Úlnliðsbrot tilfært

Úlnliðsbrot

 

Það er kallað úlnliðsbrot þegar annað eða bæði framhandleggsbeinin, öln og sveif brotna rétt ofan við úlnliðinn. Þessi brot eru algeng, bæði hjá börnum og fullorðnum.

 


Greining og meðferð

 

 • Brotið eðli þess og lega er greint með röntgenmyndatöku.

   

 • Brot sem liggur vel fær stuðning með gipsspelku meðan það grær í 2-5 vikur.

   

 • Brot sem hefur færst úr skorðum er rétt í deyfingu og gipsað í 4-6 vikur.

   

 • Brot sem eru greinilega óstöðug þarf að rétta og kyrrsetja tryggilega með pinnum og ytri ramma. meðan þau gróa.

   


Brot rétt og kyrrsett með ytri ramma
Réttingin er gerð á skurðstofu í svæfingu eða deyfingu.

 

 • Sjúklingurinn þarf að vera fastandi fyrir aðgerðina, í það minnsta í 4 klst.

   

 • Fjórum skrúfum er komið fyrir, tveimur í handarbaki og tveimur í framhandlegg ofan við brotið.

   

 • Brotið er sett í sem besta legu og haldið stöðugu með ytri ramma, sem festur er á skrúfurnar og heldur brotinu stöðugu meðan það grær.

   

 • Sjúkrahúsdvöl er um 1 sólarhringur.

   

 • Brotið grær á 4-6 vikum.

   


Eftirlit eftir aðgerð

 

 • Skipt er á umbúðum kringum pinnana tvisvar til þrisvar fyrstu vikuna, eftir því hversu mikið blæðir í umbúðirnar. Síðan er skipt vikulega á umbúðum til þess að fylgjast með hvernig sárin gróa og útliti húðarinnar umhverfis pinnana.

   

 • Röntgenmynd er tekin 7-14 dögum eftir aðgerð til að kanna legu brotsins og síðan aftur 4-6 vikur eftir aðgerðina, til að athuga hvort brotið er gróið. Þegar brotið er gróið er bæði ytri rammi og skrúfur fjarlægðar á göngudeild. Það er sársaukalítið og oftast gert án deyfingar.

   

Hugsanlegir fylgikvillar

 

Þú munt finna fyrir verkjum fyrstu dagana en þeir hverfa að mestu á 7-14 dögum.

 

 • Fyrstu dagana sígur oftast bólga og þroti frá brotstaðnum í fingurna. Þetta veldur stirðleika og verkjum. Til að minnka þessi einkenni er gott að hafa hátt undir undir höndinni (höndin hærri en olnboginn) og gera æfingar með fingrum og handlegg (sjá leiðbeiningar).

   

 • Stundum sést erting eða einkenni sýkingar við pinna og það þarf þá að meðhöndla með sýklalyfjum. Einkennin eru aukin eymsli umhverfis pinna, roði og þroti í húð og vessar frá pinnagötum.

   

 • Los á ytri ramma. Gerist ef skrúfa á ramma losnar og þá þarf að koma til skoðunar sem fyrst.

   

 

 

Þjálfun meðan handleggur er með ytri ramma

 

 1. Kreppa hnefann og rétta vel úr fingrunum.

   

 2. Lyfta handleggnum með beinan olnboga fram og upp fyrir höfuð.

   

 3. Rétta og beygja olnboga.

   

 

 

Þjálfun eftir að skrúfur og ytri rammi hafa verið fjarlægð

 

 1. Kreppa hnefann og rétta vel úr fingrunum. Gott er að hafa t.d. svampbolta í lófanum þegar þessi æfing er gerð.

   

 2. Rétta höndina vel upp og beygja hana niður.

   

 3. Snúa um framhandlegg þannig að lófinn vísi til skiptis upp og niður.

   

 4. Hreyfa höndina til beggja hliða.  

   

 

 

Þessi grein er unnin upp úr bæklingi sem Slysa og bráðasvið Landspítalans gaf út í júní 2003

 

Mikilvæg símanúmer:

 

Slysa- og bráðadeild Landspítala í Fossvogi Sími: 543-2000
Endurkomudeild G-3 Landspítala í Fossvogi Sími: 543-2040