Umræða: Draumurinn um eilífa reisn

Mér þykir svo miður hvað hann lafir niður," söng Palli litli forðum. Og hann hélt söngnum áfram: ,,Í litla garðinum mínum á allt að standa upprétt." Hann vildi auðvitað hafa kyngetu.

Að vera getumikill táknar að hafa styrkleika, mátt og og áhrif. Jafnvel litlir drengir spranga stoltir um með reistan lim fram að vissum aldri og eru óhemju uppteknir af honum.

Margir karlmenn, hugsanlega allir, eiga af og til við stinningarvanda að stríða óháð aldri og lífsaðstæðum. Ef vandinn líður hjá veldur hann sjaldnast varanlegu hugarangri en langvarandi stinningartruflun hefur án efa áhrif á sjálfsmynd karlmanna. Það er engin tilviljun að orðið getuleysi – kraftleysi – hljómar eins og skammaryrði. Getuleysi ógnar ekki aðeins kynferðislegri hæfni karlmanns heldur skynjar hann það sem almenna lækkun á stöðu sinni, veiklun í karlmennskuhlutverkinu. Ef hann nær ekki lengur reisn upplifir hann sig ekki sem karlmann, hvorki á kynferðislega sviðinu né á öðrum sviðum.

Það mætti draga dár að þessu, kalla þetta frumstætt og yppta yfir því öxlum. Vandinn verður engu að síður raunverulegur. Það vekur athygli að blaðagreinum, þar sem orðið getuleysi kemur fyrir, hefur fjölgað gífurlega síðan 1970. Á sama tíma eru greinar um svokallaðan kynkulda kvenna nánast horfnar. Skyldi það vera til marks um breytingu á viðhorfi til kynjanna? Allavega hefur reynst auðveldara að losna við hið niðrandi hugtak, kynkulda, en skammaryrðið getuleysi.

Allt frá barnæsku tileinka karlmenn limi sínum töframátt eins og kemur fram í kvikmyndagagnrýni Bo Green Jensens um Boogie Nights sem birtist í Weekendavisen. Söguhetja myndarinnar er klámstjarnan John Holmes en aðalkostur hans var limur, sem mældist heilir 33 cm. Í myndinn heitir hann Dirk Diggler. Í lok myndarinnar gengur kvikmyndaferill hans illa en hann er að vonast eftir að slá í gegn á ný. Hann situr fyrir framan spegil og reynir að stappa í sig stálinu með hvatningarorðum, og síðan er atriði, sem gagnrýnandanum finnst undarlega grípandi, þar sem hann rennir niður um sig buxunum, gælir við liminn sem einnig áhorfandinn gerskoðar lengi í speglinum. Hann talar til limsins. Hann mannar sig upp og hefur bókstaflega enga aðra sjálfsmynd en þá sem situr í þessum einstæða líkamshluta hans. Það er ljóst að þegar eins vel útbúnum manni og Dirk getur liðið þannig munu fjölmargir menn taka því fagnandi að nú er komið lyf, sem losar þá við hinn elífa kvíða um getuna í eitt skipti fyrir öll. Þeir geta þannig stífað sig af á fleiri en einn hátt.

Leonore Tiefer, kvenréttindakona og kynfræðingur frá Bandaríkjunum, heldur því fram að við séum ofurseld leitinni að hinum fullkomna reðri og að karlmenn trúi því mun frekar en konur að það tryggi þeim hamingjuna og leysi næstum allan samlífsvanda.

Á sama tíma er stöðugt meiri áhersla lögð á það, bæði meðal fólks og í fjölmiðlum, að fólk njóti ásta alla ævi. Þessu er nú fylgt eftir af nýrri læknisfræðilegri tækni sem gefur fyrirheit um að draumurinn um áreiðanlega og ótruflaða reisn allt frá vöggu til grafar megi rætast.

Það er að sjálfsögðu í lagi að mörgum körlum, sem og konum sem þurfa á hjálp að halda, bjóðist nú von og nýir möguleikar. En ef haft er í huga hve auðveldlega karlmönnum er hætt við angist vegna ótta um getuleysi eykst hættan á því að kynlífið verði tengt lyfjanotkun í ónauðsynlegum mæli. Þvílík ofuráhersla er lögð á getnaðarliminn að hætt er við að það gleymist að kynlíf er annað og meira en hopp og hí og fram og til baka. Kynlíf snýst um nálægð, innileika og stundum jafnvel ást, líka hjá karlmönnum.

Aðferðir, sem eiga að örva kyngetu karla hafa frá örófi alda verið geysilega eftirsóttar, þar á meðal svokölluð ástarlyf.

Margar slíkar aðferðir eru vita gagnslausar en alkunna er að trúin flytur fjöll og getur stundum stuðlað að reisn. Meðal nútíma hjálpartækja má nefna titrara (nuddtæki), ,,skapahringi", stinningardælur, innsetning framandi hluta í liminn með skurðaðgerð, yohimbin, nítroglýserínplástrar límdir á liminn og alprostadil (Prostataglandin E 1), betur þekkt undir sérlyfjaheitinu Caverject, en því er sprautað inn í liminn.

Viagra er nýjasti sprotinn á þeirri grein, ef nota má þá samlíkingu, tekið inn í pilluformi, þykir hafa fáar aukaverkanir og eykur stinninguna á áhrifamikinn hátt. Það er sérstaklega mælt með því fyrir menn sem hafa skaddaðar taugar niður í liminn, t.d. eftir mænuskaða, skurðaðgerðir á kynfærum, vegna langvarandi sykursýki eða þegar lélegt blóðstreymi er til limsins.

En er Viagra líka ráðlegt við getuleysi af sálrænum toga? Lyfjafyrirtækið Pfizer, sem framleiðir Viagra, heldur því fram að lyfið henti einnig fyrir sálrænt getuleysi. Þarna hef ég vitanlega mínar efasemdir. Ég mun reyna að færa rök fyrir þeim.

Margir karlmenn þjást af frammistöðukvíða – hræðslu við mistök, spéhræðslu, að limurinn sé ekki nógu stór, að aðrir frétti af vanmætti þeirra o.s. frv. Það, sem við köllum getuleysi, er nánast alltaf bundið við tilteknar aðstæður, frá fortíðinni eða í núinu. Það er merki um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera.

En það grátbroslega er að flestir karlmenn hafa tilhneigingu til að trúa því að eitthvað ami að þeim líkamlega frekar en að hugleiða hvað líkami þeirra, hinn óstýriláti limur, er að reyna að segja þeim ef stinningartregða er á ferðinni.En sl ík stinningartregða ætti ef til vill heldur að vekja þá til umhugsunar. Risleysið er hugsanlega sannara eða mætti kalla það heilbrigðara viðbragð við óhagstæðum kringumstæðum, en það að limurinn virki ósjálfrátt og á vélrænan hátt, með risi, við hvaða aðstæður sem er.

Herb Goldberg, sálfræðingur frá Bandaríkjunum, heldur því fram að það sé ekki hagstætt að leggja allt í sölurnar fyrir stinningu, ekki einu sinni þótt lægja megi angist mannsins um stundarsakir. Getnaðarlimur karlmanns sé ekki aðeins vélbúnaður heldur í tengslum við manninn sem einstakling. Þess vegna ætti hann að hlusta og læra af viðbrögðum líkama síns frekar en að líta eingöngu á þau frá vélrænu sjónarhorni. Oft koma fram viðbrögð frá limnum áður en maðurinn er búinn að gera sér meðvitaða grein fyrir því að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera. Því væri hollara fyrir manninn, og rekkjunaut hans, að spyrja: Hvað tákna þessi skilaboð? Hver er orsökin og hver er afleiðingin? Eru deyfð mannsins, kvíði og ójafnvægi viðbrögð við eða ástæða fyrir getuleysinu? Eru viðbrögð konunnar að mestu leyti til afleiðing eða ástæða vandans? Hvaða þátt eiga erfiðleikar í samlíf þeirra? Og áfram mætti halda.

Fyrir suma getur slík leit verið farsæl leið bæði til að öðlast aukinn skilning á sjálfum sér og gagnkvæmt innsæi, ekki síst ef parið leitar aðstoðar hjá fagfólki. Eða svo vitnað sé í Goldberg: ,,Ef maðurinn axlar ábyrgð á tilfinningum sínum og hvötum og hvetur maka sinn til hins sama stuðlar hann að því að ryðja úr vegi þeirri röngu hugsun að getuleysi sé eingöngu vandamál karlmannsins. Ekki fyllast skelfingu þótt þér standi ekki. Spurðu þig heldur hvað það er sem líkami þinn er að reyna að segja þér sem þú ert ekki meðvitaður um varðandi sjálfan þig. Og mikilvægast af öllu: virtu visku limsins. Takmark þitt er ekki eingöngu kyngetan, heldur að virða kynferðisleg viðbrög þín, og þess vegna verður þú að læra að taka fulla ábyrgð á þeim sannleika sem að tilfinningar þínar innihalda."

Ég veit fullvel að slíkar tillögur munu oft falla í grýtta jörð, að margir veigri sér við slíkri sjálfskoðun. Sérstaklega núna þegar auðvelt er að teygja sig í glasið með hinum dýrmætu og dýru Viagra pillum. Við skulum bara vona að þær leysi vandann ef það er aðeins stinningin sem um er að ræða. En reisn leysir nú ekki öll samlífsvandamál. Eins og kemur fram í grein í Time Magazine: ,,Við getum látið reitt par fá Viagra og þá höfum við reitt par með stífan lim." Ég hef kynnst mörgum slíkum pörum áður en Viagra kom á markaðinn og ég er sannfærður um að þeim fer fjölgandi.

Gunter Schmidt, þýskur kynfræðingur, hefur sett fram þá kenningu að Viagra hafi þau áhrif á sálrænt getulausa karlmenn, ,,að líklega muni þeir áfram halda konu sinni í fjarlægð en beiti nú limnum sem vopni til að halda fjarlægðinni. Ástlaust, kaldlynt og ónærgætið muni hann vanvirða hana og lítillækka fullur aðdáunar á sínum blýstífa lim. Hann hafi losnað undan þeirri skömm sem fylgir getuleysi."

Schmidt telur að margir menn muni vafalaust prófa Viagra, bæði sem stinningarmeðal og sem ástarlyf. Ekki vegna þess að lyfið sjálft auki mönnum löngunina til kynlífs heldur vegna þess að framsækinn limurinn færir þeim aukið sjálfstraust og það hafi í för með sér aukna löngun. Þess vegna reiknar Schmidt með að konur muni í auknum mæli komast í kast við hina sjálfmiðuðu, sjálfselskandi útgáfu af kynvhöt karlmanna, hvort sem maðurinn eigi við getuleysi að stríða eða að hann eingöngu gleypi pillu til að geta skinið ennþá bjartar í hinni sjálfselskandi dýrð sinni.

Flestar konur hafa lítinn áhuga á slíku. Öðru nær, fyrir flestar hefur það stressandi áhrif. Því að pillur leysa ekki samskiptavandamál hjá pörum. Þær hjálpa manninum ekki að tjá sig eða vera betri hlustandi, hjálpa honum ekki að setja sig í spor annarra, gera hann ekki hugmyndaríkari eða erótískari. Samkvæmt kenningu Schmidt munu þeir menn sækjast sérstaklega eftir því að nota Viagra, sem hafa ,,hefðbundið viðhorf til kynhlutverks karla og einnig þeir sem hneigjast til að stýra lífi sínu með lyfjum: Viagra fyrir kynlífið, örfandi lyf í vinnu og áfengi til að slaka á. En ef til vill uppgötva margir þeirra síðar meir að kynlífið hafi verið mun meira aðlaðandi án Viagra og snúi þá við blaðinu."

Eins og er þekkt er það venjan að greina á milli líkamlegra og geðrænna orsaka fyrir ónógri stinningu á lim. Geðrænar ástæður getuleysis eru oft ótti – t.d. frammistöðukvíði, spéhræðsla, minnimáttarkennd, áhyggjur af því að geta ekki fullnægt bólfélaganum, ótti við kynferðislegan unað, hræðsla við kynsjúkdóma, samviskubit o.s.frv. En getuleysið getur einnig byggst á meðvitaðri eða ómeðvitaðri reiði. Reiði sem beinist gegn makanum, hugsanlega kvenþjóðinni allri, eða sjálfum sér. Alkunna er að kynlíf tengist oft reiði. Valdabarátta milli makanna getur komið fram sem getuleysi. Til dæmis er hugsanlegt að maðurinn sé að refsa konunni, meðvitað eða ómeðvitað, leyfi henni ekki að njóta góðs af kyngetu sinni eða að hún knýi hann í sífellu út í þær kringumstæður sem valda stinningarvanda hjá honum til þess að henni finni st hún hafa yfirhöndina.

Oft tengist þetta samskiptaerfiðleikum, parið misskilur hvort annað, gefur torræð skilaboð, segir hvorugt hinu hvað þeim langi til eða langi ekki til. Iðulega er þessu pakkað inn í sæng falskrar tillitssemi. Ef til vill trúa þau því að þau elski hvort annað svo mikið að þau þora ekki að vera þau sjálf. Hugsanlega eiga þau hreint og beint ekki saman. Að endingu geta kynferðislegar sérþarfir haft truflandi áhrif – afbrigðileg árátta, klæðskipti, kvalalosti, samkynhneigð o.m.fl. Í stað þessarar upptalningar gæti nægt að segja: Það er fátt hér í heimi sem byggist minna á rökum og kemur meir á óvart en kynlífið. Hver kannast ekki við að furða sig á fólki sem nær saman, jafnvel þótt ekkert bendi til að það eigi eitthvað sameiginlegt, á meðan aðrir eiga enga samleið, þótt svo virðist að þeir hafi bestu aðstæður til þess. Eros er spaugsamur náungi, sagði Platon fyrir meir en 2000 árum.

Og nú staðhæfir lyfjaiðnaðurinn að Viagra geti komið böndum yfir hinn óstýriláta Eros, að hér sé komið lyf við öllum þessum hrærigraut af fortíð og nútíð, kvíða og reiði, töfrum og hversdagsviti, því ómeðvitaða og því augljósa. Og viti menn, karlar og konur virða sig ekki meir en svo að mörg þeirra gleypa við þeirri hugmynd að hér sé lausnin komin. Margur verður af aurum api. Eða svo vitnað sé í prófessor Tribini sem stóð fyrir utan tjald í skemmtigarði og sagði: ,,Ef þið skemmtið ykkur ekki hafið þið kastað peningunum á glæ."

Tölulegar upplýsingar eru talsvert á reiki og byggjast m.a. á menntun viðkomandi læknis, t.d. því hvort hann er þvagfæraskurðlæknir eða geðlæknir – viðhorfum hvers þeirra til þessara mála og á því hverjir skjólstæðingar hans eru. Skilin milli getuleysis af geðrænum og líkamlegum toga eru engan veginn skýr. Jafnvel þegar ótvírætt er um að ræða líkamlega ástæðu koma geðrænir þættir ávallt við sögu.

En lítum á nokkrar tölur frá Bandaríkjunum: Meira en 800 karlmönnum var vísað á þvagfæraskurðdeild Beth Israel Medical Center í New York, á 10 ára tímabili, frá árinu 1981 að telja. Tæplega 10 prósent fengu strax úr því skorið að þá hrjáðu geðrænir kvillar og þeim var vísað í samlífsmeðferð. Hinir, yfir 90 prósent, voru sjálfir sannfærðir um að getuleysi þeirra stafaði af líkamlegum ástæðum að mestu eða öllu leyti. Ítarlegar rannsóknir sýndu fram á að í reynd féllu einungis 45 prósent í þann flokk en 55 prósent höfðu geðrænar orsakir að öllu eða yfirgnæfandi leyti.

Í annarri rannsókn frá Johns Hopkins Sjúkrahúsinu í Baltimore kom í ljós að af þeim 105 karlmönnum, sem þangað var vísað með stinningarvandamál, allir yfir fimmtugt, reyndust aðeins u.þ.b. 30 prósent mannanna vera með líkamlegar orsakir þessa.

Í Chicago komust menn að því á þvagfæraskurðdeild að hjá 43% þeirra sem voru með getuleysi, fundust líkamlegar orsakir, að minnsta kosti að hluta til. En aðeins hjá 11% þeirra sem voru á geðdeild og með stinningarvanda, fundust líkamlegar orsakir.

Margt bendir einnig til þess að fjöldi þess fólks sem er með geðræna kvilla sé vanmetinn. Margir telja að menn komist ekki hjá getuleysi með aldrinum en í Danmörku geta u.þ.b. 80 pródent karla stundað samfarir langt fram á áttræðisaldur.

Margir karlmenn leita sér ekki aðstoðar fyrr en getuleysið er farið að ógna sambandi þeirra við makann. Þetta á við um menn á öllum aldri en hálfu og heilu árin geta liðið áður en þeir leita sér hjálpar. Hver sem leitar sér hjálpar vegna kynlífsvandamáls á að sjálfsögðu heimtingu á því að læknirinn takir vandamálið alvarlega. Nauðsynlegt er einnig að læknirinn gefi sér tíma til að ræða vel við bæði hjónin og framkvæma vandaða skoðun, afgreiði þau t.d. ekki bara með lyfseðli.

Lyf við getuleysisvandamálum ber fyrst og fremst að nota við stinningartruflunum af líkamlegum orsökum og fylgja þeim eftir með ráðgjöf því að lyfin ein og sér nægja sjaldnast. Við stinningartruflunum af geðrænum orsökum ætti ráðgjöf og samlífsmeðferð nú eins og áður að hafa forgang – hugsanlega ásamt vissum lyfjum. Heimilislæknirinn ætti að geta veitt þá þjónustu, ef honum býður svo við að horfa, og sem betur fer gera það margir. Ef læknirinn tekur ekki sjálfur verkefnið að sér, eða ef sjúklingi hans fer ekki fram við ráðgjöfina, ber að vísa honum til læknis með kynfræðiþjálfun sem oftast er annaðhvort þvagfæraskurðlæknir eða geðlæknir. Þar sem Viagra stendur nú til boða er hætta á því að læknirinn verði fyrir talsverðum þrýstingi til að skrifa snarlega lyfseðil uppá Viagra. Vonandi standast sem flestir læknar þann þrýsting.

En eitt er víst: Ef við höldum að samlífsmeðferðaraðilar missi vinnuna vegna Viagra höfum við rangt fyrir okkur.

Greinnin er eftir Preben Hertoft, lækni og prófessor í kynfræðum.