Úti alla nóttina!

Við eldra fólkið erum sífellt að segja að heimurinn sé að fara til fjandans og að frelsið og kröfurnar sem unga fólkið lifi við geri það stressað og óábyrgt. Á sama tíma og við ætlumst til að allir fari í framhaldsskóla þá er stór hópur ungmenna sem ekki lýkur við nám sitt á réttum tíma eða hættir alveg. Mörg þeirra hafa ekki úthald í að vera í skóla samhliða vinnu og skemmtanalífinu. Ég veit að margir foreldrar fara dyggilega eftir landslögum um útivist barna og ungmenna framan af en þegar í framhaldskóla kemur er eins og fjandinn sé laus.

Allt í einu þarf að vinna með skóla auk þess sem að framboð af alls kyns uppákomum hefur aldrei verið meira. Að sjálfsögðu skipta vinir miklu máli á þessum árum og oft er verið að velja sér vini fyrir lífstíð. En mér er spurn er nauðsynlegt að ungmenni séu úti heilu og hálfu næturnar? Hvaða áhrif hefur það á geðheilsu ungmenna að vaka fram eftir tvær til þrjár nætur kringum hverja helgi? Vitað er að ef einstaklingur á að standa sig vel í skóla eða vinnu er nauðsynlegt að hann fái nægilegan svefn. Sá sem vakir heilu næturnar og er kannski samhliða að neyta áfengis eða annarra vímuefna er um það bil tvo sólarhringa að jafna sig. Það þýðir að hann er orðinn sæmilega skýr á þriðjudegi og getur unnið vel þann dag og þann næsta en svo kemur tilhlökkun fyrir helgina á fimmtudegi þannig hann er ófær um að sinna náminu sem skyldi. Ekki bætir úr ef hann er einnig að vinna með skólanum eða hangir í tölvu á nóttunni. Þá er erfitt að að vakna til að fara í skólann. Undanfarin ár hafa veitingahús borgarinnar keppst við að hafa opið fram á morgun. Nóg eftirspurn virðist vera því alltaf er rætt um að fullt sé á skemmtistöðum. Það er enginn maður með mönnum nema geta sagt það í skólanum á mánudegi að hann hafi verið á djamminu til klukkan fimm eða helst sex alla helgina. Ég velti fyrir mér hvernig einbeiting er hjá þeim sem snúa sólarhringnum við?

Getur verið að brottfall úr skólum eigi sér rætur sínar í því að ungmenni eru of upptekin í vinnuþjarki eða djammi. Einnig er það umhugsunarefni hvort ekki sé mun auðveldara fyrir fíkniefnasala að ná til ungmenna sem hafa svona langan tíma í útivist. Of mörg ungmenni lenda í vanda með vímuefni eða í klóm nauðgara og bíða ævarandi skaða af. Nú gæti einhver sagt að það væri ekki á ábyrgð skemmtistaða hverjir þá sæktu heldur verði foreldrar að hafa hemil á börnum sínum. Auðvitað er það þannig að foreldrar eiga að vera fyrirmyndir og í raun ætti besta forvörnin að eiga sér stað inn á heimilunum og langoftast er það þannig. En stundum er álagið of mikið eða samskiptin ekki nógu traust. Mörg ungmenni eru líka í sjálfstæðisbaráttu og láta foreldra vita að þau séu fullfær um að sjá um sig sjálf. Hvernig líður foreldrum þessara ungmenna? Er öllum sama eða getur verið að margir foreldrar sé vakandi heilu og hálfu næturnar að bíða eftir börnum sínum? Hvernig áhrif hefur það á geðheilsu þeirra? Getur verið að ef andvökunóttum foreldra fylltar kvíða og áhyggjum myndi fækka þá yrðu færri þunglyndir? Gæti verið að ef ungmenni fengju nógan svefn og hefðu meiri eirð heima fyrir ættu þau auðveldara með að einbeita sér og þá myndu færri detta út úr framhaldsskóla?

Ég tel að það sé umhugsunarefni fyrir samfélagið hvernig við búum í haginn fyrir þá sem erfa eiga landið. Nú er oft rætt um að það þurfi heilt þorp til að aðla upp einn einstakling. Ég vil því ganga svo langt að segja að það ætti að vera sameiginleg ákvörðun að líða ekki ungmennum að vera úti alla nóttina og eiga á hættu að eyðileggja framtíðardrauma sína. Þar gæti t.d. Reykjavíkurborg verið í forsvari með því að stytta á nýjan leik opnunartíma skemmtistaða og hlúa þannig betur að fjölskyldunni.

 

 

 Frá Landlæknisembættinu