Um vændisverkefni Stígamóta

Þann 8. mars verður að venju haldið upp á afmæli Stígamóta og alþjóðlegan baráttudag kvenna. Vakin verður athygli á kynferðisofbeldi í sinni víðustu mynd. Ársskýrsla Stígamóta verður kynnt fjölmiðlum þennan dag, auk þess sem kastljósinu verður beint að vændi á Íslandi.

Með aukinni reynslu verða okkur æ ljósari tengslin á milli kynferðisofbeldis og vændis. Í því samhengi má nefna að mikilvægustu vitni vændisskýrslu dómsmálaráðherra voru Stígamótakonur og ein þeirra hefur síðan svipt sig lífi. Hjá Stígamótum var af því tilefni stofnaður svokallaður Kristínarsjóður sem reyndar hljóðar aðeins upp á kr. 100.000.- Sá sjóður er ætlaður til þess að fjármagna baráttuna gegn vændisiðnaðinum á Íslandi.

Ráðist verður í margþætt verkefni til þess að bæta þann stuðning sem þegar er veittur hjá Stígamótum við konur í vændi. Í fyrsta lagi verður opnuð símalína fyrir þær konur sem óska eftir stuðningi en treysta sér ekki til þess að koma í viðtal. Nokkrar konur í þeirri stöðu eru þegar í sambandi við Stígamót og ljóst er að þörf þeirra fyrir stuðning er mikil. Síminn verður ókeypis og númerið verður 800 5353.

Dorit Otzen verður sérstakur gestur Stígamóta en hún stýrir Hreiðrinu– athvarfi með víðtækri þjónustu við vændiskonur í Danmörku og hún er einnig forseti International Abolitionist Federation sem eru alþjóðleg samtök sem beita sér gegn vændi. Dorit mun bæði nýta tímann til þess að fræða starfskonur Stígamóta um störf með vændiskonum og hún mun einnig flytja erindi í málstofu sem Stígamót standa fyrir í Norræna húsinu laugardaginn 9. mars kl. 11 – 14.

Að auki er ætlunin að senda tvær starfskonur í starfskynningu til Danmerkur og síðast en ekki síst verður gert kröftugt átak til þess að ná til þeirra kvenna sem á hjálp þurfa að halda.

* Hvíta húsið styður verkefnið með gerð auglýsingaefnis ætlað til vitundarvakningar
* Síminn kostar uppsetningu græns númers
* Hjálparstarf kirkjunnar hefur veitt kr. 300.000.- til verkefnisins Þessum aðilum eru færðar bestu þakkir fyrir framlögin

Vefur Stígamóta, www.stigamot.is