Úr ársskýrslu Stígamóta árið 2000

1. Á árinu 2000 leituðu 380 einstaklingar til Stígamóta, af þeim voru 214 að leita sér aðstoðar í fyrsta skipti. Fjöldi viðtala var 1662.

2. Ofbeldismenn hafa á undanförnum 11 árum verið 4549 eða um 50% fleiri en þeir 3025 einstaklingar sem leitað hafa hjálpar hjá Stígamótum. Skýringin er tvíþætt. Annars vegar sú að stundum hafa konur verið beittar ofbeldi af fleiri en einum manni og hins vegar sú að sömu menn beita stundum fleiri en einn einstakling ofbeldi. Þeir menn geta því verið margtaldir hjá Stígamótum.

3. Hjálparbeiðnum vegna nauðgana fjölgaði úr 62 árið 1999 í 74 sl. ár eða um tæp 20%.

4. Sem fyrr stóðu sifjaspell í flestum tilfellum yfir í mörg ár. Yfir 60% þeirra sem leituðu sér hjálpar höfðu verið beitt sifjaspellum í 1-5 ár.

5. Þeir sem næstir standa konum og börnum eru þeir sem líklegastir eru til þess að beita kynferðisofbeldi. Aðeins 8.9% ofbeldismanna voru á síðasta ári ókunnugir. Vinir og kunningjar voru rúm 60%, og ¼ hluti voru feður/stjúpfeður, afar og bræður. Um 12% nauðgara voru eiginmenn/sambýlismenn.

6. Eins og sjá má af töflu 16 í ársskýrslunni eru afleiðingar kynferðisofbeldis alvarlegar.

7. Afdrif þeirra mála sem Stígamótum bárust árið 2000 voru eftirfarandi (tafla 25 úr ársskýrslunni):

Af töflunni má sjá að flest þau mál sem til umfjöllunar eru hjá Stígamótum fara aldrei neitt annað, ýmist vegna þess að þau eru fyrnd, eða að konur treysta sér ekki til þess að fara í gegnum kæruferlið.


Að lokum skal vakin athygli á endurútgáfu tveggja ítarlegra fræðslubæklinga sem skrifaðir eru af dr. Guðrúnu Jónsdóttur í samvinnu við Stígamótakonur. Bæklingarnir heita „Nauðgun” og „Sifjaspell”. Þeir fjalla um eðli og afleiðingar kynferðisofbeldis, réttarfarslega meðferð þess og um starfsemi Stígamóta, Barnahúss og Neyðarmóttöku slysadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss. Bæklingarnir eru handhægir fyrir fagfólk og almenning.

Þessir bæklingar eru til sölu hjá Stígamótum en þar er einnig veitt ókeypis viðtals- og símaþjónusta í síma 800 6868. Opið er frá kl. 9 -19 virka daga.

birt með góðfúslegu leyfi Stígamóta