Upplýsingar til sjúklinga sem fara í kransæðavíkkun

Höfundar:
Stefanía G. Snorradóttir, hjúkrunarfræðingur
Ingveldur Ingvarsdóttir, sjúkraþjálfari hjartaendurhæfingRáðgjöf:
Kristján Eyjólfsson, hjartasérfræðingur
Ragnar Daníelsen, hjartasérfræðingur

Þegar þrengsli eru í kransæðun er stundum unnt að gera svonefnda kransæðavíkkun. Fyrsta víkkunin var gerð í sept. 1977 af Dr. Andreas Grüntzig í Sviss, en slíkar aðgerðir hófust á Íslandi árið 1987.

Hvað er kransæðavíkkun?

Kransæðavíkkun getur verið árangursrík meðferð fyrir sjúklinga með kransæðaþrengsli.

Kransæðavíkkun er endurmótun æðar innan frá. Við það að víkka út þrönga kransæð eykst blóðflæði til hjartans og þannig getur þú losnað við einkenni sem þú hefur haft.

Framkvæmd kransæðavíkkunar

Staðdeyft er í nára. Slíður úr plasti er þrætt inn í slagæðina. Í gegn um slíðrið er leiðarleggur þræddur inn í ósæðina. Enda leggsins er komið fyrir í opi kransæðarinnar.

Gegnum þennan leiðaralegg er fíngerður vír þræddur í gegnum þrengslin í kransæðinni. Því næst er belgleggur þræddur yfir leiðaravírinn og belgurinn á enda leggsins, staðsettur í þrengslunum, þaninn út. Þannig er þrengslunum þrýst út í æðavegginn (sjá mynd 2). Þar með eykst blóðflæðið til þess hluta hjartavöðvans sem kransæðin nærir.

Aðgerðin er framkvæmd á æðarannsóknadeild og tekur u.þ.b. 1 klst. Víkkunin heppnast í 90-95 % tilfella. Ef reyna á að opna lokaða æð eru nokkuð minni líkur á að aðgerð heppnist.

Við víkkunaraðgerð er nú í um 60% tilfella sett inn svokallað stoðnet „stent“ til að halda æðinni betur opinni (sjá mynd 2a) og þá eru líka minni líkur að hún þrengist aftur.Endurtekin þrengsli á víkkunarstað geta komið hjá 15- 20% sjúklinga. Mögulegt er þá að víkka æðina út aftur eða beita öðrum meðferðarúrræðum.

Undirbúningur fyrir kransæðavíkkun

 

Innlagningardagur
Þú kemur á deildina daginn fyrir aðgerðina. Þá eru teknar blóðprufur, hjartalínurit og ef þarf hjartaómskoðun og röntgenmynd af hjarta og lungum. Einnig er tekin sjúkraskrá og farið yfir lyfjameðferð sem þú ert þegar á við innlögnina.

Þú þarft að fara í sturtu kvöldið fyrir aðgerð og nota sérstaka sótthreinsandi sápu sem heitir Hibiscrub. Fyrir sturtu þarf að raka hægri nára. Eftir sturtuna eru æðaleggir settir í bláæðar á báðum handleggjum. Mikilvægt er að þú fáir góða hvíld nóttina fyrir aðgerðina.

Þú færð slakandi lyf (Diazepam) í töfluformi og hylki, sem heitir Adalat en það hefur æðaútvíkkandi áhrif á kransæðarnar. Þú fastar frá miðnætti.

Daginn fyrir aðgerð er líka hafin meðferð með blóðflöguhemjandi lyfi sem kallast Plavix. Það minnkar líkur á að blóðtappar myndast í æðinni meðan á aðgerð stendur. Ef þú færð stoðnet þarft þú að taka Plavix áfram í 3 vikur.

Að morgni aðgerðardags
Þú þarft að skila þvagsýni, mældur er blóðþrýstingur og púls. Nári er sprittaður með klórhexidínspritti. Þú færð slakandi lyf (Diazepam) í töfluformi með einum vatnssopa. Meðan á aðgerð stendur færð þú vökva í æð sem inniheldur nitróglycerín, sem hefur æðaútvíkkandi áhrif og einnig færð þú næringu í æð (Glúkósa).

Í sumum tilfellum, meðan á víkkun stendur, þarf að gefa sérstaka blóðflöguhemjandi meðferð og er oftast haldið áfram með þá lyfjagjöf (Reo-Pro) við komu á deildina eftir ákvörðun sérfræðings þíns.

Hikaðu ekki við að láta vita ef þú finnur fyrir brjóstverkjum eða öðrum óþægindum t.d. bakverk eða ógleði.

Eftirmeðferð

Þegar þú kemur á deildina tekur hjúkrunarfræðingur á móti þér. Plastslíður er skilið eftir í slagæðinni í nára (sjá mynd 3) og er það tengt við þar tilgerðan rafsjá, sem sýnir stöðugt blóðþrýstinginn. Því er mikilvægt að þú liggir á bakinu. Þú ert einnig tengd(ur) við hjartsláttarrafsjá, svo unnt sé að fylgjast með hjartslættinum.

Fljótlega eftir komu á deildina er tekið hjartalínurit. Þú þarft að fasta fyrstu tímana eftir komu á deildina, en færð síðan súpu um það bil 4 klst. eftir aðgerðina.

 

Slíðurtaka
Slíður er oftast fjarlægt aðgerðardaginn.
Slíðurtakan er framkvæmd af hjartasérfræðingi inn á sjúkrastofu og tekur u.þ.b. 10-15 mín. Fyrir slíðurtöku færðu slakandi lyf í æ ð. Þú þarft að liggja á bakinu. Nári er staðdeyfður.

Stungugatinu á náraslagæðinni er oft lokað með sérstökum bandvefstappa þegar slíðrið er tekið (sjá mynd 4).

Þrýst er á stungustað í nokkrar mínútur á eftir og plástur settur yfir. Þú þarft að liggja alveg kyrr á bakinu í u.þ.b. 3 klukkustundir á eftir því enn er hætta á blæðingu frá stungustað. Sandpoki er hafður yfir stungustað á meðan. Eftir slíðurtökuna gætir þú fundið fyrir vægu hersli á stungustað í nára ca. 5-7 daga. Bandvefstappinn eyðist upp á ca. 6 vikum.

Fyrstu daganna eftir slíðurtöku skalt þú forðast mikla áreynslu eins og að lyfta þungu.

Þú skalt forðast setbað og sund í 5-7 daga eða þar til stungustaður er alveg gróinn. En þú mátt fara í sturtu daginn eftir víkkunina. Ef þú verður var við blæðingu, roða eða hersli eykst á stungustað skaltu hafa samband við deildina.
Sími 560-1250.

Daginn eftir aðgerð
Nitróglycerínvökvinn er aftengdur um morguninn. Í flestum tilfellum mátt þú fara á fætur eftir morgunmat með aðstoð hjúkrunarfræðings eða sjúkraliða. Hafi allt gengið að óskum máttu hreyfa þig um að vild, en mikilvægt er að fara varlega fyrstu dagana, m.a. vegna hættu á blæðingu frá stungustaðnum í nára. Ekki er heldur talið rétt að leggja of mikið álag á hjartað fyrstu sólarhringana eftir víkkun.

Útskrift
Útskrift af sjúkrahúsinu er oftast daginn eftir aðgerðina. Sérfræðingur þinn mun útskrifa þig og gefa þér nánari leiðbeiningar um eftirmeðferð, lyfjanotkun og t.d. hvenær hefja má vinnu á ný.

Heimildir
Chulay, M. Guzzella, C., Dossey, B. (1997). AACN Handbook of critical care nursing. Stamford, Connecticut: Appleton & Lange.
Schlant, A., O´Rourke, F., Sonnenblick R. (1999). Hurst´s the heart. USA: The McGraw-Hill Caompanies.
Swanton, R. H., (1998). Cardiology. USA: Blackwell Science.

Endurhæfing eftir kransæðavíkkun

Fyrstu 3 vikurnar eftir kransæðavíkkun er æðin (æðarnar) að jafna sig og því er ekki æskilegt að reyna mikið á sig. Þó er mikilvægt að byrja sem fyrst að sinna sínum daglegu störfum. Það er í lagi að sinna léttum heimilisstörfum s.s. laga mat, þvo upp, þurrka af o.s.frv. Einnig léttum tómstundastörfum eins og að spila á spil, leika á hljóðfæri, prjóna eða gera aðra létta handavinnu. Erfiðari störf s.s. ryksuga, skúra, og þvo bílinn er gott að bíða með í u.þ.b. 3 vikur. Sama gildir um snjómokstur, bóna bílinn og erfiðari garðyrkjustörf. Ekki er æskilegt að lyfta eða bera þunga hluti þessar fyrstu vikur.

Þó ekki sé æskilegt að reyna mikið á sig fyrstu vikurnar eftir kransæðavíkkun er þjálfun mikilvæg. Það er mikilvægt að byggja upp þrek eftir víkkunina. Ganga er þjálfun sem hentar flestum vel. Fyrstu vikuna er gott að fara í stuttar göngur t.d. 10-15 mín. tvisvar til þrisvar sinnum á dag. Síðan á að lengja gönguferðirnar daglega um nokkrar mínútur. Best er að byrja og enda gönguna rólega en ganga á þægilegum gönguhraða þess á milli, án þess að mæði eða annarra óþæginda verði vart.

Ekki er æskilegt að fara út að ganga ef veður er slæmt, rok eða mjög kalt. Ef veður leyfir ekki gönguferðir utanhúss er hægt að þjálfa sig með því að hjóla á þrekhjóli og að ganga tröppur. Það þarf að þjálfa reglulega til að byggja upp úthald og styrk.

Hæfilegt takmark í göngu er 30-40 mínútur einu sinni til tvisvar á dag. Við þjálfun er mikilvægt að hafa í huga að hreyfingin á að vera þægileg, henni á að fylgja vellíðan en ekki óþægindi. Hæfilegt er að álag við þjálfun sé 11-13 á BORG skala.Viðbrögð við þjálfun
Þar sem reglubundin þjálfun er mikilvæg fyrir hjartasjúklinga er nauðsynlegt að vita hvaða viðbrögð líkamans við þjálfun eru eðlileg og hvaða viðbrögð eru óæskileg.

Eðlileg viðbrögð:
1. Lítilsháttar hækkun á hjartslætti.
2. Vægur sviti.
3. Þægilega þreytutilfinning í vöðvum.
4. Létt mæði, en ekki meira en svo að þú getir haldið uppi samræðum.

Óæskileg viðbrögð: – ástæða til að stöðva þjálfun.
1. Brjóstverkur.
2. Mikil óregla á hjartslætti (hopp í brjóstinu).
3. Mikil mæði – erfiðleikar með að ná andanum.
4. Svimi eða sjóntruflanir.
5. Óhóflegur sviti, kaldsviti,ógleði.
Ef einkenni líða ekki hjá við hvíld, hafðu þá samband við lækni.

Jákvæð áhrif þjálfunar

Við að þjálfa reglulega eykst afkastageta okkar. Það þýðir að við eigum auðveldara með að sinna okkar daglegu störfum, og verðum ekki eins þreytt eftir vinnudaginn. Hreyfingaleysi er áhættuþáttur fyrir kransæðasjúkdómum. Þess vegna er mikilvægt fyrir alla að stunda einhverja þjálfun.

Sem dæmi um heppilega þjálfun til að auka afkastagetu er t.d. ganga, hjóla, synda eða dansa. Reyndu að láta reglubundna þjálfun verða hluta af daglegu lífi.
– Gakktu stigann í stað þess að nota lyftuna.
– Gakktu í vinnuna ef þess er kostur.
– Legg&eth ;u bílnum þínum dálítinn spöl frá vinnustað.
– Fáðu þér gönguferð í hádeginu.

Áframhaldandi þjálfun
Þegar þú ert búin(n) að jafna þig eftir kransæðavíkkunina er mikilvægt að þú haldir áfram að þjálfa þig reglulega. Í flestum tilfellum getur þú séð um eigin þjálfun. HL-stöðvar og hópar víðsvegar um landið bjóða einnig upp á viðhaldsþjálfun. Mikilvægast er að velja sér hreyfingu sem maður hefur ánægju af, hún á að verða skemmtilegur vani. Öll hreyfing er af hinu góða, lítil hreyfing er betri en engin hreyfing.

Útgefandi Ríkisspítalar.

Birt með góðfúslegu leyfi höfunda, vefur Landspítala – Háskólasjúkrahúss, rsp.is