Trúnaðarsíminn – börn í vanda

Er eðlilegt að eiga erfitt með að eiga góð samskipti við foreldra?

Tilveran getur verið ömurleg og erfið á köflum þótt þú eigir góða að. Oft verða krakkar leiðir og reiðir ef þeim finnst samband við foreldra sína vera slæmt. Sumum finnst foreldrar sínir haga sér heimskulega – hvort í sínu lagi eða þegar þau eru saman. Málið snýst um það hvernig fjölskyldumeðlimum líður saman á heimilinu.

Í sumum fjölskyldum er rifist mikið, pabbinn öskrar, móðirin grætur og þú heldur fyrir eyrun eða lokar þig inni í herberginu þínu.

Í öðrum fjölskyldum ríkir kannski meiri friður en þar getur verið tómlegt og kuldalegt andrúmsloft. Foreldrarnir sinna hvort sínum málum, tala ekki mikið saman og kannski alls ekki við börnin. Það ríkir enginn kærleikur á heimilinu. Það skortir hlýju og þú hefur engan sem þú getur trúað fyrir þínum hjartans málum.

Þær fjölskyldur eru einnig til þar sem þeir fullorðnu eru beinlínis vondirvið börnin, hæðast að þeim, stríða þeim, þegja þau í hel eða berja þau. Þá er ekkert undarlegt við það að börnin verði döpur, óttaslegin og reið.

Svo eru það fjölskyldurnar þar sem allt virðist leika í lyndi. Foreldrarnir eru í góðum störfum, þéna vel, eiga hús, bíl, hund og veluppalin börn sem gera það sem þeim er sagt. Ef þú ert barn í þannig fjölskyldu getur verið erfitt að koma orðum að þeim hlutum sem þú ert leiður yfir.

Er mikilvægt að tala um vandamálin við einhvern?

Kannski viltu síður valda foreldrum þínum vonbrigðum með því að fara að ræða óþægilega hluti við þá. Þá getur verið að þú byrgir óánægju þína því innra með þér.

Óánægjan getur stafað af ýmsu. Vandamálið getur snert skólann, vinina, kærastann/kærustuna eða verið eitthvað sem þú hefur gert og þér finnst ekki rétt eða þú sérð eftir. Það getur líka snúist um óskir þínar, eitthvað sem þig langar í eða langar til að prófa, framtíðardrauma sem þú sérð ekki alveg hvernig hægt er að láta rætast.

Þér finnst þú ekki geta talað við foreldra þína um þessi mál af því þú gerir ekki ráð fyrir að þau skilji þig, þetta er svo fjarlægt þeim og veröld þeirra. Svona hugsanir og tilfinningar geta þvælst svo lengi fyrir að loks finnst þér jörðin vera að brenna undir fótum þér. Þig langar mest til að flýja þetta allt, fela þig eða láta þig hverfa.

Það er ekki gott ef þér líður þannig.

Við hvern get ég talað?

Þú getur reynt að athuga hvort ekki finnst einhver í hópi þinna nánustu sem þú berð sérstakt traust til. Einhver sem þú telur að geti skilið þig á réttan hátt ef þú trúir honum eða henni fyrir hugsunum þínum og tilfinningum. Það gæti verið frænka eða frændi, nágranni, kennari, læknirinn þinn eða einhver vinur.

Ef þú finnur einhvern skaltu biðja hann eða hana að hlusta á þig og byrja á að segja að það sem þú ætlar að segja sé þér mikilvægt alvörumál. Þú þurfir á hjálp hans/hennar að halda. Vonandi verður þetta til þess að þú getir loftað út úr sálinni og áttað þig á hlutunum.

Hvað á ég að gera ef ég hef engan til að tala við?

Ef þú þekkir engan sem þú getur talað við kemur til greina að treysta öðrum fyrir vandamálum þínum. Þú getur hringt í Trúnaðarsíma Rauða krossins í síma 511 5151 eða gjaldfrjálst númer 800 5151. Trúnaðarsíminn er opinn alla daga frá klukkan 12 á hádegi til 12 á miðnætti og kostar ekkert. Eins og nafnið bendir til eru allir þeir sem svara í Trúnaðarsímann bundnir þagnarskildu við þann sem hringir. Ungt fólk getur hringt í Trúaðarsímann og fengið ráð og leiðbeiningar varðandi vandamál sín. Í Trúnaðarsímann svarar fólk sem hefur þekkingu á og reynslu af vinnu með ungt fólk og vandamál þess. Ef þú vilt heldur tala um hlutina augliti til auglitis er þér velkomið að koma við í Rauðakrosshúsinu, Tjarnargötu 35. Þangað ertu velkomin/n og getur þú spjallað við starfsmann án þess að gera boð á undan þér.

Neyðarathvarf Rauða krossins

Sorg og viðbrögð við áföllum