Töfrar 1-2-3 Er aginn í góðu lagi í skólastofunni?

*Allir vita að forsenda dyggða og gilda er góður agi, fáir hugsa um það *Mistökin felast í að tala við börn eins og þau séu lítil

Agakerfi/Til að fræða barn og mennta þarf jafnframt að temja það og aga. Maðurinn hefur glímt við agann frá upphafi vega. Gunnar Hersveinn segir frá aðferðinni Töfrar 1-2-3 á íslensku.

Ræður um aga hafa sennilega verið fluttar frá upphafi vega. Agi er eilíf glíma allra kynslóða. Svo virðist sem aldrei megi slaka á klónni, því ef það er gert fjarar árangurinn út. Páll postuli skrifaði um agavandamálin í Hebreabréfi 12. kafla. Hann ber t.d. saman aga guðs og aga manna: „Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar…Þolið aga. …Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?…Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?… Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ (Heb. 12. 6-12).

Agaleysi í íslenskum skólum er heldur ekki nýtt umræðuefni, en nokkuð augljóst er að það helst í hendur við agaleysi barna á heimilum. Ástæða agaleysis er oft hulin og erfitt að lesa hana úr tíðarandanum. Tilnefndar ástæður eru eins og: of lítill frítími foreldra og of mikill frítími barna, sem leiðir til þess að völd þeirra verða of mikil, bæði yfir sjálfum sér og foreldrum sínum.

Forsenda menntunar

 

Agi er forsenda fyrir góðri menntun og kennslu dyggðanna eða gilda eins og samkenndar, virðingar, sanngirni, tillitssemi, ábyrgð, sjálfsaga…allir vita það en fáir fara eftir því. Spurningin er því ævinlega: Hvaða aðferðir eru árangursríkar til að kenna börnum aga? Fræðimenn glíma við þessa spurningu og í nóvember komu út a.m.k. tvær bækur á íslensku sem fjalla um uppeldi og aga á börnum heima og í skóla. Önnur þeirra heitir Töfrar 1-2-3 sem Bryndís Víglundsdóttir þýðir og Salka (Reykjavík 2002 – 230 bls) gefur út. Bókin, sem er eftir bandaríska sálfræðinginn dr. Thomas W. Phelan, heitir á frummálinu1-2-3 Magic. Hún fjallar um að ná stjórn á hegðun barna (og sjálfs sín) með því að kenna þeim og þjálfa þau í að ná tökum á hegðun sinni.

Bókin fellur vel inn í umræðuna undanfarið um aðferðir til að halda aga í skólastofum, en nokkrar fréttir hafa birst í Morgunblaðinu um svokallaða „Gulu- og rauðuspjalda-aðferðina“ sem kenna má við atferlisstefnu, og tekin hefur verið upp í nokkrum bekkjum. Töfrar 1-2-3 er af sama meiði og er sennilega notuð í ýmsum bekkjum, því aðferðin er mjög vel þekkt og reynd.

Ábyrgðin hjá foreldrum

 

„Uppalendur og kennarar í Bandaríkjunum nota margir hugmyndir dr. Phelans og ég held að þær gætu stutt foreldra og aðra uppalendur hér,“ segir þýðandinn. „Mér finnst styrkur bókarinnar einkum felast í því að í henni er uppalendum bent á leiðir til að takast á við ótæka/erfiða hegðun og þannig verður þessi hegðun verkefni frekar en vandamál. Einnig eru skilaboðin skýr; að ábyrgðin er hjá foreldrunum, og öðrum uppalendum, að þeir séu réttlátir, staðfastir og sjálfum sér samkvæmir. En foreldrarnir eru ekki skildir eftir með sektarkenndina eina heldur fá þeir leiðbeiningar um að standa sig!“

Blaðamaður ákvað að skoða bókina til að kanna hvort hún gæti nýst í skólastarfi. Hugmyndin á bak við hana er að benda á einfaldar, nákvæmar og árangursríkar aðferðir til að ráða við börn á aldrinum u.þ.b. tveggja til tólf ára. Einnig að auðvelt sé að læra þær fyrir nánast hvern sem er. Aðferðin hefur verið þróuð og stunduð frá árinu 1984, þótt grunnaðferðin sé eldri, og er sögð ein vinsælasta uppeldisaðferðin í Ameríku. Gefin hafa verið út 500.000 þúsund eintök af bókinni, 85.000 þús myndbönd og 1.025 námskeið haldin síðast þegar talið var. Aðferðin er ekki úr lausu lofti gripin, hún er bersýnilega afbrigði af atferlisstefnunni.

Mistök uppalenda

 

Höfundurinn telur meginmistök uppalenda felast í því að tala við börn eins og þau séu litlar útgáfur af fullorðnu fólki. Í stað þess að leiðast út í þrætur, rifrildi, hávaða og reiðiköst, eigi þeir að geta fengið barnið til að fara að borða, læra, koma sér í rúmið, taka til í herberginu og drífa sig á fætur með því að 1. hrósa, 2. mæla tímann, t.d. með eldhúsklukku, 3. skerða (taka t.d. af vasapeningum), 4. láta barnið taka eðlilegum afleiðingum gerða sinna, 5. skrá. 6. nota afbrigði af 1-2-3 aðferðinni, dæmi um það: „Dóttir þín sem er að koma heim úr skólanum hendir úlpunni á gólfið. Þú biður hana að hengja úlpuna upp og hún gerir það ekki. Þú segir ekki annað en, þetta er 1. Ef þú verður að telja fyrir hana upp í 3 fer hún inn í herbergi. Þegar hún kemur fram biður þú hana aftur að hengja úlpuna upp. Ef hún gerir það ekki fer hún aftur inn. Þessu er haldið áfram þar til hún skilur hvað er verið að tala um.“ (114).

Í bókinni stendur að tvenn algengustu mistök foreldra og kennara í samskiptum við börn séu þau að tala of mikið og vera með of mikinn æsing. „Þras er slæmt af því að annaðhvort hrífur það ekki eða það dregur þig inn í tala-sannfæra-þrátta-rífast-slá ferlið.“ (25). Aðferðin 1-2-3 er talning í stað þrætu, notuð til að fást við hegðun sem þarf að stöðva. Hún er hinsvegar ekki notuð til að fá börn til að gera eitthvað. Hugmyndin á bak við þetta er að nota fá orð og sýna engan æsing, og ná árangri.

Suðað um súkkulaði

 

Dæmi til að varpa ljósi á aðferðina er af barni sem suðar um súkkulaði rétt fyrir matinn. Uppalandinn vill ekki verða við óskinni. Ef hann fer að rökræða málið, þræta, rífast og jafnvel að æsa sig er hann kominn á algjörar villigötur. Uppalandi sem notar aðferðina og hefur skýrt hana út fyrir barninu fer öðruvísi að. (Ef til vill má segja að „einn“ merki gult spjald, „tveir“ tvö gul spjöld, og „þrír“ rautt spjald og skerðingu.)

Samtalið um súkkulaðið gæti því orðið svona:

„Má ég fá súkkulaði?“

„Nei, væna mín.“

„Af hverju ekki?“

„Af því við borðum

eftir smástund.“

„Já, en mig langar í súkkulaði.“

„Þetta er 1.“

„Þú gefur mér aldrei neitt!“

„Þetta er 2.“

„ÞÁ DREP ÉG MIG OG

STRÝK SVO AÐ HEIMAN!!“

„Þetta er 3, farðu inn í herbergi í fimm mínútur.“ (bls. 36).

Uppalandinn stóð sig vel og má búast við því að þegar barnið er orðið vant þessari aðferð og festunni á bak við hana, að barnið verði fljótara að hlýða.

1-2-3 í skólastofunni

 

Kennarahópar í Bandaríkjunum hafa beitt aðferðinni, með góðum árangri, og er 1-2-3 aðal-agakerfið í mörgum leik- og grunnskólum. Fimmti kaflinn í bókinni Töfrar 1-2-3 er helgaður skólastofunni. En ef börn eiga að geta lært eitthvað í skólanum verður agi að ríkja í skólastofunum.

Mælt er með því að byrja að nota aðferðina á haustin, þótt það sé ekki nauðsynlegt. Mikilvægt er að hafa samráð við börnin um hvað beri að skrá og telja. Málin eru rædd og börnin hjálpa til með að búa til lista yfir æskilega hegðun og óæskilega, hverju beri að hætta og hverju að byrja á. Þrír merkir skerðingu og getur það hjá yngri börnum t.d. merkt að þau þurfi að sitja um stund afsíðis og hjá þeim eldri að þau missi t.d. fimm mínútur af löngu frímínútunum eða þurfi að sitja eftir, eða missi af einhverju skemmtilegu sem bekkjarfélagar fá að gera.

Þögli fingurinn

 

Ef barn hegðar sér illa í bekknum heldur kennarinn upp fingri og segir að þetta sé 1. Sumir kennarar verða svo leiknir að telja að þeim nægir að líta á barnið og rétta upp fingur eins og við á. Þessi aðferð er oft kölluð þögli fingurinn. (166).

Höfundur aðferðarinnar virðist vilja að eitthvað gerist umsvifalaust eftir að kennari hefur talið upp að þremur. Þá er barninu t.d. sagt að fara til hliðar og hugsa sinn gang. Hann segir að margir kennarar láti þessa stund vara í fimm mínútur en ekki nema tvær eða þrjár fyrir leikskólabörn. Ef barnið neitar að fara er litið á það sem meiriháttar agabrot og hægt að senda það til skólastjórans, og það missir einhver réttindi.

Munurinn á foreldrum og kennurum varðandi agann er að foreldrar þurfa ekki að halda aga á tuttugu krökkum heima hjá sér allan daginn. Kennarinn þarf hinsvegar að fylgjast með heilum bekk og hann þarf að vera með agakerfið sem hann beitir vel skráð fyrir hvern og einn nemanda. Og þó! Vonandi eru ekki nema tveir til þrír „ólátabelgir“ í hverjum venjulegum bekk, og vonandi eru þeir ekki óþekkir nema í skamma stund tvo daga vikunnar. Ef svo er ekki þarf kennarinn aðstoð og handleiðslu.

Hin dýrmæta kennslustund

 

Kennarar í Bandaríkjunum hafa nefnt kostina við 1-2-3 aðferðina. Þar er m.a. nefnt að hún er öllum auðlærð og auðskilin; börnum, foreldrum og kennurum. Hægt er að hafa betra skipulag í skólastofunni ef ljóst er hvaða reglur gilda og hvernig aga er framfylgt. Börnin bregðast einnig betur við ef þau vita nákvæmlega afleiðingar hegðun þeirra. (170).

Segja þeir að aðferðin sé svo beinskeytt og einföld að hinn dýrmæti og takmarkaði tími sem tiltækur sé fyrir lærdóminn glatist ekki þegar henni er beitt rétt. Kennarinn fellur ekki í þá gryfju að fara að spjalla um vilja sinn og ákvarðanir við barnið, sannfæra það um að rétt sé að gera X eða hvaðeina annað sem kennarinn hefur fyrirskipað. Einnig á aðferðin að koma í veg fyrir reiði barnsins.

„Tala-sannfæra-þræta-skammast-ferlið“ kemur ekki til greina í kennslustofu. Ef kennari gleymir sér í þjarki við einhvern nemanda, verða hin börnin óróleg og bekkurinn að lokum alveg stjórnlaus. Kennari hefur sagt að 1-2-3 aðferðin í skólastofunni geri honum kleift að vera með aga á þann hátt að nemendur haldi reisn sinni. „Stöðugt er verið að taka á agabrotum og ekki er farið með þau eins og börnin séu annars flokks manneskjur né heldur eins og um persó nulega móðgun sé að ræða. Reglurnar um ekkert tal og engan æsing verða til þess að börnunum finnst þau ekki niðurlægð þegar verið er að aga þau.“ (172).

Börn sem beita brögðum

 

Börn beita brögðum þegar þeim eru settar skorður, þau lúffa ekki og hlýða umhugsunarlaust, heldur kanna hvort sett mörk standist. Erfið börn sýna kennurum sínum og uppalendum smáskammta af áreiti, ógnunum og pínu píslarvætti og búast við góðum árangri, en bera sem betur fer lítið úr býtum því búið er að gera og flokka þessa hegðun. Barnið gerir tilraunir til að losna undan aganum og villa um fyrir uppalandanum.

Meginmarkmið barnsins með því að ögra er að reyna að ná undirtökunum og fá það sem það vill. Gangi það ekki, reynir það hefnd. Krakkar nota sex ráð við fullorðið fólk til þessa: 1. síbyljusuð sem allir þekkja, 2. ógnun; árás samfara reiðikasti, 3. hótun; „ég skal aldrei tala við þig aftur!“ 4. píslarvætti; situr inn í skáp langtímum saman, gráta til að kalla fram sektarkennd, 5. smjaður; reynir að láta uppalanda líða vel í stað þess að gera honum lífið leitt (aldrei til friðs nema þegar það vill eitthvað). 6. uppsteytur; barni sem eru settar skorður brýtur og bramlar, ræðst á viðkomandi eða hleypur burt. (78).

Agaður texti

 

Algengustu ráðin eru þó suð, ógnun og píslarvætti. Í kennslustofunni er smjaður og píslarvættið algengt en ógnun og líkamlegir tilburðir fáséðari en vissulega þekkt.

Í bókinni er svo fjallað um hvernig beita má 1-2-3 aðferinni í leikskólum, í kennslu yngri barna í grunnskólum og eldri barna. Þá er fjallað um ýmsa aðra þætti eins og sjálfstraust, hvernig ýta má undir góða hegðun, og hvernig náð er stjórn á ótækri hegðun. Textinn er agaður og aðferðin auðsjáanlega fáguð, þannig að búið er að kasta öllu sem virkar ekki. Þetta er atferlistækni sem vert er fyrir kennara að kynna sér og ef til vill að gera tilraunir.