Uppskrift að gleðilegum jólum

Þótt jólalög hamri á allri gleðinni og tilhlökkuninni fyrir jólin er alls ekki öllum hlátur í huga. Stress og depurð er fylgifiskur jólanna hjá sumum og kemur þar helst þrennt til: samband/sambandsleysi og samskipti við ástvini og fjölskyldu, fjárhagsáhyggjur og yfirkeyrsla sem kemur niður á hreyfingu og svefni.

Jólaös Það er ekki eintóm gleði hjá öllum í kringum jólin því að sumir finna fyrir stressi og depurð á þessum árstíma.

 Á vef bandarísku sjúkrastofnunarinnar MayoClinic er að finna tólf ráð til að koma í veg fyrir eða draga úr neikvæðum áhrifum jólahátíðarinnar sem er á næsta leiti.

Tólf ráð til varnar jólastressinu

1. Viðurkennið fyrir sjálfum ykkur líðan ykkar. Ef þið hafið nýlega misst ástvin eða þið getið ekki verið hjá þeim sem þið vilduð er eðlilegt að þið séuð döpur. Það er ekki hægt að neyða sig til að vera glaður bara af því það eru jól.

2. Leitið stuðnings. Ef ykkur finnst þið vera einangruð eða niðurdregin leitið til fjölskyldu og vina eða samfélagsins. Að hjálpa öðrum er líka ómetanlegt.

3. Verið raunsæ. Breytingar verða hjá fjölskyldum og stundum breytast hefðir. Notið leiðir tækninnar eða bara ljósmyndir til að njóta jólanna saman úr fjarlægð.

4. Gleymið öllum ágreiningi. Takið fjölskyldumeðlimum og vinum eins og þeir eru, þótt þeir séu ekki eins og þið gjarna vilduð, það er líka möguleiki að jólaáhyggjurnar hrjái þá. Lærið að fyrirgefa.

5. Gerið fjárhagsáætlun og haldið ykkur við hana. Ákveðið áður en þið farið í innkaupin hve miklu þið ætlið að eyða og getið eytt.

6. Skipuleggið tímann. Takið frá daga fyrir t.d. innkaup, bakstur og vinafundi. Ákveðið hvað þið ætlið að borða á jólunum og farið í tíma í eina allsherjarinnkaupaferð.

7. Lærið að segja nei. Ótrúlegt en satt, fólk tekur neitun gilda. Gefið aðeins grænt ljós á það sem ykkur langar til að gera. Ef það er ekki hægt að segja nei, t.d. við yfirmann, verður einhver annar „dagskrárliður“ að víkja í staðinn.

8. Ekki gleyma hollustunni. Það er allt í lagi að leyfa sér svolitla óhollustu í mat en algjört óhóf eykur á stressið og slæma samvisku. Fáið ykkur hollan bita áður en þið farið í jólaboð og ekki gleyma hreyfingunni og góðum nætursvefni.

9. Takið ykkur smáhvíld. Bara að hvíla sig í 15 mínútur frá áreitinu getur gert gæfumuninn. Farið t.d. í göngutúr og hlustið á róandi tónlist, allt til að hægja á önduninni og kyrra hugann.

10. Hugsið dæmið upp á nýtt. Leiðir sem virtust rétta lausnin geta verið kolrangar ef þær eru óraunsæjar.

11. Fullkomnun er fráleit. Farsæl endalok verða ekki á tveimur tímum eins og í sjónvarpinu því það kemur alltaf eitthvað upp: Þið gætuð tafist í vinnunni og misst af leikritinu hjá börnunum, systkin gætu ýft upp gömul sár, makinn brennt kökurnar í ofninum og mæður gagnrýnt barnauppeldið, og það allt á sama degi. Gerið ykkur grein fyrir því að enginn er fullkominn, ekki heldur þið.

12. Leitið til sérfræðings ef það þarf. Ef depurðin stendur í lengri tíma, örvænting, svefnleysi eða vonleysi, og þið getið ekki beitt ykkur í daglegum verkum, talið þá við lækni um líðanina því um þunglyndi gæti verið að ræða.

Grein þessi birtist fyrst í Mbl. 27.nóvember 2007