Ungbarnasund

Samspil foreldra og barna

Hugtakið „ungbarnasund“ er samheiti yfir ýmiss konar skipulagða starfsemi með ungabörn í vatni. Víða erlendis hefur ungbarnasund verið skipulagt og starfrækt í allmörg ár. Í Noregi eru haldin námskeið fyrir börn frá 8 vikna aldri. Annar eða báðir foreldrarnir eru með barninu í lauginni. Hugtakið ungbarnasund leiðir hugann að syndandi smábörnum og markmiðið er með réttu að þau eigi að læra að synda smám saman. Vatnsleikur er e.t.v. réttara orð yfir námskeið af þessu tagi, a.m.k. fyrstu 2 ár barnsins.

HVERS VEGNA UNGBARNASUND?

Ungbarnasund er skemmtilegt. Börn og foreldrar gera eitthvað jákvætt saman. Megin áherslan er á leikinn, samspil foreldra og barna, líkamssnertingu og augnsamband. Í vatni getur barnið gert hreyfingar sem stuðla að eðlilegum hreyfiþroska. Öryggi í vatni getur við vissar aðstæður fyrirbyggt drukknanir. Ungbarnaforeldrar kynnast öðrum foreldrum og börnin venjast samskiptum við aðra.

Helstu markmið:
1. Tryggja vellíðan barns í vatni.
2. Stuðla að vatnsvana þannig að barnið hafi vald á eigin líkama í vatnsumhverfi snemma í barnæsku.
3. Stuðla að eðlilegum hreyfiþroska.
4. Styrkja samskipti foreldra og barna.

KÖFUNARVIÐBRAGÐ BARNSINS

Meðal ósjálfráðra viðbragða barns fyrstu 6 mánuðina er köfunarviðbragðið. Þetta viðbragð lýsir sér á þann hátt að öndunarvegir lokast þegar vatn kemst í snertingu við kokið þegar börnin anda undir vatni. Þá lokast barkalok, hjartsláttur hægist, blóðþrýstingur eykst og blóð streymir til hjarta og heila. Þetta viðbragð getur staðið yfir í allt að 10 sekúndur.

Við endurteknar æfingar verður hið ósjálfráða viðbragð að sjálfráðu viðbragði. Þetta leiðir af sér að barnið heldur niðri í sér andanum um leið og það fær merki um að það eigi að kafa. Samt sem áður geta börn eldri en 6 mánaða byrjað í ungbarnasundi, en hvarf köfunarviðbragðsins veldur því að þau eru í fyrstu meira óvarin en 2-6 mán. börnin. Þetta lýsir sér á þann hátt að ef varirnar fara ofan í vatnið, þá eru þau verr undirbúin í fyrstu og hósta e.t.v. meira en þau yngri. Auk þess eru þau yfirleitt orðin meira vör um sig og meðvituð um umhverfi sitt og því ekki eins afslöppuð og yngri börnin. Þetta þarf þó ekki að gerast en gæti sýnt sig í fyrstu 1-2 skiptin.

VATNSHRÆÐSLA – FYRIRBYGGING

Foreldrar sem eru vatnshræddir eða slakir sundmenn, munu e.t.v. meðvitað eða ómeðvitað geta yfirfært eitthvað af hræðslunni yfir á sín börn. Það er því jákvætt að einnig þessir foreldrar nýti sér kosti ungbarnasundsins og dragi úr eigin vatnshræðslu.

RANNSÓKNIR Á ÖRVUN UNGBARNA

Ungbarnasund einu sinni í viku í 3-4 mánuði, stuðlar að betri svefni, matarlyst og skapi á meðan námskeiðið varir. Færni s.s. hreyfingar munu týnast fljótt niður ef hætt er að fara með barnið í laug. Það er gert ráð fyrir að þjálfunin verði að vara til 3-4 ára aldurs, þannig að hreyfimunstrin verði sjálfráð og langtímaáhrifin á einstaklinginn verði varanleg. Ungbarnasund telst vera gott örvunarumhverfi, strax á fyrstu mánuðum barnsins sem það fær varla annarsstaðar.

Íþróttaskólinn í Köln í Þýskalandi hefur gert rannsókn á ungbarnasundi. Yfirmenn rannsóknarinnar segja í skýrslu sinni, að það að fylgjast með börnunum í þrjú ár sé of stuttur tími til að rannsaka áhrif og til að meta árangur barnanna. Tilhneiging í bráðabirgðaniðurstöðum og huglægt mat rannsóknaraðila sýnir, að börn er hafa stundað ungbarnasund borin saman við jafnaldra, eru færari í að aðlaga sig að mismunandi aðstæðum, og eru sjálfstæðari við að leysa ný verkefni. Þau hreyfðu sig af meira öryggi og hræðslulaust, sýndu betri hreyfigetu og voru hraustari.

Sálfræðingurinn Piaget segir að ný færni lærist af tilviljun í gegnum hljóð og örvun sem barnið veitir athygli. Hugsunin er að því meiri örvun og hreyfimöguleikar sem barnið fær að upplifa, því meira lærir það. Þess vegna er hægt að segja, að barn sem hefur lagt stund á ungbarnasund hefur fengið óskabyrjun í upphafi þroska síns bæði á líkama og sál.

UNDIRBÚNINGUR Í BAÐKERINU HEIMA

Hitinn í lauginni er 32-33°C. Æskilegt er að baðvatnið heima sé ekki allt of heitt svo að viðbrigðin verði ekki of mikil, þegar komið er í sundlaugina. Farið gjarnan í bað með barninu. Til að undirbúa barnið er gott að láta vatn renna niður andlit barnsins. Barnið getur legið á fótleggjum foreldris, með höfuðið á hnjám þess. Þá snýr barnið beint að foreldri og hallar höfði fram, þannig að vatn rennur beint niður og frá andliti þess. Teljið síðan 1-2-3, blásið framan í barnið og þá dregur barnið inn andann. Eftir það andar barnið frá sér og þá látið þið vatn seytla yfir andlit þess. Hægt er að telja og blása nokkrum sinnum án þess að hella yfir barnið á meðan þið eruð að átta ykkur á viðbrögðum barnsins. Gerið þetta aðeins 1-3 sinnum í hvert sinn, sem baðað er. Prófið aldrei að setja barnið á kaf áður en þið komið á námskeiðið.

HITASTIG LAUGARVATNSINS OG LENGD HVERS TÍMA

Hitastig vatnsins má ekki vera lægra en 32°C. Ungabörn munu fljótt missa hita í kaldara vatni. Við 33°C mun líkamshitinn eðlilega lækka um 0,2°C á 20-45 mínútum. Fyrstu skiptin baðið barnið e.t.v. bara í 10-20 mín. Baðtíminn eykst smám saman í 30 mínútur.

UNDIRBÚNINGUR FYRIR HVERN SUNDTÍMA

Brýnt er að barnið sé vel sofið og mett þegar það kemur í ungbarnasundið. Þreytt og svangt barn unir sér ekki í vatninu. Reynið ávallt að gefa ykkur góðan tíma fyrir sundtímann. Stress við að komast til og frá sundstaðnum, hefur mikil áhrif á barnið. Þetta er tíminn þeirra með foreldrum sínum og til að nýta hann sem best er nauðsynlegt að áætla ríflegan tíma svo barnið njóti þess. Við erum að sækjast eftir vellíðan, einbeitingu og rólegheitum hjá barninu og því er undirbúningur fyrir hvern sundtíma nauðsynlegur.

Það er mikilvægt að byrja rólega svo barnið verði öruggt í þessu umhverfi. Talið við barnið og hrósið því oft og vel.

Athugið að sprautudagar eru ekki heppilegir sunddagar. Börnin eru pirruð, þó þau séu ekki með hita. Hugið því að þeim dögum í tíma. Möguleiki á að vera að breyta um sprautudag hjá heilsugæslunni.

NOKKRAR HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR FYRIR SUNDIÐ

Í vatninu er best að barnið sé í þéttum nærbuxum án bleyju. Buxurnar þurfa að geta haldið við mögulegt „óhapp“ og þurfa því að halda vel að rassi og lærum þó þær blotni. Barn sem farið er að skríða og þaðan af eldra verður helst að vera í sokkum sem ekki renna á gólfi. Barnið er í sokkunum í lauginni.

Hafið alltaf 2 handklæði fyrir barnið, eitt til að sveipa um barnið fyrir sund og eftir að það er búið í lauginni, hitt er notað eftir sturtu. Ekki er nauðsynlegt að láta barnið í sturtu fyrir sund. Ungabarn sem er baðað daglega er ekki sveitt eða óhreint. Þið foreldrarnir þurfið að sjálfsögðu að þvo ykkur fyrir sund. Ágæt regla er að afklæða sig fyrst og barnið á eftir og öfugt þegar farið er upp úr. Ágætt er að nota ilmlausa olíu eða rakakrem til að bera á barnið eftir hvern tíma.

Börnin geta verið óupplögð í eitt skipti eða svo. Gætið þess að pína þau ekki til að halda út tímann. Barn sem grætur þegar það kemur ofan í eða er óvenju rellið er ekki hægt að gera sömu kröfur til og þegar allt er í lagi. Börnin geta ekki komið í sund ef þau hafa niðurgang eða hita. Það hefur ekki sýnt sig að börn sem stunda ungbarnasund fái frekar í eyru en önnur börn. Það sem skiptir mestu máli er að koma í veg fyrir snögg umskipti á hita og kulda. M.ö.o. við þurfum að gefa börnunum tíma til að jafna sig, sérstaklega eftir sundið. Farið aldrei ofan í laugina fyrr en þið fáið leyfi.

NÁMSKEIÐ Í UNGBARNASUNDI

Námskeið í ungbarnasundi hafa staðið yfir á Íslandi í 10 ár. Vorið 1991 hófust skipulögð námskeið á 3 stöðum á Reykjavíkursvæðinu, í sundlauginni við Grensásdeild (endurhæfingardeild), Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði og Skálatúnslauginni í Mosfellsbæ. Sömu aðilar standa enn fyrir námskeiðum á þessum stöðum en fleiri staðir hafa bæst við á síðustu árum bæði úti á landsbyggðinni og hér í kringum Reykjavík. Lætur nærri að um 25% barna á höfuðborgarsvæðinu taki þátt í námskeiði í ungbarnasundi.

Ávinningur af ungbarnasundi

Jákvæð áhrif á barnið sem einstakling:

  • ögun
  • einbeiting
  • eftirtekt
  • örvun – aðlögunarhæfni
  • fyrirbyggjandi m.t.t. misþroskagreiningu

Styrkir hreyfiþroska, líkamsvitund og sjálfsímynd

Ágústa Guðmarsdóttir, sjúkraþjálfari og kennari í ungbarnasundi. Sími 869-7736 og 588-2324.

Þessi texti er lauslega þýddur og staðfærður eftir pésanum: "Babysvømming – en vannlek for barnefamilien", sem Norges Livredningsselskap hefur gefið út.