Úlfar í sauðagærum: nauðgarar

Nú fer í hönd stærsta ferðahelgi landans með öllu því sem henni fylgir. Flestir leggja af stað glaðir og fullir tilhlökkunar og sjá fyrir sér frábæra skemmtun í góðum vinahóp. Við hjá Stígamótum sem störfum við það að taka á móti fólki sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi, vitum að á útihátíðum þessa helgi, leynast oft úlfar í sauðagærum.Þessir úlfar þekkjast ekki úr hópnum. Þeir geta jafnvel virkað mjög saklausir og hjálplegir, eins og t.d. þegar fólk er í annarlegu ástandi og þegar síst varir, henda þeir af sér gærunni og sýna hárbeittar tennurnar og svífast þá einskis við að koma vilja sínum fram. Nei, þýðir nei, er fyrir þeim eins og að bjóða góðan daginn. Bráðin er þeirra og ekkert annað kemst að.

Hvað er það sem orsakar að sumir litlir strákar verða að úlfum í sauðagærum þegar þeir fullorðnast? Getur verið að þessir úlfar hafi alla sína kynlífsfræðslu úr klámmyndum? Sjái ekki stelpur sem manneskjur með tilfinningar heldur sem kynverur eingöngu og jafnvel sem eitt af hjálpartækjum kynlífsins? Séu fullir af ranghugmyndum um kynlíf, halda að þeir viti allt um stelpur og kynlíf!! Því miður fara þessir úlfar á mis við dýptina í ástarlífi, þar sem gagnkvæm virðing, umhyggja og traust, er það sem veitir fólki fullnægju í samböndum, ekki valdníðsla sem leitt getur til fangelsisdóms.  Klámmyndir gefa mjög óraunhæfa mynd af kynlífi einstaklinga. Þær eru ópersónulegar og gjörsneyddar allri erótík. Það er sorglegt að hugsa til þess að tólf til þrettán ára strákar sem hafa allar upplýsingar um kynlíf í gegnum klám, telji sig vita allt um kynlíf áður en þeir hafa kysst stelpu í fyrsta skipti!!

Kynlífsdýrkunin er mikil í okkar samfélagi og margar stelpur óttast að segja nei við kynlífi af ótta við höfnun. En hver og ein manneskja á rétt á að segja nei, þegar hún vill ekki kynlíf. Kynlíf verður að vera samþykkt af báðum aðilum til þess að hægt sé að njóta þess með virðingu.

Það er nauðgun ef þú hefur samfarir við manneskju sem sem segist ekki vilja samfarir og/eða vill stoppa þær þegar þær hafa hafist. Það er nauðgun ef þú hefur samfarir við manneskju sem er ofurölvi og eða brennivínsdauð og getur ekki vegna ástands síns gefið samþykki sitt.Ef þú reynir að koma vilja þínum fram við aðra manneskju án hennar samþykkis, er það tilraun til nauðgunar.Nauðgun er aldrei réttlætanleg og það er alltaf nauðgarinn sem ber ábyrgð á henni!!!

Nauðgun er glæpur samkvæmt lögum sem refsa á með fangelsisvist.Nauðgun er eitt alvarlegasta áfall sem manneskja getur orðið fyrir í lífinu og setur djúpt spor í sál viðkomandi. Ef þú verður fyrir nauðgun þá er mikilvægt að:

1)  Þvo sér ekki (vegna sönnunargagna).

2)  Leita uppi lögreglu eða hjúkrunarfólk (yfirleitt á mótssvæðum).

höf: Björg Gísladóttir ráðgjafi hjá Stígamótum