Undirbúningur þess að hætta að reykja

Margir hafa sett sér það markmið að hætta að reykja en mistekist. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem undirbúa sig vel gengur betur að halda reykleysið út. Undirbúningur þess að hætta að reykja felur meðal annnars í sér að gera sér grein fyrir og ákveða eftirfarandi þætti:

Hugsa um að hætta

Það er mikilvægt að hver og einn reyni að finna ávinningin sem það að hætta felur í sér. Það getur verið kostnaður, vond lykt, betri öndun, aukið úthald, minnkaðar áhyggjur af heilsunni. Þegar líða tekur á hverfur sígarettuhóstinn, kvefsækni minnkar og lífslíkur aukast. Ekki síst fríar þú fjölskyldu og vini frá þeim skaðlega reyk sem þú veldur. Gott er að hafa í huga að hægt er að veita sér eitthvað fyrir peningana sem hafa sparast við reykleysið.

Hvernig  og hvenær

Nauðsynlegt er að undirbúa sig vel andlega og ákveða stað og stund og venjast hugsuninni að hætta. þú þarft að skoða málin út frá öllum hliðum og taka með í reikninginn alls kyns útúrdúra, t.d. að reykja þegar fengið sér í glas. Ákveddu daginn sem þú ætlar að hætta. Það má ekki vera of langt fram í tímann því annars er hætta á að afsakanirnar verði of margar og hætt verði við. Mikilvægt er að hugsa hvernig hægt er að breyta venjunum og gera eitthvað annað í staðinn. T.d. er hægt að byrja á að venja sig af ýmsum siðum sem fylgja reykingum og forðast aðstæður sem fylgja reykingum. Koma sér upp reyklausum svæðum sem verða einskonar æfingasvæði. Breyta um stað til að reykja, s.s. utandyra. Einnig er mikilvægt að leita aðstoðar hjá fjölskyldu og vinum, jafnvel koma veðmáli af stað.

Að hætta

Eins og með aðrar stórar og erfiðar ákvarðanir er gott að taka lítil skref í einu. Ráðlegt er að taka eina viku í einu, jafnvel einn dag í einu. Gera fyrsta daginn að hátíðisdegi, dekra eitthvað við þig. Fá sér ávaxtasafa í morgunsárið, bragðið er frískandi og súrleikinn mun hjálpa þér að losna við nikótínið. Breyttu út af vananum. Því meira sem breytt er út af daglegum venjum því betur gengur að hætta.  Til að breyta út af vananum er gott að gera eitthvað annað í staðinn. Ef löngunin kemur reyndu þá að gera eitthvað annað. Ef venjan er til dæmis að fá sér sígarettu eftir mat er hægt að standa upp strax eftir mat og fara að gera eitthvað annað. Hægt er að fá sér eitthvað annað, s.s. tyggjó og vatnsglas. Sumir vilja hafa eitthvað í höndunum í staðinn fyrir sígarettuna og kveikjarann. Likaminn hefur líka vanist því að vera að soga að sér og sumir þurfa eitthvað í staðinn fyrir það. Allir þessir smáu þættir eru mikilvægir í undirbúningnum, um leið og við gerum okkur grein fyrir þessu þá getum við mætt vananum með einhverju öðru og minnkað líkurnar á að reykleysið misheppnist.

Finna leiðir til að mæta lönguninni

Mikilvægt er að kynna sér hver fráhvarfseinkennin eru og hvað sé til ráða við þeim. Ekki láta undan og fá sér sígarettu. Þá er allt unnið fyriri gíg. Löngunin hverfur aldrei alveg en stöðugt verður lengra milli. Því er betra að reyna að hugsa meira um löngunarlausu tímabilin en kveisurnar. Smám saman minnkar löngunin.