Utanlegsfóstur

 • Hvað er utanlegsfóstur?
  Það er nefnt utanlegsfóstur þegar frjóvgað egg festist utan við legið, á eggjastokkum, leghálsi, kviðarholi eða eggjaleiðara en það síðastnefnda er algengast. Yfirleitt eru utanlegsfóstur ekki lífvænleg og í flestum slíkum tilvikum þroskast fóstrið ekki með eðlilegum hætti. Í allt að 70% tilvika verða til litningafrávik sem hamla því að líf kvikni. Í helmingi tilvika eyðast utanlegsfóstur af sjálfu sér. Í öðrum tilvikum verður að gera skurðaðgerð eða beita lyfjameðferð. Þegar verst lætur getur utanlegsfóstur verið konum lífshættulegt.

 • Hver eru einkenni utanlegsfóstra?

  Algengustu einkenni utanlegsfósturs eru:

  • Tíðahlé, verkir í móðurlífi eða kvið
  • Blæðingar
  • Niðurstöður þungunarprófs eru jákvæðar.
 • Myndin sýnir þversnið af kviðarholi konu. Utanlegsfóstrið er upp við eggjaleiðarann (ör)

  Utanlegsfóstur þróast í upphafi eins og um eðlilega meðgöngu væri að ræða og venjuleg einkenni þungunar gera vart við sig, svo sem spenna í brjóstum og ógleði. Sumar konur fá þó engin slík einkenni og hjá þeim vaknar því enginn grunur um þungun. Blæðingar geta verið mismiklar. Stundum bara brúnleit útferð en í sumum tilvikum geta þær verið eins og venjulegar tíðir. Þungaðar konur sem finna fyrir langvarandi seyðingi í móðurlífinu, oftast öðrum megin, verkjum í leginu eða kviðnum sem eiga það til að hefjast skyndilega eiga í öllum tilkvikum að leita læknis. Þetta er mikilvægt, því utanlegsfóstur getur verið lífshættulegt. Ofannefnd einkenni orsakast af því að utanlegsfóstrið er að fara, en það getur valdið innvortis blæðingum í kviðarholi.

 • Hvað getur maður gert sjálfur ef grunur um utanlegsfóstur vaknar?

  Ef þú ert þunguð og færð ofannefnd einkenni áttu strax að leita læknis. Þó er rétt að hringja á sjúkrabíl – 112 – ef um er að ræða mikla og óbærilega verki í móðurlífi eða kvið.

 • Hvers vegna verður til fóstur utan legsins?

  Við eðlilega þungun flyst frjóvgað egg gegnum eggjaleiðarana inn í legið þar sem það festist við slímhúðina. Í slímhúð eggjaleiðarans eru örsmá bifhár sem ýta egginu áfram með bylgjuhreyfingum inn í legið.

 • Algengustu áhættuþættir utanlegsfósturs eru:
  • Fyrri kviðarholsaðgerðir.
  • Saga um bólgu í eggjaleiðurum (legpípubólgu), einkum vegna klamydíu.
  • Fyrri utanlegsfóstur.
  • Lykkjan.
  • Minnkuð frjósemi og glasafrjóvgun.
  • Staðbundnar skemmdir á eggjaleiðurum, til dæmis af völdum legslímuvillu og berkla.

  Ofantaldar ástæður geta valdið því, að eggjaleiðarar eyðileggjast og lokast alveg eða að hluta. Slíkt getur hent við aðgerðir á eggjaleiðurum eða í nánd við þá, svo sem við botnlangaskurð. Móðurlífsbólgur sem stafa af klamydíusýkingu geta einnig valdið skaða á eggjaleiðurum. Við það skemmast bæði fínu bifhárin og sjálfur eggjaleiðarinn vegna þess að ör myndast. Eggjaleiðarinn krækir því í frjóvgað eggið og það festist við hann. Hafi kona áður fengið utanlegsfóstur eykst áhættan á því að sami eggjaleiðari endurtaki leikinn. Ófrjósemi sem ekki stafar af lélegum sæðisfrumum getur átt rætur sínar í skemmdum á innri kynfærum kvenna. Við glasafrjóvgun er einu eða fleiri eggjum sprautað upp í leg konunnar. Við það eykst hættan á að frjóvguð eggin festist á röngum stað, þ.e. utan við sjálft legið.

 • Hvernig verkar utanlegsfóstur á konur?

  Hjá þeim flestum verða einkennin þau sömu og við eðlilega meðgöngu – blæðingar hætta, ógleði og brjóstaspenna gera vart við sig. Blæðingar eða brúnleit útferð getur komið og til er í dæminu að blæðingar líkist tíðablæðingum af vægari gerðinni. Verkir í móðurlífi eða kvið geta gert vart við sig, og þeir eiga það til að hefjast snögglega.

 • Utanlegsfóstur geta verið hættuleg.

  Skyndilegir verkir í kviðarholi, vanlíðan, svimi og yfirlið gefa alltaf tilefni til þess að haft sé samband við lækni. Slík einkenni geta orsakast af því að þungunin rofnar og við það geta orðið innvortis bæðingar.

 • Hvað getur konan gert sjálf?

  Kona sem er þunguð og finnur fyrir þessum einkennum ætti að hafa samband við lækni sem allra fyrst.

 • Hvernig greina læknar utanlegsfóstur?

  Þungunarpróf er alltaf jákvætt ef kona er þunguð en próf getur þó verið mjög óljóst ef um utanlegsfóstur er að ræða.

  Við móðurlífsskoðun kvensjúkdómalæknis kemur oft í ljós að legið er minna en lengd meðgöngu gefur tilefni til. Læknirinn getur hugsanlega fundið hnúð utan við legið, sem er aumur viðkomu.

  Við ómskoðun í gegnum leggöngin sér læknirinn hvort fóstur er inni í leginu. Sjái læknirinn það ekki vekur það grunsemdir um að það sé utan við legið eða þá að konan hafi misst fóstrið. Stöku sinnum sér læknirinn þungunina utan á leginu við ómskoðun.

  Sé kona ekki með nein einkenni, hugsanl ega með væga verki í móðurlífinu en engar blæðingar í kviðarholi, getur læknirinn ákveðið að sjá til í tvo til þrjá daga vegna þess að helmingur utanlegsfóstra eyðist af sjálfu sér án þess að þörf sé fyrir frekari meðferð. Læknirinn mælir þungunarhormónið HCG í blóðinu en við eðlilega þungun á byrjunarstigi á það að tvöfaldast á tveimur dögum, úr um það bil 1.500 í 3.000. Aukist hCG ekki á eðlilegan hátt, og hafi konan áðurnefnd einkenni, merkir það að um utanlegsfóstur er að ræða.

 • Hvernig er meðferð við utanlegsfóstri háttað?

  Hafi kona stöðuga verki í móðurlífi, blæðingar á byrjunarstigi í kviðarholi eða ef þungunarhormónið hCG er óeðlilegt mun læknirinn að öllum líkindum spegla kviðarholið til þess að staðsetja utanlegsfóstrið og nema það brott. Til þess þarf að skera þrjá skurði, hvern þeirra um 2 sm að lengd, einn við naflann og tvo ofan við lífbeinið.

  Í stöku tilviki þarf að gera svonefnda opna skurðaðgerð með þverskurði ofan við lífbeinið. Velji læknir síðarnefndu leiðina er ástæðan annaðhvort sú, að skoðun með kviðarholssjá er einhverjum tæknilegum erfiðleikum bundin, eða þá að ekki tekst að stöðva innvortis blæðingar í kviðarholi.

  Gerðar eru tilraunir í dag með að eyða utanlegsfóstri með lyfjameðferð.