TNS og tíðarverkir

Hvað eru tíðarverkir?

Tíðarverkir eru mjög algengir og um 60-70% kvenna finna fyrir þeim. Um fimmtán prósent þessara kvenna eru illa haldnar í einn til tvo daga í mánuði. Algengt er að vandamálið minnki eða hverfi algjörlega eftir barnsburð.

Af hverju koma tíðarverkir?

Það hefur verið sannað að orsök tíðarverkja sé að legið framleiði of mikið magn prostaglandína. Þessi aukni styrkur prostaglandína veldur því að krampi kemur í legið. Krampinn veldur súrefnisskorti og því aukinni framleiðslu prostaglandína.

Áhrif prostaglandínhemjandi lyfja, þ.e. gigtarlyf, er að minnka vöðvaspennuna í leginu sem minnkar þannig tíðarverkinn. Reynslan hefur sýnt að samsetta getnaðarvarnarpillan getur minnkað tíðarverki en ekki er vitað nákvæmlega með hvaða hætti. Því er TNS meðferð auðveld og árangursrík meðferð sérstaklega fyrir þær konur sem ekki geta eða vilja nota getnaðarvarnarpilluna og prostaglandín hemjandi lyf.

Hvað er TNS – Transcutaneus Nerve Stimulation

Er lítið tæki á stærð við sígarettupakka sem sjúkraþjálfarar nota í verkjameðferð. Með notkun TNS er hægt að minnka verkjalyfjainntöku.

Verkun TNS byggir á því að taugar eru örvaðar í gegnum húðina sem hindra sársaukaboð í mænu þannig að þau berist ekki upp til heilans.

Tvenns konar stillingar eru á TNS tækjunum hátíðni og lágtíðni. Hátíðni TNS örvar stórar skyntaugar sem liggja í átt að mænu og látíðni TNS örvar vöðvataugar og er stundum kallað nálarstungu TNS. Verkunin byggir á framleiðslu endorfína, morfín líkamans.

Lítil rafskaut eru límd á húðina þar sem sársaukinn er. Kveikt er á TNS tækinu í um 20 – 60 mín sem minnkar verki í 3-4 klst.

TNS tæki

www.cefar.se

TNS og tíðarverkir

Sjúkraþjálfarar erlendis hafa prófað að nota TNS tæki til meðferðar á tíðarverkjum með góðum árangri. Ég kynni hér tvær rannsóknir á notkun TNS við tíðarverkjum.

Fyrri meðferðin við tíðarverkjum byggist á rannsókn og 10 ára reynslu við verkjamóttökuna á Östra Sjukhuset í Gautaborg. Rannsóknin byggði á því að nota high intensity TNS við mikla tíðarverki þar sem pillan eða prostaglandínhemjandi lyf hafa ekki dugað. Konurnar komu á móttökuna samdægurs eða á fyrsta degi blæðinga. Tækin voru stillt á HT-TNS high intensity stimulation; púlslengd 0,2 msek, 40 – 50 mA styrk og 70-100 Hz í 40 – 60 sek. Aðlögun verður eftir u.þ.b. 10 sek. og slökkt var á tækinu eftir 60 sek, en þá var sársaukinn horfinn. Ef hann var ekki horfinn var meðferðin endurtekin í aðrar 60 – 120 sek. Ein til tvær meðferðir nægja í flestum tilfellum. Rafskautin eru sett á sársaukasvæði á meðan blæðingum stendur oftast á neðri hluta mjóbaks og/eða neðri hluta kviðs. Eftir 60 sekúndna HT-TNS meðferð minnkuðu eða hurfu önnur einkenni s.s. ógleði og svitakóf. Niðurstöður rannsóknarinnar var að TNS virkaði fyrr en naproxen þ.e. eftir 60 sek. og án aukaverkana. Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna þessi aðferð virkar en hún gefur góðan árangur.

Í rannsókn Lewers et al. var tilgangurinn að kanna áhrif nálarstungu TNS við tíðarverkjum. Í rannsókn þessari voru notuð átta rafskaut sem voru á nálarstungupunktum þ.e. Magapunktur 36, Miltapunktur 6, Blöðrupunktar 21 og 29. TNS tækið var stillt á 1 Hz, púlslengd 40 msek, og hæsti þolanlegur styrkur í 30 mín. Ef sjúklingurinn gat þolað hæsta styrk, þá var púlslengd aukin upp í þolanleg mörk.
Niðurstöður þessarar rannsóknarinnar var að tíðarverkir minnkuðu um 50% strax að meðferð lokinni.

Tryggingarstofnun ríksins rekur TNS banka á Grensásdeild LSH. Vilborg Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari sér um útlán tækjanna gegn 5000 kr. skilatryggingu og sjúkraþjálfunarbeiðni þar sem kemur fram að um TNS þjálfun sé að ræða.

Greinin er stytt útgáfa af TNS og tíðarverkir sem birtist í Sjúkraþjálfaranum, 1. tbl. 25. árg., 1997.

http://www.sjukrathjalfun.is