Tvær hliðar á sama peningnum

Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands.

Misrétti í samningum um alþjóðleg mannréttindi hefur verið skilgreint sem hvers kyns aðgreining, útilokun, takmörkun eða forgangur sem byggist á félagslegri stöðu, einkennum eða uppruna og hefur það markmið eða þau áhrif að koma í veg fyrir eða hamla að einstaklingar fái viðurkennd, geti notið eða framfylgt mannréttindum sínum og aðgengi að öllum sviðum samfélagsins á jafnréttisgrundvelli. Fordómar byggðir á staðalmyndum um hópa fólks sem hafa einhver sameiginleg einkenni, t.d. uppruna, útlit, fötlun eða kynhneigð, leiða oft til mismununar sem takmarkar tækifæri einstaklinganna til þátttöku í samfélaginu og gerir það að verkum að þeir sem fyrir mismununinni verða njóta ekki mannréttinda.

Fordómar eru særandi því þeir ræna fólk möguleika á að sýna hvert það raunverulega er. Dæmi um þetta er þegar einstaklingur sækir um vinnu og atvinnurekandinn dæmir hann eftir einhverjum ákveðnum einkennum og þeirri staðalmynd sem hann hefur gert sér um fólk með þessi einkenni. Þannig eru fordómar og mismunun tvær hliðar á sama peningnum því sá sem hefur fordómana lætur þá hafa áhrif á hegðun sína og hefur vald til að taka ákvarðanir samkvæmt því.

Þar sem fordómar stoppa yfirleitt ekki í höfðinu á fólki heldur hafa áhrif á hegðun þess eru fordómar rótin að einstaklingsbundnum tilfellum misréttis og hafa margvísleg áhrif á líf og líðan þess sem fyrir fordómunum verður. Birtingarmyndir fordóma eru margvíslegar, dónaleg framkoma, lítilsvirðing, félagleg útilokun eða lögbundið misrétti. Það má segja að dónaleg framkoma við einstakling og lögbundið misrétti séu ólíkar birtingarmyndir sem þó eru sprottnar af sama meiði, þ.e. fordómum.

Því fylgir gífurleg vanlíðan að verða fyrir mismunun af hvaða tagi sem er, jafnvel á hverjum einasta degi og þannig hafa fordómar áhrif á andlega og líkamlega líðan þeirra sem fyrir þeim verða og hafa afgerandi áhrif á stöðu þeirra í samfélaginu og afkomu þeirra í lífinu. Í hvert skipti sem einhver telur sig vita hvernig persónuleiki einhvers einstaklings er, sem hann þekkir ekki, er um fordóma að ræða. Að taka ákvarðanir byggðar á fordómum er þáttur í því að koma í veg fyrir að sá sem fyrir fordómunum verður njóti félagslegs réttlætis.