Ungbarnanudd

Ungbarnanudd er indæl samverustund og opnar á náin tengsl ungviðsins og þess sem nuddar. Þannig kynnast einstaklingarnir hvorum öðrum enn betur í gegnum snertingu og atlot.

Ungbarnanudd er ekki vísindagrein sem byggir á stíft ákveðnum strokum.

Ungbarnanudd byggist á því að barnið njóti atlotanna þegar það er strokið um allan líkamann, rólega og taktfast.

Á forsendum barnsins

Það er ekki til rétt eða röng aðferð við nudd svo fremur er notið stundarinnar. Nuddið á alltaf að vera á forsendum barnsins. Hægt er að nota sömu nuddaðferðina þótt barnið eldist. Eldri börn geta einnig haft ánægju af að láta nudda sig af og til.
Ungbarnanudd er hægt að veita daglega en erfitt er að segja til um lengd þess því börn geta verið misupplögð. Hafi fæðingin gengið áfallalaust er hægt að byrja strax að henni lokinni.
Barnið er vant snertingu, snertingin er því ekki framandi.

Hver er ávinningur þess að nudda barnið?

Með því að nudda barnið getur það:

 • bætt svefn
 • dregið úr streitu
 • örvað blóðstreymið
 • dregið úr magakrömpum
 • myndað sterkari tengsl milli foreldris (eða þess sem nuddar) og barns
 • hjálpað til við að skilja betur tjáningu barnsins
 • styrkt ónæmiskerfið.

Hvenær ætti að hefja nudd?

Það er aldrei of seint eða of snemmt að byrja að nudda barn. Viðbrögð barnsins við nuddinu geta hins vegar verið mismunandi eftir aldri þess.

Á aldrinum 0-3ja mánaða má búast við:

 • mörgum nýbura viðbrögðum
 • að barnið haldi höndum þétt að líkamanum
 • að barninu líki að bak og fótleggir séu nuddaðir
 • að barninu líki hiti.

Á aldrinum 3ja-6 mánaða má búast við að barnið:

 • sé meðvitaðra um nuddið
 • sé meiri þátttakandi í athöfninni
 • hafi meiri hreyfigetu og spenni líkamann meira
 • njóti þess að bringa, magi og handleggir séu nuddaðir.

Á aldrinum 6-9 mánaða má búast við að:

 • hreyfigetan aukist og barnið hreyfi sig meira
 • aðlaga þurfi nuddið meira eftir óskum barnsins því það vill leika. Leyfðu því að stjórna ferðinni og leiktu við það.

Á aldrinum 9 mánaða- 2ja ára:

 • barnið er fjörmikið og er að kanna umhverfi sitt
 • það er ekki víst að því líki nuddið á þessum aldri.

Á aldrinum 2ja-3ja ára:

 • má búast við að barnið hafi nú róast örlítið og hafi nú aftur áhuga á nuddinu.

Hvenær er besti tíminn fyrir nudd?

Gott er að fylgjast með barninu og atferli þess og nota tækifærið þegar það er yfirvegað, árvökult og móttækilegt.

Hvaða staður er bestur?

Best er að vera í rólegu og hlýju herbergi sem er laust við umhverfisáreiti. Herbergishiti ætti að vera á bilinu 21-24°C og gæta skal þess að ekki sé dragsúgur. Barnið getur legið á fótleggjunum þínum eða í rúminu við hlið þér. Mikilvægt er að koma sér niður á stöðu sem ykkur báðum líður vel í. Liggi barnið á fótleggjum þínum myndast góð líkamsnánd. Hægt er að ljúka nuddinu með heitu og notalegu baði sem er tilbúið fyrirfram.

Hvað þarf að nota við nudd?

 • olíu sem má gleypa því barnið er gjarnt á að setja hendurnar upp í sig
 • teppi til að leggja barnið á
 • kodda (það eykur á öryggiskennd barnsins að hafa kodda í kringum sig)
 • auka bleiur og hlífðarföt til að setja undir barnið
 • aukaföt til að klæða barnið í á eftir.

Hvað þarf að hafa í huga?

 • mikilvægt er að vera afslappaður og laus við alla streitu
 • undirbúið ykkur með því að anda djúpt og rúlla öxlunum og teygja á hálsinum
 • þvoið ykkur um hendur og fjarlægið hringa, úr og aðra skartgripi
 • haldið augnsambandi við barnið og talið blíðlega við það
 • spyrjið barnið um leyfi og fylgist með viðbrögðum þess
 • hafið í huga hjá nýburum að nudda ekki of nálægt munni barnsins, því það gæti haldið að fingurnir væru brjóst eða peli.
 • verið sveigjanleg (ef barnið er ekki spennt fyrir nuddinu, hættið þá og reynið aftur síðar)
 • tíminn sem fer í nuddið skyldi ávallt fara eftir vilja barnsins og skapi þess
 • gott er að tala við barnið eða syngja á meðan á nuddinu stendur
 • þetta er ykkar samverustund, þín og barnsins, tengslin milli ykkar styrkjast, svo njótið þess!

Stuttar nuddæfingar

Hér á eftir er lýst stuttum nuddæfingum sem hægt er að endurtaka að vild. Hver nuddhreyfing er endurtekin nokkrum sinnum rólega og taktfast. Venja er að nudda í átt að hjartanu og gott er að byrja með barnið liggjandi á bakinu (einnig er hægt að halda á barninu og nota aðra höndina til að nudda).

Fótleggir:

Byrjið á að nudda fótleggi barnsins:

 • vefjið höndum utan um læri barnsins
 • snúið höndunum létt en með örlitlum þrýstingi í sitt hvora áttina utan um lærið (líkt og þegar borðtuska er undin)
 • byrjið að nudda lærið og fikrið ykkur áfram niður fótlegginn
 • endið við tærnar.
 • þrýstið létt neðan á ilina og nuddið hverja tá fyrir sig
 • strjúkið létt yfir ristina
 • gerið léttar hringhreyfingar með fingurgómunum í kringum ökklann.

Endurtakið á hinum fótleggnum

Kviður:

Það getur létt á vindgangi að nudda magann

Vatnsmylla:

 • notið báðar hendur til skiptis og gerið hreyfingar líkt og verið væri að skafa létt
 • byrjið fyrir neðan bringuna og færið ykkur niður kviðinn, endurtakið nokkrum sinnum.
Sól og máni:

 • leggið báðar hendur á kvið barnsins
 • myndið hringhreyfingu með því að snúa höndunum réttsælis
 • vinstri hönd nemur því stöðugt við kvið barnsins en hægri hönd fer yfir þá vinstri

til að létta enn frekar á vindgangi er gott að lyfta fætinum og þrýsta honum létt upp að kvið barnsins

strjúkið þumalfingrum frá miðjum kvið til hliða

notið léttar hreyfingar og varist að þrýsta of fast

Leggið fingurgómana á kviðinn og „tipplið" létt yfir kviðinn frá vinstri til hægri

Myndin hér að neðan sýnir svokallaða „I Love You" tækni. Þessar hreyfingar geta einnig létt á vindgangi barnsins:

Bókstafirnir I, L og Y eru myndaðir með því að strjúka létt með fingurgómunum yfir kvið barnsins,

 • fyrst I (vinsta megin, þér á hægri hönd) byrjar að ofan
 • þá L (eins og sýnt er hér að neðan)
 • og að lokum U (you)
Bókin:

Leggið fingurna á bringu barnsins og framkvæmið hjartalaga hreyfingu (líkt og verið væri að opna bók)

Fiðrildi:

leggið fingurna á miðja bringu barnsins og nuddið létt

önnur höndin nuddar í átt að öxl hin í átt að mjöðm

endurtakið báðum megin.

Handleggir:

Lyftið hönd barnsins og strjúkið létt (þó ekki það létt að því kitli!) yfir handakrikann

Vefjið höndum utan um handlegg barnsins

snúið höndunum létt en með örlitlum þrýtingi í sitt hvora áttina utan um handlegginn (líkt og þegar borðtuska er undin)

vefjið höndum utan um handlegg barnsins

byrjið að nudda handlegginn efst við axlirnar og endið úlnlið

strjúkið inn í lófann og nuddið hvern fingur

gott er að mynda hringi með fingrunum í kringum úlnlið

Endurtakið hinum megin

Bakið:

strjúkið lófunum upp og niður eftir endilöngum hrygg barnsins

strjúkið lófunum þvert yfir bakið

strjúkið fingurgómum með hringhreyfingum upp og niður vöðvana við hrygginn

Andlit:

Andlitið er nuddað í lokin. Þegar barn grætur eða sýgur getur myndast spenna í andlitinu og því geta léttar strokur slakað á spennu í andliti. Mikilvægt er að fara ekki of nálægt munninum svo barnið haldi ekki að um pela eða brjóst sé að ræða.

 • strjúkið með fingurgómunum frá miðju andlitinu og til hliða
 • strjúkið létt yfir augabrúnir
 • strjúkið með fingurgómunum frá nefi til eyrna
 • myndið litla hringi við kjálkaliðinn
 • strjúkið bak við eyru og undir kjálka

Þetta eru einungis nokkrar tillögur að nuddi fyrir barnið. Börn eru misjöfn og því erfitt að segja til um hvað hverju barni líkar best. Besta leiðin er að skynja hvað barninu líkar vel og að fylgast með svipbrigðum og reyna þannig að lesa úr andliti þess hvernig því líki.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að börn geta verið misupplögð. Ef þau eru ekki móttækileg fyrir nuddi er alltaf hægt að hætta og taka þráðinn upp að nýju þegar barnið er móttækilegra fyrir nuddinu. Mikilvægast er að þið njótið njótið samverunnar.

Myndir þessar eru birtar með góðfúslegu leyfi

Heimildir:

Trimesters, Massage Therapy Education

Co/ Allison Hines ph# 416-422-2778 , e-mail trimest@istar.ca Cindy McNeely ph# 416-920-7092 Pregnancy, Childbirth and the Newborn: The Complete guide.

Simkin, P., Whalley, J. and Keppler, A.

Infants and Mothers: Differences in Development. Brazelton, T. B.

Bantom, Doubleday Dell Pub. Group Inc. N.Y. 1983

Nurturing Touch: Instruction in the Art of Infant Massage.

Babeshoff, K. Dellinger-Bavolek, J Family Development Re sources Inc. 1993

Athyglisverðar tengingar:

Infant massage network
Infant massage one o one