji breyta einhverju í útliti sínu hafa margir langan lista yfir það sem þeir vilja hafa öðruvísi, til dæmis að vera mjórri, lengri, minni, þyngri, brúnni, vöðvameiri, með minna nef, með minni eyru, með liðað hár, með slétt hár, með hvítari tennur, með færri bólur og svo mætti lengi telja.  Það er alltof sjaldgæft að unglingar séu sáttir við útlit sitt.

Spurt er:  Hvaðan koma hugmyndir okkar um æskilegt útlit?  Hvað er fegurð?
Svarið er:  Frá tímaritum, kvikmyndum, tölvuleikjum, auglýsingum, tískuverslunum og frægu fólki, svo að eitthvað sé talið.

Eru þessar fyrirmyndir raunverulegar?
Í raun ekki, þar sem myndum í tímaritum og kvikmyndum er breytt í tölvum og brellum beitt svo að fólk virðist gallalaust, tennur eru gerðar hvítari, bólur fjarlægðar, brjóstum lyft, baugar fjarlægðir, augu gerð skærari og mikil lýsing kemur í veg fyrir að misfellur sjáist í húðinni.  Stílistar, förðunarfræðingar og hárgreiðslumeistarar eiga tímunum saman við fólk áður en það birtist í sjónvarpi eða kvikmyndum.  Kvikmyndastjörnur nota jafnvel ekki eigin líkama í nærmynd og stundum stækka tölvur brjóst kvenna og breikka axlir karlmanna.

Úr barni í fullorðinn
Enginn verður fullorðinn á einni nóttu og líkaminn þroskast ekki endilega í jöfnum hlutföllum.  Allt í einu eru eyru, nef eða jafnvel haka nokkrum númerum of stór og ekki í samræmi við annað í andlitinu.  Einnig er eins og útlimir vaxi hraðar en búkur og hendur og fætur sveiflast utan á búknum eins og þeir passi þar ekki.  Þetta á sérstaklega við um stráka.  Húð og hár geta valdið pirringi vegna mikillar fituframleiðslu og varla má lyfta litla fingri án þess að svitna.

Þessar breytingar koma okkur auðveldlega úr jafnvægi og ýta undir sjálfsóánægju.  Ekki örvænta þó þér líki ekki breytingarnar.  Mundu að vinir þínir ganga í gegnum það sama og fyrr en varir kemst jafnvægi á í líkamann.  Vertu stolt(ur) af því hvernig þú ert gerð(ur) og hver þú ert.

 

Þessi grein er úr bókinni Hvað er málið