Ungir foreldrar – ungar mæður

Það er ekki alltaf auðvelt að verða móðir mjög ung. Í mörgum tilfellum búa þær enn heima hjá foreldrum sínum og eru í rauninni hvort tveggja í senn barn og foreldri. Aðrar eru í leiguhúsnæði, sumar með kærasta, sem oft á tíðum neyðist til að vinna mikið, vinkonurnar allar í skóla og hinar mæðurnar í kring eru allar eldri með aðra reynslu að baki og kannski takmarkaðan áhuga á að tala við þær ungu. 

Unga móðirin reynir kannski að fara á mömmumorgna í kirkjunni, en þar eru mæðurnar eins og heimaríkir hundar, eiga fullt af börnum og meðalaldur þeirra er kannski um 30 ár. Þær eiga ekki samleið með þessari ungu móður og hafa jafnvel fordóma í hennar garð, finnst alveg hræðilegt að börn séu að eignast börn. Það er nú samt þannig að það gerist og þessar ungu stúlkur leggja sig allar fram við að vera góðar mæður, hugsa vel um barnið sitt og eiga að sjálfsögðu að svo mörgu leyti samleið með hinum, þær eru jú að fást við það sama þó þær séu á mismunandi aldri. 

Það getur verið erfitt að verða móðir svo ung, ekki síst vegna þess að unga móðirin er oft sjálf óþroskuð og með litla reynslu.  Þess vegna þurfa ungar mæður og ungir foreldrar stuðning. Samfélagið þarf að styðja við þær, en þessi stuðningur þarf einnig að koma frá hinum mæðrunum í hverfinu því þær eru jú að fást við það sama og geta talað um það sem kemur upp á og deilt reynslu sinni með öðrum.  

En vegna þess að ungar mæður hafa haft tilhneigingu til að einangrast í okkar ágæta þjóðfélagi þá hafa þær sjálfar stofnað með sér félagsskap og hittast vikulega án barna og ræða málin. Þangað eru allar ungar mæður velkomnar, en slóðin inná vefsíðu þeirra er www.ungarmaedur.com Hér er síðan slóð inn á afar góða grein um uppeldi barna, en á Doktor.is er að finna mikið af fróðleik um þessi mál.

Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
www.Doktor.is